Allsherjaratkvæðagreiðsla um dagskrárefni útvarpsins

Meðal þess sem Útvarpstíðindi fræðir okkur um í dag, eru niðurstöður allsherjaratkvæðagreiðslu um ýmis málefni Ríkisútvarpsins í byrjun ársins 1943. Þá hafði útvarpið starfað í 12 ár og því komin nokkur reynsla á starfsemi þess. Blaðið var gefið út í mun stærra upplagi en tíðkaðist, og gilti hver atkvæðaseðill, sem barst með blaðinu, fyrir tvo. (88) Spurt var um ýmis form tónlistarflutnings í útvarpinu, en einnig upplestur, erindi, leikrit, og fleira. Atkvæðaseðlar áttu að hafa borist inn fyrir lok 15. desember 1942.

88 Þetta var atkvæðaseðill sem á skyldi skrifa tvö nöfn og heimilisföng. Ætla má að þetta hafi verið gert af hagnýtum ástæðum, en ekki kemur fram hvers vegna. Atkvæðaseðlarnir voru prentaðir í Útvarpstíðindum 1. hefti 1.-14. nóvember 1943.
Í lok janúarmánaðar 1943 birtust svo niðurstöðurnar. Sem samantekt um þetta atriði vil ég birta brot úr grein í Útvarpstíðindum þar sem atkvæðagreiðslunni eru gerð skil. Helstu niðurstöður greinarhöfundar eru þær að algjör ómenning ríki í tónlistarmálum:

Af hljóðfærum fær harmónikkan kúfinn af greiddum atkvæðum, en helztu einleikahljóðfærin, orgel, píanó, fiðla og celló, fá yfir og undir 100 atkv…[harmonikka fékk 976 atk. hin hljóðfærin sem koma næst fá 125,117 og 114 atkvæði] Þessi 4 öndvegishljóðfæri [orgel, píanó, fiðla og selló] virðast eiga litlum vinsældum að fagna hjá fjöldanum…. Í öðrum flokki atkvæðaseðilsins fær kvartettsöngur flest atkvæði. Hljómsveit, voldugasta og umfangsmesta tækið, sem tónlistin á og mörg stórbrotnustu og fegurstu verk eru samin fyrir, hefur næst lægstu atkvæðatölu. Langfæst atkvæði fá strokkvartettar og tríó. Hljómsveit, strokkvartettar, tríó og einsöngur ættu að hafa hæsta atkvæðatölu ef verðleikar réðu. Í þriðja flokki eru niðurstaðan öfug við það, sem vera bæri. Þannig hefði blandaður kór átt að fá flest atkvæði í stað fæstra. Blandaður kór hefur mesta fjölbreytni og stærst raddsvið, enda ólíkt fegurrri og veigameiri verk samin fyrir hann en t.d. karlakór… . (89)

Í flokknum hljómsveitir, strokkvartettar og tríó fékk danshljómsveit Bjarna Böðvarssonar 710 atkvæði; þar á eftir kom Útvarpshljómsveitin með 72 atkvæði og í þriðja sæti Hljómsveit Reykjavíkur með 48 atkvæði. Af orgelleikurum fékk Páll Ísólfsson að sjálfsögðu flest atkvæðin, eða 585, en sá sem næstur honum kom var með 26 atkvæði. Af framansögðu er ekki að undra þótt greinarhöfundi sé mikið niðri fyrir þegar hann kemst að eftirfarandi niðurstöðu:

Úrslit atkvæðagreiðslunnar komu unnendum góðrar tónlistar mjög á óvart. Með þeim er fallinn þungur dómur um tónlistarsmekk meiri hluta hlustenda í landinu. – Jón Eyþórsson sagði einhvertíma, að útvarpið væri ekki skóli eða rannsóknarstofnun, það væri aðeins farvegur fyrir menningu, sem til er með þjóðinni. Ef taka mætti þessi orð J.E. bókstaflega, eða með öðrum orðum fara að vilja meirihlutans í efnis- og mannavali við útvarpið, yrði útkoma sú að Bragi Hlíðberg þendi sína harmóniku á hverju kvöldi í útvarpinu og væri einráður í öllum tónlistarmálum þar. (90)

Þessar niðurstöður varpa skýru ljósi á bréfaskrifin til útvarpsins um allt þetta “sinfoníugaul” – hugtak sem svo oft var notað og vitnað til þegar tala þurfti niðrandi um tónlistarflutning útvarpsins. En einnig var stór hópur hlustenda sem kunni að meta það sem menn kölluðu “góða tónlist”.
Þótt svo stór hópur fólks, sérstaklega í Reykjavík, hafi hvorki sýnt áhuga á né tekið þátt í þessari atkvæðagreiðslu, þá vaknaði skyndilegur áhugi á niðurstöðunum sem urðu tilefni mikilla umræðna og blaðaskrifa. Nöfn allra þeirra sem fengu atkvæði voru birt, og þótti mörgum sem fá atkvæði fengu lítið um að þjóðinni væri birt einhver skjalfest niðurstaða um vinsældir þeirra í útvarpinu. Urðu margir sárir vegna þessa. Útvarpsráð hafnaði allri ábyrgð á þessari skoðunarkönnun – og hafði í rauninni engan áhuga á að hún færi fram. Hafði formaður útvarpsráðs á orði þegar honum var sýndur atkvæðaseðillinn og boðið að ræða fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar að “ekki þyrfti að láta skjalfesta með atkvæðagreiðslu vinsældir harmónikkunnar”.
Ósagt skal látið hvort þessi atkvæðagreiðsla hafi haft eitthvert gildi á þessum tíma, en hún hefur nú í dag og um alla framtíð sögulegt gildi, bæði hvað varðar heiti á þeim hljóðfæraflokkum og einstökum mönnum sem þá komu fram í útvarpi, og einnig má lesa út frá atkvæðatölunum vissar niðurstöður um “músíkalskan þroska” þjóðarinnar á þeim tíma. Fróðlegt gæti orðið að gera svipaða könnun nú í dag.– Ég er ekki viss um að niðurstöðurnar yrðu öðruvísi hvað varðar vinsældahlutfallið milli “léttrar” tónlistar og þess sem menn kalla “þyngri” tónlist.

89 Útvarpstíðindi: 11. hefti 1943.
90 Sama.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is