Björn Franzson

Björn Franzson er fæddur 7. júní 1906 í Engelsviken, Onsöj, Noregi. Faðirinn norskur, en móðirin íslensk. Björn ólst upp á Íslandi frá 4. aldursári og er samkvæmt eðlilegum rökum Íslendingur, en ekki Norðmaður, þrátt fyrir fæðingarstað og faðerni.

Björn hafði á æskuárum yndi af tónlist, en átti aldrei aðgang að hljóðfæri eða nokkurri tilsögn í þeirri listgrein. Hann greip þó jafnan hvert tækifæri, sem bauðst, til að hlýða á góða tónlist, og upp úr 1930 byrjaði hann að afla sér ítarlegri þekkingar í tónfræði, lærði hljómsetningu og kontrapunkt, fyrst hjá dr. Mixa og síðan hjá dr. Urbancic. Síðar var hann við tónlistarnám í Stokkhólmi, meðal annars í Tónlistarakólanum þar. Björn hafði þó jafnan það nám í hjáverkum og lét þessar iðkanir niðurfalla langtímum saman.

Björn hefur samið einsöngslög og kórlög, ennfremur smálög fyrir píanó. Lög þessi eru enn óprentuð, en nokkur einsöngslögin hafa verið sungin opinberlega, þar á meðal „Fjallið eina“ (Jóhannes úr Kötlum).

Björn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1927 og stundaði síðan, árin 1927-31, háskólanám í eðlisfræði og stærðfræði í Þýzkalandi og Danmörku. Hann hefur samið bókina „Efnisheimurinn“, Rvík. 1938, sem er alþýðlegt fræðirit um heimsmynd vísindanna. Ennfremur eru eftir hann greinar og ritgerðir, meðal annars um listir og menningarmál. Tónlistargagnrýnandi Þjóðviljans hefur hann verið síðan 1953.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is