Dagblaðaskrif

Ég vil undirstrika tilvitnun í svar Sigfúsar hér að ofan sem segir: “Teljið þjer líklegt, að Jón Leifs vildi eða þættist geta tekið að sjer stjórn kantötunnar eftir alt, sem hann hefir sagt um það mál í brjefum og blöðum?”

Eins og fram kemur hér á undan, þá kom Jón Leifs til Íslands árið 1926 með hljómsveit frá Hamborg og hélt hún tónleika í Færeyjum, á Íslandi og í Noregi. Þetta var mikil framkvæmd frá hendi Jóns og með henni braut hann blað í íslenskri tónlistarsögu. Eftir heimsóknina hingað til lands hlýtur Jón að hafa haldið að þetta væri aðeins fyrsta skref hans á braut tónlistarinnar inn í framtíðina. En það voru hindranir á veginum sem hann hvorki gat né vildi skilja. Af þeim sökum hófust nokkur bréfa- og blaðaskrif milli hans og Alþingishátíðarnefndarinnar.

Upphaf þess máls var á árunum 1921-22. Á þessum árum skrifaði Jón Leifs nokkrar greinar í íslensk dagblöð þar sem hann kynnti hugmyndir um framtíðarþróun tónlistarlífsins. Var í sjálfu sér ekkert athugavert við það, en sá háttur sem hann gerði það á varð ekki til að styðja mál hans. Allt sem gert hafði verði fram að þessu var rangt að hans mati, en HANN vissi hvernig staðið skyldi að málum. Hann dró enga dulu á fyrirlitningu sína á menntunarskorti hjá þeim mönnum sem þó unnu eftir bestu vitund og þekkingu. Haft er eftir Sigfúsi Einarssyni að hann kallaði innlegg Jóns Leifs “unggæðislegan vaðal”. Strax með þessu rak Jón Leifs fleyg í samskipti sín og þess fólks sem vann að uppbyggingu tónlistarlífsins hér heima. Skal nú vikið til ársins 1927.

Í októbermánuði skrifaði Jón Leifs grein í dagblaðið Vísi þar sem hann lýsir óánægju sinni með að bæjarráð Reykjavíkur hefði hafnað umsókn hans um fjárhagslegan stuðning við þá hugmynd að koma með hljómsveit frá Þýskalandi til að leika á Alþingishátíðinni og í fleiri bæjum á Íslandi. Þessari höfnun var ekki aðeins beint gegn umsókn hans, eins og hann sjálfur skrifar:

Ákvörðun þessa fundar mun ekki hafa nein endanleg áhrif á framkvæmd málsins, því að bæði er að ekki nema rúmur helmingur bæjarfulltrúanna var viðstaddur á fundinum og svo hafði bæjarstjórnin áður samþykkt í heild það svar við málaleitun undirbúningsnefndar ríkisins, að neita að taka nokkra ákvörðun um þátttöku í afmælishátíð ríkisins 1930. (36)

Ennfremur skrifaði Jón Leifs í dagblaðið Vísi í desembermánuði sama ár þar sem hann segir álit sitt á þeim persónum sem sjá skyldu um tónlistarmálin:

Eins og kunnugt er hefur höfundur þessarar greinar m.a. sent undirbúningsnefnd Alþingis undir ríkisafmælið 1930 fyrirspurn viðvíkjandi væntanlegri hljómsveitarferð sinni til Íslands og í kringum landið að vori ársins 1930. Þessi nefnd skipaði aðra nefnd, eins og menn vita, svokallað söngnefnd, til þess að “íhuga og gera tillögur um um söng og hljóðfæraslátt á hátíðinni”. Nefndamenn eru fimm. Að eins einn af þeim hefir notið almennrar listmentunar í þessari listgrein. Hinir allir eru að mestu leyti sjálfmentaðir, lítt kunnandi og það jafnvel minst þeir, sem mestar gáfur munu hafa. Enginn þessara nefndamanna hefir stundað nokkurt nám viðvíkjandi hljómsveitarstjórn eða hljómsveitarmeðferð. Þekkingin er því af mjög skornum skamti, jafnvel eftir íslenskum og skandinaviskum mælikvarða. Mennirnir geta verið bestu menn fyrir því, duglegir og tiltölulega færir áhugamenn í söng og hljómslætti. Það er annað eftirtektarvert með þessa nefnd. Allir nefndarmennirnir hafa um langt skeið sýnt lítinn eða engan áhuga og skilning á íslenkum þjóðlögum, stíl þeirra og eðli, nema heldur hið gagnstæða, en til slíkrar þjóðlagarannsóknar eingöngu þarf bæði mikla kunnáttu og mikið starf. (37)

36 Vísir: 30.október 1927.
37 Vísir: 15. desember 1927.

Í sömu grein skrifar hann um kantötuna:

En það er annað komið upp úr kafinu. Það á að stofna til nokkurskonar samkepni um einhverja svonefnda “kantötu”. Svo er til hagað, að slík “kantata” getur aldrei orðið neitt listaverk. Og það er alveg fullvíst, að eins og í haginn er búið, mun ekkert listrænt tónskáld fást til þess að leggja hönd á slíkt verk. Þetta munu flestir eða allir nefndamennirnir vita. Að minsta kosti hefir einn þeirra, hr. Sigfús Einarsson, lýst yfir því í dönsku blaði fyrir fáum árum, að sá söngur og hljóðfærasláttur, sú “musik” yfirhöfuð, sem tíðkast hefir á Íslandi fyrir og eftir aldamótin, teljist ekki til þess, sem á erlendu máli er kallað “Kunstmusik”, þ.e. teljist ekki til listrænna tónlaga og tónmeðferðar. Höfundar þessara laga eru ekki listræn tónskáld, heldur það sem kalla mætti alþýðutónskáld. Það er sjálfsagt að taka lög þeirra fram yfir útlendan lagaleirburð og vændishljómslátt, því að þessi innlendu lög eru hrein að hugarfari, ef svo mætti að orði komast, og ekki siðspillandi eins og erlendu leirburðarlögin. Þó eru þessi íslensku lög ekki þjóðlög, og hafa þau einmitt orðið til þess að útrýma þjóðlögum vorum, þúsund ára fjársjóði, sem nú er verið að reyna að endurreisa. Að því leyti hafa lög íslenskra tónskálda um hálfan annan mannsaldur verið til spillingar. En nú á að bæta við í sama stíl, en um leið frekar að tefja en styrkja alíslenskar tilraunir til þjóðlegra og listrænna tónsmíða! Það er ómögulegt að orðlengja um slíkt. Þjóðin ber ábyrgðina. Og framtíðin mun dæma. (38)

Hvað varðar umrætt tónverk svöruðu Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson fyrir hönd nefndarinnar í Vísi:

Jón Leifs segir, að það sé “komið upp úr kafinu, að stofna eigi til nokkurs konar samkepni um svonefnda kantötu”. En hann bætir því við, að “slík” kantata geti aldrei orðið neitt listaverk. Nefndinni er ekki ljóst, hvers vegna það má ekki takast. Nú ætlar hún einmitt að benda Jóni á ráð, er hún hyggur, að hann muni telja nokkurn veginn óbrigðult. Og ráðið er þetta: Jón Leifs býr til kantötuna – hann sjálfur. Nefndin trúir því ekki fyr en í fulla hnefana að hann vantreysti sjálfum sér til þessa lítilræðis. Þó að Jón telji alveg víst, að ekkert “listrænt tónskáld” muni fást til þess a leggja hönd á “slíkt verk” (kantötuna), þá er sú staðhæfing töluð út í bláinn, og lítt skiljanleg, nema því að eins, að Jón telji ekki upp vera nema eitt “listrænt”, íslenskt tónskáld. Um þetta einn – sjálfan sig – getur hann vitað, en um önnur tónskáld varla. (39)

38 Sama.

39 Vísir: 17. desember 1927.

Sem skýringu á því hvers vegna “slík kantata” aldrei geti orðið að listaverki skrifar Jón Leifs síðar í Morgunblaðið:

Orsökin til þess að kantatan getur ekki orðið listaverk er:
Í fyrsta lagi, að það á að skipa tónskáldinu fyrir um tilhögun verksins með ákveðnum texta fyrirfram, í öðru lagi, að tónskáldið á að eins að fá nokkurra mánaða frest til þess að semja verkið, í þriðja lagi, að engin trygging er gefin fyrir því, að hægt verði að flytja tónlistarverk sómasamlega, svo að það er einnig þess vegna ekki fýsilegt fyrir listrænt tónskáld sem nóg hefir af öðrum veigameiri viðfangsefnum, að eyða tíma til þess að semja eitthvert kantötugutl. En nefndin hefir með neitun sinni um heimsókn hljómsveitar, reynt að skjóta lokur fyrir það, að listræn “musik” verði flutt á afmælishátíð ríkisins. Söngnefndin ein ber ábyrgð á neitun Alþingisnefndarinnar. Þjóðerniskend og sparsemi eru notuð til þess að rökfæra þá neitun, en hvortveggja er aðeins máttvana fyrirsláttur. Þjóðernisleg hlið málsins hefir verið skýrð nægilega og veit hver lesandi, að íslensk þjóðernistónlist verður ekki flutt 1930 nema með aðstoð erlendra hljómsveitarmanna. (40)

Getur nú hver og einn myndað sér skoðun um það hvers vegna Jón Leifs var ekki þáttakandi í þessum hátíðarhöldum.

Eins og áður sagði, þá pantaði Jón Leifs afrit af hátíðarljóðunum síðla árs 1928 og gat hann þess að hann myndi væntanlega semja kantötu við ljóðin ef honum litist þannig á þau. 27. september árið 1929 var tekið til umsagnar bréf frá Jón Leifs. Það hljóðaði svona:

13. september 1929.

Háttvirta nefnd!. Því miður get eg ekki tekið þátt í samkepninni um tónsmíð við Þingvallaljóð Davíðs Stefánssonar. Að vísu hef eg í smíðum kantötu fyrir blandað kór og litla sinfoníuhljómsveit við sjö kvæði úr hátíðarljóðum Davíðs, en eg hefi ekki getað starfað að tónsmíðum um sumarmánuðina og verður verkið ekki fullklárað fyrr en í desember, sennilega. Skyldi nefndi óska að láta athuga verk mitt, þá er það velkomið og nægja í rauninni þeir kaflar, sem nú eru fullgerðir í partitur, til þessa að gefa hugmynd um tónstílinn og gildi verksins.

Með virðingu, Jón Leifs. (41)

Hér tilkynnir hann að hann hafi í smíðum kantötu við 7 kafla úr hátíðarljóðum Davíðs Stefánssonar og getur þess jafnfram að hann búist við að verkinu ljúki í “desember sennilega”. Býðst hann til að senda nefndinni verkið til athugunar ef óskað sé. Þótti sjálfsagt að taka þessu boði, og var Jóni sent símskeyti þess efnis að hann var beðinn að senda handrit sitt til sendiráðsins í Kaupmannahöfn til athugunar.
40 Morgunblaðið: 14. júní 1928.
41 Bréf í vörslu Þjóðskjalasafns.

Í áðurnefndum blaðagreinum þar sem þessi mál eru reifuð árið 1995 kemur fram í máli Hjálmars H. Ragnarssonar að Jón hafi sýnt Páli Ísólfssyni þann hluta kantötunnar sem hann hafði lokið við. Vitnar Hjálmar þar til bréfaskrifa Jóns L. til móður sinnar og segir henni frá samskiptum sínum við Pál:

Greinilega þóttist ég sjá Páls innra mann, þegar eg hitti hann í Lübeck um þetta leyti í fyrra. Eitthvað það fyrsta, sem hann sagði mér, var að þjóðlagaheftið mitt, sem hann hafði litið í væri “bara svínarí”. Svo sýndi eg honum tvo eða þrjá kafla úr kantötu minni, sem þá var í smíðum og þá sagði hann strax, án þess að athuga kaflana til hlítar: “Þetta verk mundi eg aldrei vilja æfa.” Þá skyldi eg hvernig í öllu lá og hætti við að senda “dómnefndinni” kaflana, eins og [eg] var hálfpartinn að hugsa um. Annars var Páll þarna þó að minnsta kosti opinskárri, en ella. (42)

Eins og áður sagði fór Sigfús Einarsson til Kaupmannahafnar 17. október. Mánuði áður, 13. september, ritaði Jón Leifs nefndinni bréf um það að hann sendi ekki inn kantötu. Ef Páll hefði átt að hafa einhver áhrif á kantötumál Jóns Leifs þá hafa þeir hist fyrir þennan tíma. Því segja orðin “um þetta leyti í fyrra” ekkert afgerandi um það, hvort Jón og Páll hafi hittst fyrir 13. september 1929, því ofannefnd tilvitnun er frá bréfi dagsettu 26. nóvember 1930.

Í bréfi til sendiráðsins kemur fram hversu klofinn Jón Leifs var í samskiptum við fólk. Hann virtist vera hinn auðmjúkasti (a.m.k. í þetta skipti) við nefndina á Íslandi, en var síðan ekkert nema hortugheitin í þeirra garð í bréfi sínu til sendiráðsins. Í því segir m.a.:

Háttvirtur sendiherra!
Frá framkvæmdarstjóra Alþingishátíðar 1930 fekk eg símskeyti með beiðni um að senda yður þá kafla af kantötu minni op.13 við 7 af hátíðarljóðum Davíðs Stefánssonar, sem fullkláraðir væru. Ég leyfi mér því virðingarfyllst að spyrjast fyrir um hvaða fyrirmæli þér hafið fengið um þetta, þ.e. hvað þér munduð gera við handritakaflana.
Eg óska ekki að taka þátt í samkeppni um slíka tónsmíð, enda ógerlegt, þar sem að eins 3 kaflar af 7 eru tilbúnir í paritúr. Öðru máli gegnir ef á að skera úr hvort æskilegt sé að eg klári verkið í tæka tíð og að það verði flutt á hátíðinni. Hver ætti að athuga það atriðið? Eg get ekki fallist á að veita þeim mönnum úrskurðarvald í þeim efnum, sem ekki geta talist hlutlausir í minn garð eða líta á hinn forníslenzka þjóðlagastíl tvísöngva og ríma sem ólistrænana “barbarisma”… (43)

Í svari sendiráðsins kemur fram að von sé á Sigfúsi tónskáldi og væri hann einn þeirra, sem dæma ætti um kantöturnar. (44)

42 Morgunblaðið: 22. nóvember 1995.
43 Bréf til Sendiráðsins í Kaupmannahöfn dags. 7. október 1929. Í vörslu Þjóðskjalasafns
44 Bréf dags. 9. október 1929. Í vörslu Þjóðskjalasafns.

Í þessu liggur skýringin á því af hverju Jón Leifs sendi ekki kantötu á Alþingshátíðina árið 1930 á Þingvöllum. Í fyrsta lagi var hann ekki búinn með hana, og í öðru lagi treysti hann ekki þá, – og heldur ekki síðar – neinum þessara manna til að dæma um verk sín. Það leikur því stór vafi á hvort Páll hafi á einn eða annan hátt komið í veg fyrir að Jón Leifs gæti tekið þátt í hátíðarhöldunum, enda er hann hvergi nefndur í þessum samskiptum. Jón kom – að mínu mati – sjálfur í veg fyrir það með framferði sínu. Hafi Páll aftur á móti haft einhver niðrandi orð um kantötu þá sem Jón hafði í smíðum má það þykja undarlegt að Jón hafi tekið tillit til þess. Ætla má að Jón hafi verið orðinn það sjálfstæður á þeim tíma að þrátt fyrir einhvern mótvind þá gæti hann sent inn kantötu eins og allir aðrir þátttakendur gerðu.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is