Alþjóðaráð Tónskálda

Eitt þeirra félaga sem Jón Leifs kom á laggirnar var Alþjóðaráð Tónskálda (Conseil International des Compositeurs – CIC). Að frumkvæði Tónskáldafélags Íslands (Jóni Leifs) var boðað til fundar í Reykjavík dagana 12.-17. júní 1954 um stofnun slíks ráðs er gæta skyldi hagsmuna tónskálda á alþjóðlegu sviði. Í ráðinu áttu sæti einn fulltrúi frá hverju landi og voru það fulltrúar félaga “æðri” tónskálda eða þá persónulegir meðlimir. Stofnendur ráðsins voru: Salvatore Allegra frá Ítalíu, Henri Dutilleux frá Frakklandi, Klaus Egge frá Noregi, Hilding Hallnäs frá Svíþjóð, Karl Höller frá Þýskalandi, Oskar Wagner frá Austurríki, Guy Warrack frá Bretlandi og Jón Leifs frá Íslandi. Fundir voru haldnir í sal efri deildar Alþingis. Hinn formlegi stofndagur alþjóðaráðsins var svo 17. júní 1954 en undirskrift skjala fór fram á Þingvöllum þann dag.

Þessi félagsskapur komst aldrei almennilega á flug og þrátt fyrir einlæga viðleitni Jóns Leifs í þá átt að halda honum lifandi lagðist hann endanlega niður árið 1963. Stofnun þessa félags vakti mikla athygli með tímanum og á aðalfundi ráðsins sem haldinn var í London í maí 1955 birtist grein um fundinn í “The Times”. Á þeim fundi bættust við fulltrúar frá Argentínu, Bandaríkjunum, Hollandi og Sviss. Í upphafi greinarinnar í Times segir: “Ísland hefur haft forustuna í herferð, sem gæti haft að einkunnarorðum: Tónskáld allra landa sameinist.” (138) Hér var á ferðinni enn eitt félagið sem Jón Leifs hafði talið nauðsynlegt að kæmist á fót tónlistinni til frama. Meðal svipaðara hugmynda sem hann tók með sér í farteskinu til Íslands í stríðinu voru m.a. stofnun alþjóðlegs útgáfufyrirtækis (sem síðar var Landsútgáfan sem aðeins náði að gefa út fáein smáverk, aðallega þó eftir hann sjálfan) Endurreisn íslensks menningarráðs alþjóðaviðskipta, Þjóðmenningarsamband Íslands, Bandalag Íslendinga erlendis, Landsfegrunarsamband Íslands, Sumarháskóli á Íslandi og einnig “Baðhverfi” við Nesjavelli. Eru þetta bara örfá dæmi um slíkar hugmyndir hans. Frjósemi hans á félagsmálasviði tónlistarinnar var engu minni hjá honum en sem tónskáld.

138 Alþýðublaðið: 15. maí 1955.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is