Söngur skólapilta

Bjarni Þorsteinsson kemur fyrst við sögu í sönglífi Reykjavíkur síðasta veturinn, sem hann er í Latínuskólanum, 1882-83, en þá er hann söngstjóri stúdenta- og skólapilta kórsins. Þá var mikið sönglíf í skólanum og söngglaðir skólapiltar létu sér ekki nægja að syngja í söngtímum hjá hinum snjalla söngkennara skólans, Steingrími Johnsen, heldur sungu þeir einnig í hinum sameiginlega söngflokki stúdenta og skólapilta og söngstjórinn var ávallt einn úr þeirra hóp. Og meira að segja, þá létu ekki allir sér þetta nægja, og sungu einnig með „Hörpu“undir stjórnJónasar Helgasonar.

Söngur skólapilta á Langaloftinu hafði verið með helztu viðburðum í hinu fábreytta skemmtanalífi bæjarbúa, allt frá því að þeir héldu þar hina fyrstu opinberu söngskemmtun, sem haldin hefur verið á Íslandi, 2, apríl 1854, undir stjórn söngkennara skólans, Péturs Guðjohnsens. Þá voru fjórrödduð karlakórlög í fyrsta sinn sungin opinberlega hér á landi. Hjá skólapiltum Latínuskólans er hann upprunninni og þeir urðu fyrstir til að syngja „hinn nýja söng“ hjá okkur, lögin eftir Bellman, Wennerberg, Otto Lindblad, Franz Abt og fleiri þekkt tónskáld. Söngfélag skólapilta efndi oftast til söngskemmtunar í skólanum um páskaleytið og buðu bæjarbúum að hlusta á. Aðgangur var ókeypis. Þótti þetta jafnan hin bezta skemmtun. Þá var útisöngur skólapilta á skólatröppunum ávallt skemmtileg tilbreyting í bæjarlífinu. Flestir bæjarbúa bjuggu þá í kvosinni milli Þingholtsins og Grjótaþorpsins. Í lognkyrrðinni hljómaði söngurinn um bæinn og vegfarendur staðnæmdust og margir skunduðu að til að hlusta. Halldór Jónasson frá Eiðum hefur lýst þessu þannig í eftirmælum sínum um Bjarna Þorsteinsson: „Fyrr á dögum, þegar listin var í bernsku, var hérsannnefnt tónlistarhungur allra söngvina; þá þyrsti í söng og tóna. Ef einhversstaðar heyrðist ómur af söng eða hljóðfæraslætti, létu menn allt annað kyrrt liggja og þutu til úr öllum áttum til að hlýða á“.

Þetta er rétt lýsing á þeim músíkþorsta, sem Þá var hjá fólki. „Harpa“ undir stjórn Jónasar Helgasonar söng einnig við og við úti undir beru lofti bæjarbúum til skemmtunar. Tilefnið var ekki annað en góða veðrið. Þegar komið var á söngæfingu, lokkaði góða veðrið söngmennina út og þeir vissu, að söngurinn var vel þeginn af þeimsem á hlýddu. Þessi siður hélzt hjá karlakórum í Reykjavík út öldina og miklu lengur, en nú heyrist ekki karlakór syngja úti nema á þjóðhátíðardaginn og við önnur slík tækifæri. Bærinn er ekki lengur eins og ein stór fjölskylda eins og hann var í gamla daga.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is