Árni Björnsson

Árni Björnsson, píanóleikari og tónskáld, er fæddur 23, desember 1905 að Lóni í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu. Stundaði nám í Tónlistarakólanum í Reykjavík 1930-35. Aðalnámsgrein hans var píanóleikur. Hann hafði lært orgelleik hjá Páli Ísólfssyni áður en hann kom í skólann. Síðar stundaði hann nám við konunglega tónlistarskólann í Manchester í Englandi í flautuleik, sem var aðalnámsgrein hans.

Árni tók virkan þátt í tónlistarlífi Reykjavíkur meðan heilsan leyfði, en hann varð fyrir áfalli sumarið 1952 og hefur ekki notið sín síðan. Hann kann á mörg hljóðfæri og lék í Hljómsveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveitinni (flauta). Einnig lék hann í Lúðrasveit Reykjavíkur og um tíma var hann stjórnandi Lúðrasveitarinnar „Svanur“. Árni er góður píanóleikari og kom hér áður fyrr opinberlega fram sem slíkur á tónleikum í Reykjavík. Tónlistarstörf voru atvinna hans.

Kunnastur er Árni sem tónskáld. Prentuð hafa verið eftir hann m.a., Fimm sönglög (op, 1) og Frelsisljóð (op.10), sem er kantata fyrir hljómsveit og karlakór í tilefni af gildistöku lýðveldisins á Íslandi 1944. Verðlaunalag hans „Syng, frjálsa land“ (Hulda) frá 1944 er prentað í Nýju söngvasafni (1949). Önnur verk eftir hann eru í handritum, þar á meðal píanósónata í d-moll (op. 3), hljómsveitarsvíta (op. 4 ) o.fl.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is