Alþingishátíðin 1930

Undirbúningur þessarar líklega stærstu og umfangsmestu hátíðar hérlendis á fyrri hluta aldarinnar stóð í mörg ár, en hún var haldin í tilefni 1000 ára afmælis stofnunar Alþingis.

Í mars 1925 skipaði ríkisstjórnin þriggja manna nefnd til að gera tillögur um framkvæmdir og ráðstafanir á Þingvöllum vegna hinnar væntanlegu hátíðar. Páll Ísólfsson var kallaður til sem ráðgjafi vegna tónlistarflutnings á hátíðinni. Árið 1927 var valin þriggja manna nefnd til að finna hátíðarljóð og sátu í henni Árni Pálsson, Guðmundur Finnbogason og Sigurður Nordal. Á sama tíma voru valdir 5 menn til að gera tillögur um lög við hátíðarljóðin og um önnur söngmál hátíðarinnar, en þeir voru Árni Thorsteinsson, Jón Halldórsson, Jón Laxdal, Páll Ísólfsson og Sigfús Einarsson. Þessi tónlistarnefnd ritaði bréf til hátíðarnefndarinnar og bar m.a. upp fyrirspurn þess efnis hvort nefndinni hefði borist nokkar tillögur frá einstaklingum eða félögum sem mætti athuga. Í svari kom fram að nefndin hefði átt tal við Pál Ísólfsson, en jafnframt hefðu borist þrjú bréf frá Jóni Leifs þar sem hann óskaði eftir að koma til Íslands með þýska hljómsveit til að leika á hátíðinni. Því var alfarið hafnað.

Margt ber að skoða í þessu efni. Hvað var það sem vakti fyrir Jóni Leifs að koma með hljómsveit frá Þýskalandi til að leika á svo stórri hátíð í sögu þjóðarinnar? Líklegasta skýringin var perónuleg framagirni og / eða misskilin umhyggja og algjört vanmat á stöðu og metnaði þeirra manna sem stóðu að uppbyggingu tónlistarlífsins í landinu. Einnig ber að undirstrika þann metnað og vilja þeirra sem sáu um tónlistarmálin og tóku ákvarðanir um þau. Hátíðin var fyrst og fremst íslensk, og á henni skyldi flutt íslensk tónlist, af íslenskum tónlistarmönnum að svo miklu leyti sem það var mögulegt. Ef Jón Leifs kæmi með hljómsveit frá Þýskalandi, þá yrði það hann og hans menn sem stæðu í sviðsljósinu en ekki íslenskir tónlistarmenn. Íslenskir hljóðfæraleikarar fengju heldur ekki nein tækifæri til að koma fram á hátíðinni sem samstæður hópur.

Nefndamönnum var það ljóst að mikið átak þyrfti að gera til að íslenskir tónlistarmenn réðu við þetta verkefni, og var því ákveðið að skipa söngstjóra til að gera nánari tillögur og hafa umsjón með öllum framkvæmdum varðandi tónlistarflutning á hátíðinni.

Þann 22. maí 1928 var Sigfús Einarsson skipaður söngstjóri Alþingishátíðarinnar með bréfi dagsettu sama dag (14). Hann hélt nákvæma dagbók (15) um öll sín helstu samskipti við fólk og stofnanir allt fram að hátíðinni og verður ekki annað séð af heimildum en að Sigfús hafi rækt þetta starf af sérstakri alúð og einlægni. Mörg mál þurfti að leysa, og má þar til nefna tillögur um smíði á söngpalli á Þingvöllum, umsjón með að erlendir gestir er tengdust

14 Minnisbók Sigfúsar frá Alþingishátíðinni í vörslu Þjóðskjalasafns.
15 Sama.

 

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is