Dálítið um samskipti Jóns Leifs og hátíðarnefndarinnar

Eins og sagði hér að framan þá sendi Jón Leifs enga kantötu á hátíðina. Einhver bréfaskipti munu hafa farið fram milli Jóns og hátíðarnefndarinnar alt frá upphafi en þau munu aðallega hafa fjallað um þátttöku Jóns í tónlistarmálum hátíðarinnar yfirleitt. Um þátttöku hans í kantötumálunum hefur ýmsu verið haldið fram sem ekki er allskostar rétt og má m.a. minnast á blaðaskrif í Morgunblaðinu haustið 1995 þar sem einn greinarhöfundur gefur í skyn að Páll Ísólfsson hafi átt einhvern þátt í því að Jón sendi ekki inn kantötu. (30) Miðað við þær heimildir sem ég hef fundið leikur nokkur vafi um þessa fullyrðingu.

Eins og segir hér að framan, þá barst tilkynning til tónskálda um samningu kantötu við hátíðarljóði í byrjun september 1928. Undirbúningsnefnd Alþingishátíðar barst í október bréf frá Jón Leifs, dagsett í Reykjavík 31. október 1928, þar sem hann biður um ljóðin. Bréfið hljóðar svo:

Samkvæmt tilkynningu undirbúningsnefndar Alþingishátíðar í byrjun sept. þ.á. leyfir undirritaður sér virðingarfyllst að beiðast þess að fá að sjá afrit af ljóðaflokki þeim, sem flytja skal á Alþingishátíðinni 1930. – Ég skuldbind mig til þess að láta ekki af hendi afritið. Ef ljóðaflokkurinn er þannig að mig fýsir að semja lag við hann, þá vildi ég beiðast þess að mega gera tillögur um hvernig samkeppni tónskáldanna verðu hagað.

Virðingarfyllst, Jón Leifs (31)

29 Bréf Haralds Sigurðssonar til Sigfúsar Einarssonar, dagsett 20. maí 1930. Í vörslu Þjóðskjalasafns.
30 Í Morgunblaðinu 11., 22., og 28. nóv. 1995. Höfundur: Hjálmar H. Ragnarsson.
31 Í vörslu þjóðskjalasafns.

Jóni Leifs var ekki nóg að taka þátt í hátíðinni sem tónskáld. Hann vildi einnig hafa áhrif á “hvernig samkeppni tónskáldanna verður hagað”, og að koma með hljómsveit eða hljómsveitarmenn frá þýskalandi til að flytja tónlist á hátíðinni.

Þegar í maí 1928 var Jón Leifs sannfærður um að ekki væri óskað eftir þátttöku hans við skipulagningu hátíðarinnar og hann verði þar með útilokaður sem þátttakandi í keppninni. Þessi sannfæring hans hafði enga fótfestu – óskir hans voru of stórar og því því ekki hægt að ganga að þeim. Ég vil hér skýra þetta mál.

Í bréfi til Íslands skrifar hann:

Eg hlaut að líta á aðgerðir nefndarinnar sem beina tilraun til þess að útiloka mig alveg bæði sem hljómstjóra og tónhöfund úr tónmenntalífi Íslendinga. Eg hlaut að ganga út frá því vísu að nefndin vissi að eg þurfti ekki nema opinbert umboð íslenzkra yfirvalda til þess að annast hljómslátt 1930 til þess að eg fengi þann stuðning héðan, sem gerði mér allar framkvæmdir færar…En eg hlaut einnig að ganga út frá því vísu að nefndin vissi að eg gat ekki komið til greina sem tónskáld 1930 á þeim grundvelli, sem nefndin hefir skapað. (32)

Tvennt mun hafa valdið að Jón var ekki kvaddur til starfa. Eitt var, að hann var búsettur í Þýskalandi og hafði framkvæmdanefnd hátíðarinnar þá þegar verið valin hér á landi með tilliti til tónlistarflutnings. Annað – og hefur það líklega haft meira að segja – var skapferli hans og framkoma í samskiptum við fólk, og þá einkum við hátíðarnefndina.

Jón átti samt sína stuðningsmenn og velvildarmenn. Einn þeirra var Kristján Albertsson, búsettur í París. Sigfúsi Einarssyni barst bréf frá honum þar sem hann biður þess að Jóni Leifs verði ætlað hlutverk sem hljómsveitarstjóra á Alþingishátíðinni. Kristján segir m.a.:

Ég sé í ísl. blöðum að yður hefir verið falin forsjá söngmála á hátíðinni 1930. Ég geri ráð fyrir að ætlast sé til að þar fari fram bæði kórsöngur og hljóðfærasláttur. Ég vil nú mega mæla með því, sem ég geri ráð fyrir að yður hljóti að hafa dottið í hug, að Jóni Leifs verði falið að stjórna hljómsveitinni 1930, – og þá væntanlega taka með sér frá útlöndum fáeina nauðsynlegustu viðbótarkrafta, þannig að hún verði sem viðunanlegast skipuð. Þér farið nærri um að það er ekki tilætlun mín með þessum tilmælum að gera lítið úr hljómsveitarstjórn yðar. En Jón Leifs er eini Íslendingurinn sem sérstaklega hefir lagt fyrir sig hljómsveitarstjórn og 1930 verður Ísland að taka á öllu sem það best á til í viðurvist fjölda erlendra gesta. Ég get ekki skilið að það yrði yður vanheiður, þó að þér létuð yngri kollega yðar fá tækifæri til þess að leggja sitt fram við þetta tækifæri og skiftið svo með ykkur, að þér stjórnuðuð kórinu en hann hljómsveitinni. Þér hafið mitt drengskaparorð fyrir því, að þetta bréf er skrifað án vitundar Jóns Leifs. Hitt er að ég hefi undanfarið fundið á bréfum hans hve mjög honum sárnar ef þjóð hans vill ekki nýta krafta hans og bandar við honum hendinni þegar honum finst að henni gæti orðið lið að kröftum sínum ogkunnáttu. Mér hefir alltaf þótt óskemtileg sundurþykkjan milli J.L. og ykkar heima, ég geng þess ekki dulinn hverja sök á þar að máli skaplyndi hans, en ég myndi fagna því að hún eyddist og samvinna tækist… J.L. hefir nú dvalið á annan áratug í höfuðlandi tónlistarinnar og helgað henni mikla hæfileika og eldheitan áhuga. Hann hefur átt örðugt uppdráttar sakir þess að hann er útlendingur í landi sem á fjölda hljómlistarmanna fram yfir þarfir sínar. (33)

32 Bréf skrifað í Baden Baden 2. maí 1928. Ekki er ljóst til hvers bréfið er stílað en það hefst á orðunum “Háttvirtur landi”.
33 Bréf til Sigfúsar Einarssonar, dags. í París, 17. júní 1928. Í vörslu Þjóðskjalasafns.

Hér kemur ýmislegt fram sem ber að athuga. Kristján er með getgátur þess efnis að líklega muni skaplyndi Jóns eiga þátt í þeirri “sundurþykkju” sem sé milli hans og tónlistarmanna á Íslandi og get ég tekið heilshugar undir það. Jón Leifs treysti engum á Íslandi og áleit sig yfir alla hér hafinn hvað varðaði hæfileika sem tónskáld sem og á öðrum sviðum. Hélt hann því blákalt fram hvað varðaði tónverk sín. Annað athyglisvert kemur einnig fram í bréfi Kristjáns og það er ástæðan fyrir því hvers vegna Jóni gekk illa í Þýskalandi á þeim tíma, þ.e. að Þjóðverjar áttu nóg af velmenntuðu tónlistarfólki sem enga atvinnu hafði. Því var heldur ekki öðruvísi háttað í Þýskalandi en á Íslandi eða í öðrum löndum að yfirleitt gengu heimamenn fyrir í störf. Félag íslenskra hljóðfæraleikara á Íslandi barðist fyrir því síðar að Íslendingar gengju í störfin sem voru laus.

Til að skýra nákvæmlega þessi mál vil ég birta hér bréf Sigfúsar til Kristjáns Albertssonar í fullri lengd, en þar kemur greinilega fram hvernig þessum málum var háttað:

Reykjavík, 17. júlí 1928.
Kæri hr. Kristján Albertsson.

Jeg þakka fyrir brjef yðar, dags. 17. f.m. Þér þurfið ekki að óttast það, að jeg misskilji tilgang eða efni brjefs yðar og færi þar til verri vegar. Jeg veit, að yður gengur ekkert nema gott til. Þjer viljið að Alþingishátíðin verði þjóð okkar til sóma, og það vilja vafalaust allir Íslendingar. Hitt geta að sjálfsögðu orðið skiftar skoðanir um, hver ráð sjeu vænlegust, til þess að svo megi fara.

Jeg ætla að skýra yður stuttlega frá því hvar söngmálum hátíðarinnar er komið. Undirbúningsnefndin ákvað í byrjun, að yrkja skyldi hátíðarljóð (kantötu). Afskifti söngmálanefndarinnar af því máli voru ekki önnur en tillaga um, að samkepni færi fram um “músíkina” eins og textann, og nánari fyrirmæli um, hvernig henni skyldi háttað. Næst er ályktað, samkvæmt tillögu söngmálanefndar, að efnt skuli til tveggja konserta á Þingvöllum, með fornum, íslenskum söngum og tónsmíðum frá síðari tímum (Jeg bið yður um veita því athygli, að tillögur söngmálanefndarinnar áttu að vera miðaðar við Þingvöll eingöngu, samkvæmt beinum fyrirmælum undirbúningsnefndarinnar). Til þess að undirbúa fyrrnefnda konserta þ.e. búa lög og kvæði í hendur söngfólki og hljóðfæraleikurum, var skipuð þriggja mann nefnd og jafnframt skorað opinberlega á íslensk tónskáld heima og erlendis, að senda henni handrit af þeim lögum, er þau ættu í fórum sínum óprentuð og sem þau óskuðu eftir að flutt yrðu á Þingvöllum 1930. Þessi nefnd er skipuð til tryggingar því, að nægilegt efni sje fyrir höndum í ofangreinda konserta, þegar til á að taka og það að þær einar íslenskar tónsmíðar verði teknar til flutnings, sem eru að öllu leyti frambærilegar við slíkt tækifæri – Þjóðhátíð. Í nefndinni eru: Páll Ísólfsson, Emil Thoroddsen og Þórarinn Jónsson. Þrem mönnum hefir og verið falið að kalla saman og velja söngliðið (blandaðan kór) – Sigurði Birkis, Jóni Halldórssyni og Sigurði Þórðarsyni. Um söngstjórnina er ekkert ákveðið ennþá. Og jeg býst ekki við því að jeg geri tillögu um hana fyr en jeg fæ verkefnin í hendur frá þeim Páli, Emil og Þórarni. – Þannig standa þá sakirnar nú (tillögu um landskór o.fl. sem enn er óvíst um, þarf ekki að ræða í þessu sambandi). Nú leyfi jeg mér að spyrja yður:

Teljið þjer líklegt, að Jón Leifs vildi eða þættist geta tekið að sjer stjórn kantötunnar eftir alt, sem hann hefir sagt um það mál í brjefum og blöðum? Getið þjer ennfremur búist við því, að hann vildi hafa afskifti af hinum gömlu lögum (historiskum konsert), úr því að hann virti ekki einu sinni söngmálanefndina svars, er hún skrifaði honum um þau (24. nóv.f.á.) – fyr en 4. mars þ.á. og svaraði þá loks alveg út í hött. Og haldið þjer að síðustu, að hann mundi kæra sig um að stjórna flutningi nýrra tíma tónsmíða, íslenskra (sennil. eftir ýmsa höfunda), úr því að hann álítur, að “önnur listræn og þjóðleg tónverk eru ekki til en þau verk, sem ég (þ.e. Jón Leifs) hefir samið og mun semja”? Jeg efast um það. – En sem sagt, hljómstjóri eða hljómstjórar verða ekki skipaðir nú þegar. Þegar til þess kemur, stafar Jóni engin hætta af “óvild” frá minni hálfu, því að hún er ekki til. Samúð eða andúð mundi og engu ráða um tillögu mínar í þeim efnum sem hjer er um að ræða. Hitt er annað mál að Jón hefir sjálfur á ýmsan hátt – með brjefum sínum til undirbúningsnefndarinnar o.fl. og fl. komið því til leiðar, að það hlýtur að vera vafamál hvort ráðlegt væri eða fært að bera fram tillögu um aðstoð hans. Það gæti helst bjargað ef frá Jóns hendi kæmi tónverk eftir hann sjálfan sem tekið yrði til flutnings.

Þetta segi jeg yður af fullri hreinskilni og í þeirri öruggu von, að þjer misskiljið mig ekki fremur en jeg tillögurnar í brjefi yðar síðast. Jeg er alveg viss um, að þjer mynduð líta svipuðum augum á alt þetta mál, eins og jeg , ef yður væru öll gögn jafnkunnug og allar ástæður.

Með virðingu og vinsemd,

Yðar einlægur, Sigfús Einarsson. (34)

Athyglisverð er setningin hér að ofan sem segir: ” Það gæti helst bjargað ef frá Jóns hendi kæmi tónverk eftir hann sjálfan sem tekið yrði til flutnings”. Kröfur Jóns um þátttöku í hátíðinni voru svo stórar að þær mundu þýða að hátíðarnefndin yrði að haga sér eftir þeim í einu og öllu. Í bréfi til Páls Ísólfssonar í janúar 1929 þar sem hann skrifar um hátíðarljóðin segir m.a.:

Mér persónulega er ekki neitt áhugamál sem þetta snertir, því að mjög óvíst er, hvort eg tek þátt í samkeppninni; mun þó skyldunnar vegna skrifa hátíðarnefndinni um það, til þess að ganga úr skugga um hvort skilyrði til þátttöku minnar eru gefin eða ekki. (35)

34 Úr bréfasafni Sigfúsar Einarssonar í vörslu Þjóðskjalasafns.
35 Bréf til Páls Ísólfssonar sent frá Dresden 9. janúar 1929.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is