4. gr. Um söng og söngkennslu á Íslandi…

Inngangur: 4. gr.

Um söng og söngkennslu á Íslandi frá því í fornöld og allt til vorra daga

Það vita menn einna fyrst getið um söng og söngkennslu á íslandi, að við skóla þann, er Jón biskup helgi Ögmundarson stofnaði á Hólum í Hjaltadal 1107, var kenndur söngur og söngfræði, og gjörði það franskur prestur að nafni Richini eða Ríkini. Er í fornum bókum farið um þetta svo felldum orðum:

Heilagr Jón biskup tók marga menn til kennslu, ok fekk til góðan meistara at kenna grammaticam. – – – En einn franzeis, sæmiligan prestmann er Ríkini hét, capalín sinn, fekk hann til at kenna sönglist ok versgerð. Ríkini var klerkr góðr, bæði diktaði hann val ok versaði, ok svá glöggr var hann í sönglist ok minnigr, at hann kunni utanbókar allan söng á tólf mánuðum, bæði í dagtíðum ok óttusönguni, með öruggri tóna setning ok hljóða grein, ok þí réðust margra góðra manna börn undir hönd þessum tveim meistarum, sumir at nema látinu, en aðrir söng, eða hvárttveggja – – –. Við þessum tók Ríkini prestr öllum – – – ok elskaði sem einka sonu. – – –. Hér mátti sjá um öll hús biskupsstólsins mikla iðn ok athöfn: sumir lásu heilagar ritningar, sumir rituðu, sumir sungu, sumir námu, sumir kenndu, – – – ok þegar signum var til tíða gort, skunduðu allir þegar úr sínum smákofum til kirkjunnar. – – – Meðr tíða upphafning hófst í kirkjunni fagrlig samhljóðan söngsins í kórinum, ok hófst sætlig hljóð raddann. (1)

Hjer má og, svona snemma á öldum, sjá hinn fyrsta vísi til kvennfræðslu vor á meðal eða jafnvel til samskóla fyrir karla og konur, þótt ótrúlegt þyki; því svo stendur skrifað, eptir að taldir eru upp margir, er á þennan skóla gengu og urðu síðan hinir mestu fræðimenn, guðfræðingar, latínumenn og söngmenn: „Þar var ok í fræðinæmi hreinferðug jungfrú, er Ingunn hét. Öngum þessum var hon lægri í sögðum bóklistum, kenndi hon mörgum grammaticam, ok fræddi hvern, er nema vildi“. (2) Sjálfur var Jón biskup Ögmundarson hinn mesti söngmaður, eins og síðar verður getið. Stóð skóli þessi á Hólum með miklum blóma einnig á 14. öld í tíð Lárenziusar biskups Kálfssonar, er var söngmaður mikill og hinn mesti smekkmaður í þeirri fræðigrein. Um hann stendur svo skráð: „Lét hann jafnan, meðan hann var biskup, skóla halda merkiligan; gengu til skóla jafnan fimtán eðr fleiri; Síra Valþjóf skipaði hann rectorem chori, skyldi hann skipa, hvat hverr skyldi syngja; lét hann ok saman kalla presta ok djákna ok alla klerka fyrir stærstu hátíðir, jól ok páska, Maríumessur; – – – Öll summum festum söng

hann sjálfr fyrir, ok söng messu ok prédikaði sjálfr – – –. Stóð síra Valþjófr jafnan hjá honum ok var hans capellanus. – – – Eptir messuna, sem hann kom í skrúðhúsið, ásakaði hann stundum djákna ok klerka fyrir þat, sem honum þótti órækiliga fara í lestri eðr söng eðr öðrum hlutum – – –. Hvorki vildi hann láta tripla né tvísyngja, kallandi þat leikaraskap, heldr syngja sléttan söng, eptir því sem tónat væri á kórbókum. (3) Lárenzíus biskup var mjög vandur að kunnáttu klerka í söng sem öðru; prófaði hann sjálfur alla þá klerka, er vígslu tóku í hans biskupstíð, og segir sagan, að „hann fór mest at því, hversu þeir sungu ok lásu í heilagri kirkju“. (4)

Með orðinu „að tvísyngja“ er án efa átt við tvísönginn eða kvintsönginn, sem er hjer æfa gamall í landinu eins og síðar mun verða bent á; en með orðinu „að tripla“ er átt við þríraddaðan söng, sem hjer var dálítið tíðkaður á miðöldunum og sýnishorn finnst af í gömlum handritum; er það nóterað hjer síðar í safninu.“
(1) Bisk. sög. I. 239-240.
(2) I. 241.

(3) Bisk. sög. I. 846-7.
(4) Sst. I. 851.

Það má telja víst, að í hinum elztu skólum vorum hafi lítið annað verið kennt í söng en katólskur kirkjusöngur, svipaður þeim söng, er þá og á næstu öldum á undan tíðkaðist í öðrum löndum álfunnar. Allt var á latínu, er sungið var og tónað við tíðagjörðir á þeim tímum og lengi eptir það, og var meira að segja alþýðu gjört að skyldu, að kunna á latínu bæði Pater noster og Ave Maria. Var hinn katólski tíðasöngur einnig opt kallaður
latínusöngur; hann var í eðli sínu seinn og nokkuð þunglamalegur og byggður á hinum svo kallaða gregóríanska söng. Hafði kirkjusöngurinn, bæði þá og síðar, áhrif á hinn verzlega söng hjá oss, og því má finna áhrif hins gregóríanska söngs einnig í veraldlegum lögum hjá oss langt fram eptir öldum, jafnvel fram á 19. öld. A öðrum stað í safni þessu verður nánar minnzt á þennan söng, sem kenndur er við Gregór páfa hinn mikla í Rómaborg (d. 604).

Allur þessi katólski tíðasöngur var mjög snemma á öldum skráður á tíðabækur eða kórbækur; hjetu slíkar bækur einnig Antiphonaria. Um eitt slíkt æfagamalt, katólskt Antiphonarium, sem jeg hef haft undir höndum, er getið nákvæmlega siðar í safni þessu og nóterað upp úr því sýnishorn af messugjörð vorri í katólskri tíð. Ýmsir hinir fornu biskupar gengu ríkt eptir því, að þessar kórbækur væru til við kirkjurnar og í góðu standi, en misbrestur vildi þó opt vera á því, einkum við hinar minni kirkjur. Þess er getið um Klæng biskup í Skálbolti fyrir miðja 12. öld, að hann ljet rita tíðabækur miklu betri en áður voru, og segir Gunnlaugur múnkur á Þingeyrum um Klæng biskup, að hann hafi ritað margar slíkar bækur, „sem enn sjást at Hólum ok víða annarstaðar“. (5)

Víða er getið um hinn katólska tíðasöng, einkum í Biskupasögunum; það mátti nær því heita svo, að biskupar, klerkar og djáknar væru í þá daga sí-syngjandi. Skulu hjer að eins til færð örfá dæmi, helzt úr sögu Guðmundar góða, Hólabiskups, rjett eptir 1200. Í sögu hans, eptir Arngrím ábóta, stendur svo: (6)

(5) Bisk. sög. I. 83 og 241.
(6) Sst. II 15.

„Einn hátíðardag, sem hann hefir sungit messu fram yfir Credo in unum deum, ok snerist utar með Dominus vobiscum – – –“. Hvort hjer er átt við hið sama Credo in unum deum, sem nóterað er í safni þessu eptir 430 ára gömlu handriti, eða annað, skal látið ósagt. Á sömu bls. stendur enn fremur: „Þat var á öðrum tíma, sem hann flutti guðs embætti, ok hefir upp byrjat Canonem – – –“. Á næstu bls. stendur svo: „Um nætrnar flutti hann fram sofandi messuembættið svá skýrt ok skilit, at stundum gekk með réttri reglu allt til lágasöngva; fór ok aldri lengra fram“. Um lágasöngva og lágamessu er víðar talað í Biskupasögunum. Ákveðinn partur tíðasöngsins var sunginn með miklu lægri róm en hið annað; má og sjá það í Þorlákstíðum hjer á eptir, að mikill munur var á því, hvað sumt var sungið í lægri og dýpri róm en annað. Jafnvel þótt biskuparnir, eins og áður er sagt, ljetu sjer annt um að bæta tíðabækur og fjölga þeim, virðist þó svo, sem klerkum hafi verið gjört að skyldu að kunna sem allra mest utanbókar og að þeir hafi átt að syngja bókarlaust; á það bendir ein tilvitnun úr Guðmundar sögu góða, því einn sá, er tíðir skyldi syngja, gleymdi því einu sinni í miðjum tíðasöngnum, hvað næst átti að koma, og gat ekki leiðrjett sig, sem hann þó hefði átt að geta, ef hann hefði haft eitthvað skrifað að styðjast við; en svo bar til, segir sagan, að Guðmundur góði var á ferð um það leyti, og kom að kirkjunni af tilviljun og veitti hjálp í þessum vandræðum. Þetta er á bls. 110: Guðmundur biskup gerir nú það ráð, „at fara til annarar kirkju; þar var húsbóndi djákn, er vandist at syngja tíðir síð ok árla, sem hans vígslu var tilheyriligt. Hann byrjar aptansöng at primas vesperas várri frú ok segir út yfir Ymnum; siðan hefr hann upp Antiphonam: Nativitas tua, ok eptir hana verðr hans minni svá undarliga sljófat, at hann fær eigi fundit, hversu byrjast Canticum várrar frú; hann segir út þrim sinnum Antiphonam, ok man ei því heldr. Honum segist þá, at skip ferr at landi margmennt. Djákninn segir: Kann vera, at þar sé sá innanborðs, er byrja skal í kveld lofsöng várrar frú. Svá fylldist sú guðsmóður skipun, at herra Guðmundr biskup flutti þar allar tíðir henni til lofs ok dýrðar“. Á bannfæringarsöng er minnzt á einum stað í sömu sögu, bls. 138, þannig: „Síðan gengr biskup til kirkju meðr klerkum sínum ok leikfólki, skrýðist til messu með klerkum sínum ok hefr upp með lágum tón þat Officium, er bannsetning tilheyrir“; en ekki eru, mjer vitanlega, til neinar nótur af því Officio. Mikið gekk á þegar Guðmundur góði dó, 1237, og þá var sungið bæði mikið og lengi, segir sagan: „þegar er biskup var dáinn at Hólum, kemr þar saman öll klerkasveit kirkjunnar með skipuðu bænahaldi ok sálmasöng, ok – – – aldri fell sálmasöngr um alla nóttina“. „Var graptar-embættið gjört með öllum greinum, sem framast voru föng á; klerkar allir í sloppum, en hringt ok sungit sem orkaði“. Og hjá sumum sem sárast syrgðu, „vannst líksöngr hans meirr en vij nátta“.

Hinir katólsku klerkar sungu nær því dag og nótt; þeir klæddust nær miðjum nóttum til óttusöngs, og lásu venjulega Maríutíðir meðan þeir klæddust; svo lögðu þeir sig aptur til svefns. Þá hjet Prima, það sem sungið var síðar á morgnana fyrir aðalmessuna, Tertia það, sera sungið var í aðalmessunni, og Nona það, sem sungið var eptir allt embættið. Svo var aptansöngur á kvöldin með mikilli viðhöfn og svo kallaðar sálutíðir. Hverri tíðagjörð tilheyrði sjerstakur söngur og sjerstakur texti, og hverjum messudegi á árinu tilheyrði að miklu leyti sjerstakur söngur og texti, svo mjög mikið þurfti að nema og kunna til þess, að geta staðið vel í þessari stöðu. En það leiddi eðlilega af söngkennslunni við skólann á Hólum og síðar einnig í Skálholti, að þekking á söng breiddist hjer mjög snemma út meðal lærðu mannanna, og að ýmsir klerkar og biskupar urðu mæta vel að sjer i þeirri grein, auk þess sem margir þeirra höfðu ágæt, sönghljóð. Þess er getið um Jón biskup Ögmundarson hinn helga, þann er stofnaði Hólaskóla, að hann hafi verið afbragðs hörpuleikari: hann heyrði í draumi Davíð konung leika á hörpu mjög fagurlega, og mundi nokkuð af því, er hann vaknaði, og eptir það lagði hann mikla stund á það hljóðfæri. Söngrödd hafði hann haft frábærlega fagra og mikla, og það svo, að hann töfraði og truflaði sjálfan erkibiskupinn í Niðarósi við aptansöng. Svo stóð á, að þegar Jón, sem þá var biskupsefni, kom í Niðarós, að þá var erkibiskup við aptansöng; gekk Jón þá til kirkju með klerkum sínum og tók innan skamms að syngja; varð erkibiskupi svo hverft við það, að hann leit aptur og fram í kirkjuna, því hann vildi vita hver sá maður væri, er slíka rödd hefði, en erkibiskup hafði stranglega bannað klerkum sínum öllum, eldri sem yngri, að líta fram í kirkjuna meðan tíðir væru sungnar, og lagt refsingu við. Eptir aptansönginn spurðu klerkar erkibiskupinn, því hann hefði sjálfur brotið þau lög, er hann hafði sett. Erkibiskup kannaðist við það og mælti: „Satt segi þér; en þó er nú sök til, því at þvílíka rödd heyrða ek aldri fyrr af nokkurs manns barka út ganga, ok má hún heldr þykkja engla röddum lík en manna“. „Virðist ok svá mörgum“, bætir sagan við, „at hinn heilagi Jón hafi allra manna verið bezt raddaðr í þann tíma“. (7) Þorlákur biskup Þórhallsson hinn helgi í Skálholti á síðari hlut 12. aldar var söngmaður mikill, „hann las fagrliga ok söng sætliga“, segir sagan; (8) hann kallaði saman lærða menn og klerka fyrir allar stórhátíðir, til þess að æfa þá í öllu því, er fram átti að fara, bæði lestri og söng, svo allt yrði sem fagurlegast fram flutt. Páll biskup Jónsson, eptirmaður hans í Skálholti og systursonur hans, var svo mikill raddmaður og söngmaður, að söngur hans og rödd bar af öðrum mönnum, þeim er þá voru honum samtíða. Auðunn hinn rauði Hólabiskup hafði rödd svo fagra, háa og skæra, að öllum þótti yndi að heyra söng hans. Bergur Sokkason ábóti að Munkaþverá var menntaður maður í söng umfram flesta menn þá á íslandi; „hann var söngvari harla sæmiligr“. Lárenzíus Kálfsson biskup á Hólum var mesti söngmaður og studdi manna mest að útbreiðslu sönglegrar þekkingar, og er hans áður getið. Hjer má bæta því við, honum viðvíkjandi, að hann á yfirreiðum sínum setti einn prest frá embætti fyrir þá sök, hve illa hann var að sjer í lestri og söng, því biskup prófaði alla klerka í þeim fræðigreinum. Hjet klerkur þessi Eilífur og hjelt Gufudal. Um þetta efni er þannig ritað: „Hann prófuðu visitatores á messusöng ok les, ok prófaðist svá til, at hann kunni nærri lítið í sérhverjum þessara hluta. Þá sagði Laurentius: „prófum hann á cantikanum Audite [coeli]“, ok svá gjörðu þeir; kunni hann víst eigi at lesa Audite. „Ekki má ek“, sagði Eilífr prestr, „gjöra við því, at þér prófit mik á því, sem vandast fái þér“. — — — Tóku visitatores messusöng af Eilífi presti ok allt prestligt embætti, þar til honum væri kennt, eðr hann næmi svá, at hann væri embættisfærr“. (9) Fleiri urðu fyrir þessu en Eilífur, því í næstu línu stendur: „Voru þat ok nokkrir prestar fleiri, at þeir af tóku messusöng fyrir kunnáttuleysi“. (9) Sýnir þetta ljóslega, hve ríkt var eptir gengið.

(7) Bisk. sög. I. 160 og 232.
(8) I. 277.
(9) I. 811.

Í sambandi við þetta mál vil jeg setja hjer tilvitnun eina, nokkuð tvíræða, úr Guðmundar sögu góða Hólabiskups, (10) „at svá sem hann (c: Gunnlaugr múnkr á Þingeyrum) hafði diktat novam historiam sancti Ambrosii, fór hann norðr til Hóla þann tíma, sem biskup var heima, gekk fram í kór næsta kveld fyrir Festum Ambrosii, (11) ok hefr upp at úspurðum biskupinum þat nýja dikt, er hann hafði saman borit; en er þat kemr fyrir herra Guðmund biskup, gengr hann fram í kór ok fyrirbýðr honum undir forboðs pínu at leiða inn nokkura nýjung orlofslausa í sína kirkju; segir miklu lofligra ok kirkjunni makligra þat kompón, er samdi blezaðr faðir Gregorius páfi í Roma. Lætr bróðir Gunnlaugr þá niðr falla ok fekk fyrir dirfð heyriligan kinnroða“.

Af því þetta, sem Gunnlaugur „hóf upp“ í dómkirkjunni er af biskupnum borið saman við „kompón“ Gregors páfa. – en þar með áleit jeg að væri meintur hinn gregóríanski söngur, sem algengastur var í katólsku kirkjunni –, þá gerði jeg ráð fyrir, að hjer hefði verið að ræða bæði um texta (novam historiam) og einnig um söng (kompón), sem Gunnlaugur sjálfur hefði samið, og vildi jeg því láta þetta styðja þá ætlun mína, að lærðir menn hjá oss hafi mjög snemma á öldum fengizt við að semja lög. En prófessor Finnur Jónsson er þeirrar skoðunar, að hjer sje eingöngu um texta að ræða, sem Gunnlaugur hafi samið og síðan lesið hátt og snjallt í kirkjunni, því „kompón“ og að „kompónera“ og að „bera saman“ og að „dikta“ sje í fornum bókum allt haft um það að semja sögur og kvæði og þess konar, en um lagsmíði muni hjer tæplega vera að tala.

(10) Bisk. sög. II. 77.
(11) 4. apríl.

Þess er mjög víða getið í fornsögum vorum, að forfeður vorir hafi haft góð og mikil hljóð, og að skáldin hafi opt og tíðum skemmt með því að kveða við raust kvæði sín og annara, bæði í heimahúsum og á samkomum annars staðar; en að kveða þýðir í fornu máli opt hið sama og að syngja. Ávallt er margt manna var saman komið, hefur kveðskapur verið hafður til skemmtunar mönnum. Sýndu sumir töluverða list í kveðskap sínum, og tóku öðrum fram í þeirri grein. Skal hjer að eins minnzt á tvö dæmi. Þormóður Kolbrúnarskáld (f. fyrir 1000, d. 1030) var hinn bezti kvæðamaður, og ljek það almæli á, segir í sögu hans, að hann kvæði manna bezt á þeim tíma. Skemmti hann Knúti konungi með kveðskap sínum. Einnig kvað hann Bjarkamál hin fornu á Stiklastöðum 1030 rjett fyrir hina nafnfrægu orustu þar; kvað hann þau svo hátt, að heyrði um allan herinn; fannst mönnum mikið um og þótti vel til fundið, en konungur gaf honum gullhring að launum. Þá er þess einnig getið í Grettissögu, að Þorsteinn drómundur, bróðir Grettis, hafi verið raddmaður svo mikill, að varla fannst hans líki. Hafði hann það til skemmtunar sjer og fjelaga sínum í myrkvastofu suður í Miklagarði, skömmu eptir 1030, að kveða kvæði og dró þá ekki af raustinni. Var Almenningsstræti skammt frá fangelsinu og kvað Þorsteinn svo hátt og snjallt að gall við í múrnum og heyrðist langar leiðir. Varð þetta honum til lausnar og lífs; því meðal hinna mörgu, sem um strætið gengu meðan Þorsteinn kvað, var húsfreyjan Spes. Heyrði hún rödd svo fagra, að hún þóttist enga slíka heyrt hafa. Og er hún hafði haft tal af Þorsteini, varð það úr, að hún keypti hann úr fangelsinu. Urðu síðan kærleikar með þeim. Nokkru síðar, er þau sátu tvö ein sem optar, bað hún hann að kveða til skemmtunar og gjörði hann það. En bóndi hennar, er hún hugði fjarri vera, heyrði hina miklu raust, gekk á hljóðið og kom þar að þeim óvörum. Þriðja dæmið mætti nefna sem sönnun þess, hver kynstur af kvæðum skáldin og kvæðamennirnir kunnu utan að á þeim tímum, sem hjer er um að ræða, einkum þeir, sem vanir voru að skemmta með kveðskap. Það er sagt um Stúfblinda, að hann hafi á einu kvöldi skemmt Haraldi konungi harðráða með því að kveða fyrir hann 30 flokka; og er konungur spurði hann, hvort hann kynni engar drápur, svaraði hann, að hann kynni þær ekki færri, og kvaðst seinna skyldu með þeim skemmta. (12)

(12) F. Jónsson: Bókm.saga Ísl., Kmh. 1904, bls. 31.

Á 16. öld er getið um tvo ágæta söngmenn hjá oss, þótt eflaust hafi þeir verið miklu fleiri; en það eru þeir síra Erasmus Villaðsson á Breiðabólsstað í Fljótshlíð og Sigurður Stefánsson skólameistari í Skálholti. Þá var einnig uppi Söngva-Borga, móðursystir Guðbrands biskups Þorlákssonar. Söng hún frábærlega vel og mikið og fjekk af því viðurnefni sitt.

Forfeður vorir, einkum lærðu mennirnir, höfðu hinar mestu mætur á söng og hljóðfæraleik; sjest það meðal annars á því, að þar sem fornritin minnast á sælu annars lífs í himnaríki, láta þau hana einkum vera fólgna í því, að hlusta á sætan englasöng og allskonar fagurlega leikin hljóðfæri. Skulu að eins nefnd þessi tvö dæmi. Í Duggáls leiðslu stendur svo: „í þessum búðum (þ. e. himnaríki) gengu þjótandi með margskonar hljóðum allskonar strengleikar, hörpur, gigjur, simphonia, organa, salterium, pípur með hinum sætustum hljóðum“, og auðvitað allt „án manna höndum“. (13) í öðru lagi má nefna gamalt morgunvers frá katólskri tíð, sem hljóðar svo:

Fagur er söngur í himnahöll,
þá heilagir englar syngja;
skjálfa mun þá veröldin öll,
er dómklukkurnar klingja.
Jungfrú María, rjóðust rós
hlífi og skýli oss frá öllu meini og grandi. (14)

Minnzt er á söng sem almennan meðal landsmanna í mjög gömlu handriti í Stokkhólmi. (15) Eru þar skrifaðar Krossvísur gömlu, sem byrja þannig:

Hlýði allir ýtar snjallir | óði mínum,
guð mig þiggi | þó jeg liggi | þrengdur pínum.

Á eptir kvæðinu stendur þessi klausa í handritinu: “Eptir þessu Krosskvæði hefur tekið verið að kveða með stefjum, svo sem Lilju, Píslargrát, og aðra fleiri þess háttar dikti,

(13) Ól. Dav., Ísl. Skemmt., 236. K. Gíslason, 44 Prøver, 455.
(14) J. Þork., Digtningen, 39.
(15) Nr. 64 fol. pap.
33

því það er elzt haldið allra þeirra. Svo er sagt, að eitthvert sinn hafi púkinn viljað apa sig og kveða eptir bragarhætti þessum, sem þá var mjög afhaldinn, alstaðar almennilega, og Maríuvísur, Krosskvæði og Lilja víða tíðkað í húsunum að syngja og kveða. Hann kvað svo:

Vinduteininn firðar fundu,
fór sú grein af vinduteini,
vinduteinn ljet aldrei undan,
einatt hvein í vinduteini.“ (16)

(16) V.Gödel, Fornisländska handskrfter i kgl. biblioteket i Stockholm. 188.

Er þessi vísa gott sýnishorn af ljóðagerð Kölska, því hann var talinn allvel hagmæltur.

Í sama handriti er getið um Krossvísur Jóns biskups Arasonar, sem byrja þannig:

María drottning, mild og skær,
meyjanna ertu blóm.

Aptan við það kvæði er skrifuð þessi athugasemd í handritinu: „Ljósavatnsfólk svo kallað tíðkaði mjög opt að kveða og syngja þessar vísur, og dreymdi svo látandi erindi:

Göfug iðja gjörist þín
gild á nótt og degi;
sæll er sá er minnist mín;
mundu hvað jeg segi“.

Jafnvel þótt telja megi víst, að í katólskri tíð hafi meiri rækt verið lögð við kirkjusönginn en hinn verzlega söng, vita menn þó með vissu, að á þeim tímum var einnig sungið á veraldlegum samkomum, bæði danskvæði þegar dansað var, – og það var snemma byrjað hjer á landi –, en þó mest andleg kvæði, Maríuvísur og dýrðlingavísur. Þá var það siður í brúðkaupum og öðrum veizlum að drekka minni Krists, Maríu meyjar, heilags anda og ýmissa dýrðlinga, og syngja um leið eitt vers eða fleiri. Söngurinn fyrir þessum minnum var fólginn í því, að sungið var bæði vers, – eitt, tvö eða þrjú –, og slæmur. Versið var optast dróttkvætt, og söng siðamaðurinn það venjulega einn. Slæmurinn var annaðhvort ferskeytt vísa eða nokkurskonar viðlag eða stef með öðrum bragarhætti í hvert sinn er siðamaðurinn hafði lokið við að syngja tvö vísuorð af hinu dróttkvæða versi, svaraði veizlufólkið með því að syngja slæminn. Var slæmurinn þannig sunginn fjórum sinnum með hverju dróttkvæðu versi eða vísu. Sem sýnishorn af þessu skal jeg setja hjer eitt vers úr Cecilíukvæði, sem vant var að syngja um leið og drukkin var skál hinnar heilögu Cecilíu:

Versið:     Sett hefur sjálfur drottinn,
Cecilía, þig, blessuð,
um ókomnar aldir,
ágætust, í hásæti.
Veiti vífið mæta
voldugt oss á foldu
traust eilífrar ástar
almáttugs guðs sáttum.
Slæmurinn:
Fari hjer með fagnaði inni
frú Cecilíu minni.

Telja menn víst, að hinir fornu brúðkaupssiðir hafi haldizt að mestu óbreyttir frá katólskri tíð og allt fram undir 1700, og jafnvel nokkru lengur, þótt eðlilega hyrfi að mestu við siðabótina allt hið forna ákall og dýrkun dýrðlinganna. Siðamaðurinn í hinum fornu brúðkaupum og öllum stórum veizlum átti að sjá um, að allt færi fram eptir rjettum reglum; hann átti að mæla fyrir öllum mönnum og stýra öllum söng; það þurfti því að vera valinn maður, er það starf hafði á hendi, og voru stundum fengnir til þess menn úr fjarlægum hjeruðum. Söngur var venjulega mikill í veizlum þessum, enda stóðu veizlurnar optast í 3-5 daga. Í katólskri tíð var mest haft við sönginn þá er Maríuminni var drukkið, og átti þá hver maður að syngja eitthvað Maríu til lofs og dýrðar, áður en hann drakk minnið.

Þá gat alþýða manna sungið ýmislegt á latínu um Maríu, og var hverju mannsbarni skylt að kunna Ave Maria. (17) Þótti það auka viðhöfnina að miklum mun, ef eitthvað af söngnum fyrir minni Maríu gat verið á latínu. Hversu afbökuð þessi. Latína hafi verið orðin í munni alþýðu eptir siðabótina, og jafnvel fyr, má sjá t. d. í ísl. þjóðsög. I. 60. – Þá er rökkva tók, voru ljós borin i stofuna i veizlunum til forna, og er það ekkert tiltökumál; en því að eins get jeg þess hjer, að töluverður söngur fylgdi þeirri athöfn, og hann á latínu. Fyrst voru borin inn þrjú ljós, og þar eptir voru kveikt miklu fleiri ljós. Siðamaður gekk á undan ljósunum inn í stofuna og söng eða tónaði: Lumen ad revelationem gentium et gloriam plebis tuae, Israel. Þá tekur veizlufólkið eða söngflokkurinn undir og svarar: Gloria patri et filio et spiritui sancto, sicut erat in principio et nunc et semper et in secula seculorum Amen. Alltaf var verið að syngja í veizlum þessum. Þegar konurnar gengu í stofuna, var sungið; þegar konurnar gengu brúðargang úr stofunni og til sængurhúss, var sungið. Þegar brúðhjónin voru háttuð, var hjónaskálin borin í sængurhúsið og sungið fyrir henni, og hún síðan drukkin. Auk þess, sem söngurinn var mjög mikill og margbreyttur, er þess getið, að í brúðkaupsveizlum hafi verið leikið á hljóðfæri til skemmtunar. Þeir, sem stýrðu hljóðfæraslættinum, voru kallaðir spilmenn, og opt stýrðu þeir söngnum líka. Þess er einnig getið, að leikir hafi verið hafðir í brúðkaupsveizlum, líklega hinir sömu og tíðkuðust á vikivökunum; stýrðu spilmennirnir þessum leikjum, enda mun söngur

(17) Hinn mikli heitdagur Eyflrðinga var haldinn á Grund í Eyjafirði 11. marz 1477. Meðal margs annars var þessu lofað í heitbrjefinu:
„Hjer með er hver maður skyldur að syngja Pater noster psaltara og 9 sinuum Ave Maria Maríuinessu í Föstu.

Svo og hjeturn vjer að syngjast skyldu nú 5 messur að hverri alkirkju, hin fyrsta af helgum anda, Onnur af vorri frú, þriðja af öllum guðs englum, fjórða af patronus þeirrar kirkju, fimmta af öllum helgum. Hjer til skyldi almúginn syngja þrjá Pater noster psaltara og tvö Maríuvers psaltara og hafa úti hvorttveggja fyrir páska“. hafa verið samfara þeim flestum. Dansar tíðkuðust einnig í brúðkaupsveizlum til forna og fylgdi þeim ávallt söngur. Hlýtt var aptansöng í kirkjunni, þá er brúðkaupsveizla byrjaði, og morgunsöng í endalok veizlunnar.Þegar svo boðsmennirnir höfðu fengið hesta sína og voru að öllu ferðbúnir var þeim færð hestaskál og þeir síðan sungnir úr hlaði með einhverjum söng, sem var vel til þess fallinn. Það var almennur siður að syngja göfuga gesti úr hlaði, ekki aðeins í brúðkaupsveizlum og öðrum miklum samkomum, heldur ávalt, er menn vildu mikið við hafa. – Það sem sagt er hjer um sönginn í brúðkaupsveizlum til forna er að mestu tekið úr fróðlegri ritgjörð um brúðkaupssiði á íslandi eptir Sæmund Eyjólfsson í Tímariti Bókm.fjel. XVII (1896).

Fyrir 1400 var lítið orkt á íslenzku, sem til kirkjusöngs yrði notað, heldur mestmegnis eða eingöngu á latínu; en það voru ekki að eins latínskir sálmar og Maríuvers, heldur eru einnig til á latínu mjög gömul andleg kvæði, orkt á íslandi og af íslendingum, orkt eptir íslenzkum rímreglum og um íslenzkt efni. Má þar fremst af öllu telja hinn langa söng, er syngja skyldi á messudögum Þorláks biskups hins helga, 20. júli og 23. desember, og venjulega er kallaður Þorlákstíðir; er sá tíðasöngur allur til; hann er allur með nótum og allur í safni þessu. Þá er einnig til Jónsmessusöngur sá, er syngja skyldi á Jónsmessu Hólabiskups hinni fyrri, 3. marz. Voru þessar messur leiddar í lög um 1200 og kvæðin að líkindum orkt um það leyti eða mjög skömmu þar á eptir. Til er einnig texti sá nótnalaus, sem sunginn var á Magnúsmessu Erlingssonar Eyjajarls hinni síðari, 13. desember. Loks eru til brot af tíðasöng hins heilaga Hallvarðs og af tíðum Ólafs konungs helga. Hallvarður hinn helgi dó 1043, og var Hallvarðsmessa haldin heilög 15. maí bæði í Noregi og á íslandi.
(18) AM 640, 4to.

Eptir 1400 fer fyrst að verða vart við íslenzka sálma. Í skinnbók frá 15 öld (18) er íslenzkur sálmur, sem sagt er að syngja skuli á Nikulásmessu, 6. desbr. Þessi skinnbók hefur til forna verið eign kirkjunnar á Ærlæk í Axarfirði; en sú kirkja var einmitt helguð hinum heilaga Nikulási. Sálmur þessi er mjög merkilegur, þótt ekki væri fyrir annað en það, hve gamall hann er. Hann er 4 vers og er prentaður í bók dr. Jóns Þorkelssonar (Digtningen bls. 25); er síðasta versið með nokkuð öðrum bragarhætti en þrjú hin fyrri. Á eptir sálminum stendur þessi klausa í skinnbókinni: „— skulu þessar vísur syngjast með eitt lag og patererum er sungið, hverjar tvær með sama lag, svo sem prósan gengur, utan síðasta vísan syngist með eitt lag og alleluja psallite“.

Hinar katólsku tíðasöngs-bækur voru kallaðar Antiphonaria, og höfðu þær inni að halda allan hinn mikla og margbrotna söng (Antiphonas, Responsoria o. s. frv.), sem syngja skyldi á hverjum helgidegi í árinu, og hafði hver helgidagur alla sína texta og allan sinn söng út af fyrir sig. Þessi var hin venjulega röð á hinum ýmsu pörtum tíðasöngsins: Fyrst Antiphona ad primas vesperas; þá Responsorium; þá Gloria patri; þá Hymnus; þá Antiphona ad Magnificat; þá Magnificat; þá Antiphona ad matutinas; þá Gloria patri; þá Antiphona ad Laudes; þá Hymnus; þá Antiphona ad Benedictus; þá Benedictus; þá Antiphona ad vesperas; þá Alleluja; þá Responsorium; þá Gloria patri; þá Antiphona ad Magnificat; þá Magnificat; þá Hymnus. Sumstaðar var skotið inn í Versus. Þeir Hymni, sem voru algengastir, byrjuðu þannig: Creator alme siderum; Jesus salvator seculi; Sermone blando angelus; Adesto, sancta trinitas; Laus et perennis gloria; Deus creator omnium. Jeg hef haft undir höndum eitt æfagamalt katólskt Antiphonarium, sem til forna hefur heyrt til dómkirkjunni á Hólum, og verður greinilega minnzt á það á öðrum stað í safni þessu.

Áður en skilizt er að fullu og öllu við hinn katólska söng hjá oss, skal jeg í stuttu máli minnast á þau latnesku orð, sem í almanakinu standa út undan sunnudögunum frá föstubyrjun byrjun til hvítasunnu. Er þetta orð við hvern sunnudag byrjun á Introitus fyrir þann dag; var sjerstakur Introitus með sjerstöku lagi fyrir hvern helgidag á árinu; var textinn tekinn beina leið úr ritningunni, optast nær úr Davíðs sálmum.

Introitus á sd. í föstuinngang er tekinn úr Sálm. 31 og byrjar svo: Esto mihi in deum protectorem, et in locum refugii ut salvum me facias.

Á 1. sd. í föstu er hann tekinn úr Sálm. 91 og byrjar svo: Invocavit me et ego exaudiam eum, eripiam eum et gloriíficabo euni, longitudine diérum adiraplebo eum.

Á 2. sd. i föstu úr Sálm. 25: Reminiscere miserationum tuarum et misericordiae tuae, quæ a seculo sunt.

Á 3. sd. í föstu úr Sálm. 25: Oculi mei semper ad dominum, quia ipse evellet de laqueo pedes meos.

Á sd. í miðföstu, Sálm. 66: Lætare Jerusalem, et conventum facite omnes, qui diligitis eam.

Á 5. sd. í föstu, Sálm. 43: Judica me deus, et discerne causam ineam de gente non sancta, ab homine iniquo et doloso eripe nie.

Á pálmasunnudag, Sálm. 22: Domine, ne longe facias auxilium tuum a me.

Á páskadaginn, Sálm. 139: Resurrexi et adhuc tecuni sum.

Á 1. sd. e. páska, 1. Pjet. 2: Quasi modo geniti infantes. Halleluja. Rationabiles sine dolo lac concupiscite.

Á 2. sd. e. páska, Sálm. 33: Misericordia domini plena est terra, verbo dei coeli firmati sunt.

Á 3. sd. e. páska, Sálm. 66: Jubilate deo omnis terra, psalnium dicite nomini ejus, date gloriam laudi ejus.

Á 4. sd. e. páska, Sálm. 98: Cantate domino canticum novum, quia mirabilia fecit dominus.

Á 5. sd. e. páska: Þann Introitus, sem byrjar áRogate, hef jeg ekki getað náð í; en jeg þekki annan gamlan Introitus fyrir þann dag, sem byrjar svo: Vocem jucunditatis annunciate et audiatur.

Á 6. sd. e. páska, Sálm. 27: Exaudi, domine, vocem meam, qua clamavi ad te.

Úr því kom fram á 15. öld hafa farið að koma upp hjá oss skrifaðar sálmasöngsbækur á íslenzku, og er slíkra bóka getið úr því í ýmsum skjölum og máldögum kirkna, og áttu kirkjur þá miklu meira af söngbókum og öðrum bókum en nú á sjer stað. Þessar voru hinar helztu bækur, sem kirkjurnar hjá oss áttu í katólskri tíð, og var nótnasöngur á flestum þeirra, meiri og minni.

Antiphonarium per anni circulum.
Aspiciensbók.
Brefuer, messubrefuer (Breviarium.)
Burtsöngvabók.
Capitularius.
Collectarius.
Commune suffragium með söng og lesi.
Dominicale.
Dominícubók frá páskum til jólaföstu, syngjandi.
Feríubók.
Graduale, grallari.
Guðspjallabók með söng.
Hymnarius, hymnabók.
Kiriall, kyriale.
Kórbók með fornum hætti.
Lágasöngvabók.
Latínubók de canticis canticorum.
Legenda de tempore, legendubók.
Lesbók de sanctis.
Matutinale með söng.
Missale per anni circulum, syngjandi.
Óttusöngvabók.
Psaltari.
Processsionale.
Propriura de sanctis.
Sequentiubók.
Sumarbók de tempore et de sanctis.

Einnig var opt minnzt á jólabækur og páskabækur, sem að líkindum hafa haft inni að halda söng og lesmál að eins fyrir þessar hátíðir.

Ekki er mjer kunnugt um að fyr sje getið söngbóka á íslenzku en í Sigurðar registri. Þar er meðal bóka dómkirkjunnar á Hólum 1525 nefnd „messubók íslenzk, er heldur grallara de tempore med kana“. (19) Er hjer sjálfsagt átt við kirkjusöngsbók með íslenzkum textum; en að hve miklu leyti hjer sje að ræða um innlend lög, er ekki unnt að ákveða. Sömu kirkju tilheyrir 1550 „stór psaltari íslenzkur“, og 1569 „íslenzkur psaltari“, sem eflaust þýðir „íslenzk kirkjusöngsbók“, þar eð Davíðs saltari var þá ekki til á íslenzku, svo menn viti. (20)

(19) AM 269 4to.
(20) J. Þork. Digtningen bls. 27.

Um dansa er víða getið í fornritum vorum (t. d. í Sturlungu og víðar), og hafa eflaust, verið sungin lög við þá, líklega meira eða minna svipuð vikivakalögum þeim, er síðar urðu hjer svo algeng. Það er alkunn saga um Þórð Andrjesson, að kvöldið áður en Gissur jarl ljet drepa hann, hafi hann, á hestbaki, látið hest sinn dansa með sig, og sjálfur hafi hann kveðið við raust danskvæði það, sem þetta var í:

„Mínar eru sorgirnar þungar sem blý“.

Má telja það víst, að dansinn til forna hafi ekki staðið í sambandi við hljóðfæraslátt, heldur hafi að eins verið dansað eptir vísnalögum, sem dansmennirnir sungu, ýmist einn eða fleiri. Arngrímur lærði segir svo: „Kyrrðardansa kalla jeg þá dansa, sem fóru fram eptir settu söngsamræmi, þar sem kvæði eða söngvísur voru við hafðar til að dansa eptir. Þar var einn forsöngvari, og tveir eða fleiri tóku undir með honum, en hinir dönsuðu á meðan. En hringdans eða vikivaki var það, þegar karlar og konur gengu fram á víxl og greindust svo aptur að eða deildust. Hvortveggja tegundin virðist bera keim af grískum dansi, nema að hjer stóðu einstakir menn í röð og sungu söngvísur með afmældum þögnum, hálfa vísuna, en allur flokkurinn tók þær upp aptur og söng í einu hljóði. Var svo endurtekið við enda hverrar vísu upphaf eða niðurlag fyrsta erindis með nokkurskonar tvöföldun, en stundum án hennar“. (21) Þetta segir Arngrímur Jónsson lærði í Íslandslýsingu sinni rjett eptir 1600, – hann dó 1648 –, og er þetta ein hin elzta lýsing á vikivökum á miðöldunum og á því, hvernig sungið var við dansinn.

(21) Crymogæa I. 6. O. Dav. Vikiv. bls. 17.

Ólafur Davíðsson frá Hofi í Hörgárdal hefur skrifað langa og góða ritgjörð um hina íslenzku vikivaka og vikivakakvæði (Kmh. 1894), og má þar lesa ýmsar eldri og yngri lýsingar á því, hvernig þeir leikir og allur sá gleðskapur hefur farið fram; hefur þar verið sameinað í eitt leikir, dans og söngur. Er ritgjörð þessi, eins og kunnugt er, ein af bókum Bókmenntafjelagsins, og er því auðvelt að sjá þar og heyra, hvað menn nú á tímum vita um þessar þjóðlegu skemmtanir, sem hjeldust við fram undir 1800. Magnús konferenzráð Stephensen finnur að þessum skemmtunum eins og mörgu öðru í Eptirmælum 18. aldar; segir hann að vikivakarnir hafi að vísu verið ósönglegir og ósmekklegir söngleikir, en þó skemmt alþýðunni töluvert. Þess er getið, þar sem talað er um rímnalögin í safni þessu, að rímurnar hafi á sínum tíma rutt í burtu danskvæðunum gömlu, og voru rímur um langt árabil kveðnar við dans, og eflaust án hljóðfæris; þar á eptir komu hin eiginlegu vikivakakvæði, og ruddu þau rímunum úr sæti; má telja áreiðanlegt að hljóðfæri hafi mjög lítið verið notuð við vikivaka, heldur hafi að eins verið sungið, líkt og gert hefur verið og gert er enn í dag við hinn gamla þjóðdans Færeyinga. Flest danskvæði Færeyinga eru samskonar kvæði og hin svokölluðu íslenzku Fornkvæði, enda er mjög líklegt, að fornkvæði vor hafi verið sungin opt við dans á vikivökum; og víst er um það, að opt eru sum þeirra kölluð vikivakakvæði, t. d. Ásukvæði, Ólafur liljurós, Stjúpmóðurkvæði o. fl. Líkindi eru til þess, að lögin við vikivakakvæðin hafi ekki verið eins mörg eða margbrotin og bragarhættir kvæðanna, heldur hafi menn getað vikið lögunum lítið eitt við og haft sama lagið við fleiri líka bragarhætti; en nokkuð mörg hljóta lögin að hafa verið; á það benda þær leifar, sem vjer enn þá höfum af vikivakalögunum, svo og hið margbreytilega efni vikivakakvæðanna; því mjög ólíklegt er að fjörugar vísur og fullar af glensi hafi verið sungnar með sama laginu og alvarlegar vísur eða jafnvel andleg kvæði. (22)

(22) Gott dæmi upp á vikivakalög er lagið við Frísadans hjer í safninu o. fl.

Hinn katólski kirkjusöngur eða latínusöngurinn leið að mestu undir lok við siðaskiptin, eins og eðlilegt var, en í hans stað kom hinn lúterski kirkjusöngur, sem stundum er kallaður Grallarasöngur. Fyrst framan af var latínusöngurinn þó ekki útilokaður með öllu; er svo að sjá, af formálanum fyrir 2—5. útgáfu Grallarans, að Guðbrandur biskup hafi ekki viljað að latínusöngurinn fjelli alveg niður: og í formálanum fyrir 6. útgáfunni segir Þórður biskup Þorláksson, að þá sje latínusöngurinn mjög óvíða við hafður á landinu, að undanteknum dómkirkjunum báðum, og þeirra vegna segist hann ekki sleppa honum alveg, svo nokkur munur verði á messugjörðinni á stórhátíðum og á öðrum helgum dögum. Í síðari útgáfum Grallarans er þessum söng með öllu sleppt.
Í hinum fyrstu lútersku sálmabókum, sem út voru gefnar, voru engar nótur. Ólafur Hjaltason, hinn fyrsti lúterski biskup á Norðurlandi (f. 1484), var af Jóni biskupi Arasyni settur frá prestsembætti 1549, af því að Ólafur hafði látið syngja lúterska sálma í Laufáskirkju. Litlu síðar varð Ólafur biskup eptir Jón. Hann var hinn fyrsti biskup, sem tók sjer fyrir hendur að leggja útlenda sálma út á íslenzku, en ekki voru útleggingar hans góðar. Árið 1552 gaf hann einnig út nokkra lúterska sálma á íslenzku, en hvergi er sú bók til nú, svo menn viti. Næstu sálmabókina, hina elztu, sem menn nú þekkja af íslenzkum sálmabókum, gaf út Marteinn Einarsson, biskup í Skálholti, 1555. Formálinn fyrir þeirri bók er eptir þá verandi Sjálandsbiskup Petrus Palladius. Marteinn biskup lagði marga sálma út á íslenzku, og voru útleggingar hans bæði betri en útleggingar Ólafs biskups á undan honum og Gísla biskups á eptir honum. Þrjú eintök vita menn að til sjeu af þessari bók. Næstu sálmabókina ásamt lítaníu og skriptagangi gaf Gísli Jónsson biskup i Skálholti út 1558, og er ekki til nema eitt eintak af þeirri bók, svo menn viti.

Þá kom Guðbrandur biskup Þorláksson til sögunnar, og fyrir hans tilstilli kom út 1589 hin fyrsta sálmabók á íslenzku með nótum. Ekki eru þar nótur nema víð nokkurn hluta sálmanna, en annað er verra, að meira og minna af nótum vantar aptan af flestum lögunum; það er sem sje látið ráðast, hvað kemst af nótum í eina línu (eða tvær, ef lagið er lengra), og svo er því alveg sleppt, sem afgangs vill verða. Textinn er sjer og nóturnar sjer, því að nóturnar eru settar svo þjett í línunum, að ómögulegt er að koma orðunum undir. Þessi bók er töluvert sniðin eptir þeirri útgáfu af hinni dönsku sálmabók Hans Thomissöns, er út kom 1586; sú bók var notuð nær óbreytt í Danmörku frá 1569 til 1699, að Kingós sálmabók kom út. Vjer íslendingar vorum enn þá fastheldnari, því sálmabók Guðbrands biskups var nær því óbreytt notuð hjer í meira en 200 ár, eða þangað til sálmabók Magnúsar Stephensens kom út 1801. En nokkrum sinnum var hún gefin út á því tímabili, og var að eins ein útgáfan töluvert frábrugðin, og er það útgáfan 1772, og sem vanalega er kölluð Höfuðgreinabókin. Fyrsta útgáfan, 1589, er vanalega kölluð Hólabókin, og sama nafni er 2. útgáfa bókarinnar kölluð; en hana gaf Guðbrandur biskup út 1619, og er sú útgáfa miklu betri en hin fyrri, ekki að eins að því leyti, að þar koma fram margir nýir, frumorktir, góðir sálmar, heldur einnig fyrir þá sök, að nóturnar eru þar miklu greinilegri og rjettari.

Guðbrandur biskup var fæddur á Staðarbakka í Miðfirði 1542 og andaðist á Hólum 1627. Hann var biskup á Hólum i 56 ár, og að öllu samtöldu einn hinn merkasti og duglegasti biskup, er vjer höfum nokkru sinni átt.

Þótt nokkuð væri af nótum í sálmabókum Guðbrands, vantaði þó mjög mikið á, að þar væru nótur við alla sálmana; þær bækur var því frekar að skoða sem sálmabækur en sem söngbækur eða kóralbækur. Það var Guðbrandur Þorláksson biskup, sem hljóp hjer undir bagga eins og með fleira þarflegt; hann gaf út fyrstur manna íslenzka sálmasöngsbók, er var í gildi frá þeim tíma og allt fram að 1801, að sálmabók Magnúsar Stephensens kom út. Þessi sálmasöngsbók var Grallarinn, og kom hin fyrsta útgáfa hans út 1594; hann er að mörgu leyti sniðinn eptir Jespersöns Graduale hjá Dönum, útg. 1573. Formálinn fyrir þessari fyrstu útgáfu Grallarans er eptir Odd Einarsson, biskup í Skálholti, og er fyrirsögnin: Um þann sálmasöng, sem tíðkast í kristilegri kirkju, nokkur undirvísun af lærðra manna bókum, þeim til fróðleiks, sem það hafa ekki sjálfir lesið. Formáli þessi er hið fyrsta, sem prentað er á íslenzku um söng, en engin tilsögn í söngfræði er þar veitt. Oddur biskup var talinn mjög vel að sjer í söng og söngfræði, og átti hann mjög mikinn og góðan þátt í þessari 1. útg. Grallarans. Við næstu útg. Grallarans samdi Guðbrandur biskup sjálfur formálann, og stóð sá formáli um stund. Aptan við 6. útgáfu Grallarans er: Appendix, sem er stutt undirvísun um einfaldan söng, fyrir þá, sem lítið eða ekkert þar út í lært hafa, en girnast þó grundvöllinn að vita og sig framar að iðka. Þessi Appendix er 7 bls., og er eptir Þórð biskup Þorláksson, og er hann hin fyrsta söngfræði, sem prentuð hefur verið á íslenzku, því þar er kennt að þekkja nótur og lesa úr „Gammanum“ og einnig er stuttlega drepið á, hvernig eigi að fara að syngja eptir nótum. Er Appendixinn í 6 greinum og er innihald greinanna þetta: „l.gr. Um Gammann og lyklana. 2. gr. Um linan og harðan söng eður þar á milli; cantus mollis, cantus durus, og þar á milli er cantus naturalis. 3. gr. Um samhljóðandi nótur, sem söngvararnir kalla intervalla musica, það er, viss bil milli hljóðanna. 4. gr. Um krapt og merking nótnanna, item um dragnótur. 5. gr. Um nokkur teikn í söngnum. 6. gr. Um choral-söng og figurat-söng“. Sú grein hljóðar svo: „Það kallast choralsöngur, sem hefur jafnar nótur, og nefnist eptir þeim, sem hann hefur fyrstur fundið, Gregorianskur söngur, og má hann sjást í Grallaranum allvíða, einkum í latínusöng. Figurat-söngur kallast sá, sem ekki hefur allar nótur jafnar, heldur sumar lengri en sumar styttri, og nefnist eptir autore, sem hann hefur fyrst fundið, Ambrosianskur söngur; þessi er allvíða í Grallaranum á íslenzkum sálmum, sem misjafnar nótur hafa. Og er þetta svo hin stytzta og einfaldasta undirvísun um grallarasönginn fyrir tyrones, og þá, sem lítt iðkaðir eru í sönglistinni“. – Þetta örstutta ágrip var hin eina söngfræði, sem íslendingar höfðu við að styðjast í hálfa aðra öld, allt þangað til söngfræðis-ágrip Magnúsar Stephensens kom út, aptan við sálmabókina 1801. Þessi Appendix Þórðar biskups er prentaður orðrjettur aptan við allar útgáfur Grallarans eptir þetta, og er hin síðasta útgáfa hans, hin nítjánda, gefin út á Hólum 1779.

Eptir þessum nótum og þessari söngfræði var söngur kenndur bæði í Hólaskóla og í Skálholtsskóla. Ekki er hægt að sanna, að annar söngur hafi verið kenndur þar en sálmasöngur Grallarans og hátíðasöngur sá, sem bar er nóteraður og að miklu leyti er tekinn úr Breitendichs kóralbók. En mikil líkindi eru til þess, að eitthvað meira hafi verið kennt þar, bæði fleiri og önnur sálmalög, lög við andleg kvæði og jafnvel lög við veraldleg kvæði. Að til hafi verið mjög mikið af andlegum lögum á 17. og 18. öld, sem gengu manna á milli, á það bendir annað eins sönglaga-safn eins og Hymnodia sacra Guðmundar Högnasonar prests í Vestmannaeyjum, skrifað 1742, og sem hefur inni að halda yfir 100 andleg lög eða lög við sálma og andleg kvæði, og engin þeirra eru í Grallaranum eða Hólabókunum; finnst mjer ekkert eðlilegra, en að eitthvað af slíkum lögum hafi verið kennt á skólunum jafnhliða Grallarasöngnum. Og að til hafi verið töluvert af veraldlegum lögum, bæði útlendum og innlendum, á það bendir meðal annars formáli Eggerts Ólafssonar fyrir kvæðum hans, þar sem hann segir: „Um þessi kvæði öll má eg það segja í einu orði, að þau sjeu ýmisleg, og það með fernt slag, að viðlögum, bragarháttum. skáldskap og efni. Fyrst eru lögin allsháttar, innlend og útlend, þó flestöll alkunnug, og í þann máta innlend orðin; samt er ei hvert kvæði út í loptið gjört undir því og því viðlagi, heldur með ásetningi valdir tónarnir, hver til síns efnis, svo sem: lystug lög, það er hóflega fljót og fallega breytin að hækkun og lækkun, til lystugs efnis; dimm og torveld lög til sorglegrar ræðu; jöfn og hæg til sjálfráðrar alvöru, hver ei mjög stjórnast af hryggð eða gleði; ójöfn og ákefðarsöm til melankóliskrar tölu; og loksins skemmtin 1ög en þó breytileg til kýmilegs efnis, og þar sem blandast gaman og alvara; er þetta jafnan aðgætandi, þegar menn kveða, og vegna þess er með öðru ein útheimt algjörlegs skálds, að góður smekkur í list og kunnáttu sönglistarinnar sje sameinaður skáldlegu andríki; slíkt hefur gjört hið ágæta skáld Hallgrímur í sálmum sínum, og víða er það auðsjáanlega aðgætt í vorum messusöngum. Nú eru þvílíkar röksemdir til þess, að bæði hjer í kverinu, sem annarsstaðar víða, brúkast stundum að sakleysu rímna- og kvæðalög við sálma, eins og sálmalög við rímur og kvæði, nefnilega, að nauðsyn ber þar til vegna efnisins“. Fleiri minnast á veraldleg lög í landinu um þær mundir. Í handriti einu frá því um eða fyrir 1700, er heitir Melodia og síðar verður minnzt á í safni þessu, eru yfir 20 lög við vísur mjög veraldlegs efnis, vikivakavísur og þesskonar. Magnús Stephensen getur um það, að eptir miðja 18. öld hafi í landinu fjölgað lögum við gaman- og gleðisöngva, að útlendra þjóða hætti, og sjeu þau líflegri og sönglegri en hin fyrri ósönglegu rímnalög; og á öðrum stað tekur hann beinlínis fram, að inn í landið hafi flutzt falleg, verzleg útlend lög, en þeim hafi ekki verið vel tekið af alþýðunni, og breiðist þau því seinna út en æskilegt væri. Magnús var því mjög hlynntur, að glaðværðarlögum fjölgaði í landinu, og þess vegna bæði orkti hann margt sjálfur og gaf út eptir aðra kvæði með nýjum bragarháttum, og átti það að vera til að bæta söngsmekk íslendinga. Þegar hann gaf þessi kvæði út í Vinagleðinni 1797, segist hann í formálanum hafa verið að hugsa um að láta nótur fylgja hinum nýju bragarháttum í bókinni, en segist þó hafa hætt við það, og bætir svo þessu við: „en þegar Grallararnir sýna, að vor fánýti söngur þekkir engan takt, án hvers góð hljóð verða óhljóð og dýrðlegir lofsöngvar grenjast fram, — — fari þá vel öll sönglist og allur íslenzkur nótnasöngur!“ Bendir þetta á, að honum hafi ekki þótt mikið til kirkjusöngsins koma um það leyti, og hefur hann að líkindum mikið til síns máls í því efni, þótt hætt sje við að hann taki heldur djúpt í árinni. Gagnvart þessum þunga áfellisdómi Magnúsar um kirkjusönginn á síðari hluta 13. aldar skal jeg setja það hjer, sem Nicolaj Mohr, færeyskur maður, mjög vel menntaður, segir um kirkjusönginn á íslandi um það leyti, sem hann ferðaðist hjer um land, en það var 1780 og 1781. Hann segir svo í ferðasögu sinni: „Kirkjusöngurinn er venjulega í allgóðu lagi, því nóturnar við þann og þann sálm í Grallaranum standa við fyrsta versið, en eptir Grallaranum hafa prestarnir lært að syngja í skólunum. Þeir, sem hafa bezt hljóð, sitja optast inni í kór í nánd við prestinn. íslendingar syngja reyndar ekki sjerlega skemmtilega, því söngur þeirra er laus við allt, sem kallað er skemmtilegt á vorum dögum, en kirkjusöngur þeirra fer eins skipulega fram og auðið er, hljóðfærislaust“.

Annars minnast flestir á söng vorn þannig, einkum á 18. öldinni, að hann hafi hvorki verið fagur nje rjettur. Lítur helzt út fyrir, að lögin hafi ekki verið kennd beinlínis eptir nótunum, því mörg lög eru í Grallaranum alveg rjett nóteruð eins og þau eru í útlendum nótnabókum, eldri og yngri; heldur lítur út fyrir, að lögin hafi verið kennd munnlega, hljóðfærislaust, eins og þau höfðu verið sungin mann fram af manni um langan aldur. Afleiðingin af þessu hlaut að verða sú, að menn veittu nótunum minni og minni eptirtekt, eða alls enga, heldur lærðu hinir yngri lögin af hinum eldri eins og þeir kunnu þau, og eins og þeir höfðu lært þau munnlega, og þannig afbökuðust lögin alltaf meir og meir eða fjarlægðust hina rjettu, upprunalegu mynd, og á þann hátt mynduðust sálmalög þau, sem vanalega eru kölluð gömlu lögin, og hafa þau þurft ákaflega langan tíma til þeirrar myndbreytingar; má sumstaðar auðveldlega sjá skyldleikann á milli „gömlu laganna“ og þeirra laga, sem þau eru upprunalega komin af, og er opt hægra að sjá þann skyldleika á nótunum en að heyra hann, þar eð lögin eptir breytinguna eru opt og tíðum komin í allt aðra tóntegund og ólíka; en aptur verður á mörgum stöðum mjög svo lítill eða alls enginn skyldleiki sjeður eða heyrður, og er lagið orðið algjört annað.

Það sem einna mest skemmdi gamla sönginn bæði á 18. öld og fyrri hluta 19. aldar og gjörði hann opt svo ákaflega óáheyrilegan, var það, hve taktlaust var sungið, og hve illa menn urðu samferða í söngnum, þar sem sumir forsöngvararnir virtust láta sjer mjög annt um það, að vera byrjaðir á einni hendingunni áður en þeir, sem með honum sungu, væru búnir með næstu hendingu á undan, svo að aldrei yrði hlje eða þögn, og er það einmitt þetta, sem Magnús Stephensen hefur í huganum, er hann segir í formálanum fyrir sálmabókinni 1801, að það komi því miður fyrir, „að hver gauli í belg og keppist máta- og aðgreiningarlaust, sumir að grípa hver fram fyrir annan, og sumir að draga seiminn hver öðrum lengur“. Einnig finnur hann á sama stað mjög að því, hvað mönnum sje gjarnt að syngja allt of sterkt, þar sem „æðarnar verði upp blásnar á höfði og öllu andliti af ofsanum“. En það má vissulega einnig gera of mikið að því að lasta gamla sönginn. Hann var, eins og gefur að skilja, mjög misjafn, eptir því, hvernig söngmennirnir voru, alveg eins og söngurinn nú á dögum, bæði í kirkju og utan kirkju. Sumstaðar var hann mjög ófagur, eins og minnzt hefur verið á; en aptur á móti annarsstaðar fór hann vel og skipulega fram, þar sem forsöngvari, prestur og aðrir atkvæðamenn safnaðarins voru smekkmenn í söng. Þótt jeg sje fæddur eptir miðja 19. öld, hef jeg heyrt töluvert mikið af gömlum söng í ýmsum hlutum landsins og get því vottað það af eigin reynslu, að jeg hef heyrt gömlu lögin sannarlega vel sungin, með föstum takt og góðu skipulagi, þótt jeg hafi einnig heyrt hið mótsetta. Slíkt hið sama hafa sagt mjer margir gamlir menn, er jeg hef talað við. Og þegar talað er um ófagran söng, þá verður að taka það fram, að vjer þurfum vissulega ekki svo langt aptur í tímann sem til gamla söngsins og gömlu söngmannanna, til þess að heyra illa sungið og taktlaust; því er miður, að slíkt heyrist hjer of opt nú á þessum síðustu tímum, þrátt fyrir hinar mjög miklu framfarir í söng og söngfræði á næstliðnum áratugum.

Hjer verð jeg að minnast á eina skakka skoðun, sem jeg hef opt orðið var við hjá ýmsum, viðvíkjandi söng og söngþekkingu íslendinga. Menn gera mjög mikið úr viðreisn söngsins á síðari helmingi 19. aldar; og það má sannarlega. Menn gera mjög mikið úr því, hve slæmur söngurinn hafi verið, einkum kirkjusöngurinn, á fyrri helmingi 19. aldar; og það var hann vissulega víða á landinu. Menn ætla að hann hafi verið enn þá verri á 18. öldinni; sjálfsagt hefur hann ekki verið góður þá. En svo ætla menn, að söngurinn hafi ávallt verið því verri og söngþekkingin því minni, þess lengra sem kemur aptur í tímann, með öðrum orðum, að íslendingar hafi ávallt sungið hörmulega illa og verið sorglega illa að sjer í söng, þar til á siðari hlut 19. aldar. En þetta er að mínu áliti skökk skoðun. – Mín skoðun er sú, að söngurinn og hin sönglega menntun hafi hjer hjá oss átt – ef jeg svo má segja – sitt gullaldartímabil, sitt apturfarar- og niðurlægingartímabil og sitt viðreisnartímabil. Gullaldartímabil söngsins, aðallega kirkjusöngsins, hefur eflaust verið á síðustu öldum pápiskunnar og fyrst eptir siðaskiptin. Það er enginn efi á því, að margir klerkar og biskupar þeirra tíma hafa verið mæta vel að sjer í söng, hafa haft söng mjög mikið um hönd og stuðlað að því, beinlínis og óbeinlínis, að söngleg þekking hefur breiðzt út til alþýðu. Sjást þess mjög víða merki í bókum frá þeim öldum. Af mörgum dæmum skal hjer að eins til færa tvö þessu til stuðnings, þótt þau sjeu áður prentuð. (22)

(22) Ól. Dav.: Isl. skemmt. bls. 248. Sami: Vikivakar bls. 87.

Arngrímur lærði Jónsson segir í Anatome Blefkeniana, útg. á Hólum 1612: „Að því er sönglist og lagfræði snertir, hafa landar mínir ekki verið svo illa að sjer, að þeir hafi ekki getað búið til hljóðfæri upp á eigin spýtur, og tekizt vel. Og lagfræðina hafa þeir þekkt allt fram á þennan dag. Sumir hugsa jafnvel upp lög með fjórum, fimm eða fleiri röddum, og syngja þau alllaglega“. (23) Um leið og Ólafur Davíðsson tekur það fram í bók þeirri, sem vitnað er til, að ólíklegt sje, að þetta geti verið allskostar rjett, þar sem hvergi votti fyrir margrödduðum söng íslenzkum allt fram á 19. Öld, að tvísöngnum undanskildum, segir hann þó: „En Arngrímur tekur það svo skýrt fram, að íslendingar hafi samið og sungið margrödduð lög um hans daga, að hann hefur varla getað vaðið tóman reyk, og það þeim mun síður, sem hann var allra íslendinga lærðastur á sinni tíð“. Þar sem Ólafur segir, að hvergi votti fyrir margrödduðum söng hjá oss á fyrri öldum, þá ætla jeg að vona að safn þetta sýni hið mótsetta. Skal jeg t. d. benda á handritið AM 687 b, 4to; þar eru þrírödduð lög; AM. 102, 8vo; þar eru fjórrödduð lög; einnig hafa Íslendingar áður fyrri bæði samið og sungið smekklega til búna Canóna, sem ýmist tveir eða þrír hafa sungið, t. d. við textann: Heyr þú oss himnum á, og annan texta: 0 Jesú sjálfs guðs son. Og er bezt að neita því ekki, sem Arngrímur lærði segir, að íslendingar hafi verið talsvert langt komnir í sönglegri kunnáttu á fyrri öldum.

(23) Á bls. 51 í Auatome eru orð Blefkens tilfærð þannig úr hans riti: „Inter potandum heroica facta suorum decantant, non ex certa aliqua compositione aut melodia, sed prout cuique in buccam venit“. Þá koma mótmæli Arngríms á móti þessu á bls. 52: „Quid tu, babale, de nostra poësi et cartminum ratione, in lingua nostra adeo peregrinus, nugaris? Immo contrarium verum est. Nihil tam minutum cantatur, quod certam et compositionem et melodiam non habeat. Et ad poësin quod attinet, existimo, praeter tres linguas orbis praecipuas vix ullam magis operosam habere carminum rationem, quam nostram. Quoad Musicam et melodiam, non fuerunt adeo amusi nostri homines, quin instrumenta Symphoniaca ipsi artificiose facerent, et melodiam vel musicam ut vocant figurativam recentiore memoria noverint. Sunt etiam, qui cantiones quattuor, quinque aut plurium vocum excogitent ipsi et non imperite concinnent“.

Þá má í annan stað tilfæra orð Gísla sýslumanns Magnússonar á Hlíðarenda úr riti hans Relatio de Islanclia, er hann sendi til konungs 1647. Hann kvartar þar yfir apturför í sönglistinni, en segir svo: „Fyr meir var list þessi tíðkuð, og mikils metin og lagði því fjöldi manna hina mestu stund á hana, en nú er hún nær því gleymd og hugsa engir um hana“. Þessi síðustu orð benda á það, að þá hafi apturförin verið byrjuð, og hefur hún eflaust haldið áfram smátt og smátt, þar til kirkjusöngurinn var kominn á sitt lakasta stig, sem að minni ætlun hefur verið frá því hætt var við Grallarasönginn almennt, um og eptir 1800, og þar til um 1850—60, að viðreisnartímabilið byrjaði.

Áður en jeg að fullu og öllu skil við það tímabil, sem kenna mætti við Grallarasönginn (1600—1800), vil jeg nefna örfáa menn, sem mjer er kunnugt um, að á því tímabili hafa verið vel að sjer í söng og söngfræði. Á þá Guðbrand biskup og Odd biskup Einarsson hefur þegar áður verið minnzt. Þess er getið um Arngrím lærða, að hann hafi verið vel að sjer í söng og söngfræði eins og flestum öðrum fræðigreinum. Um síra Odd Oddsson á Reynivöllum í Kjós er þess getið, að hann hafi snúið Davíðssálmum eptir frumtextanum í íslenzka sálma, nóteraða með óþekktum lögum, eða með öðrum orðum búið til lög við Davíðssálma. Þessi lög hafa flestir ætlað að væru algjörlega týnd, en jeg er þeirrar skoðunar, að jeg hafi fundið nokkur þeirra í Melodia, No. 98 í Rasks safni á háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, og þó er jeg ekki alveg viss um það; en þar eru lög, óþekkt lög, við einhverjar óþekktar útleggingar af Davíðssálmum, eins og síðar mun verða nákvæmar skýrt frá. Síra Ólafur Jónsson á Söndum í Dýrafirði var söngmaður og vel að sjer í söng Dr. Jón Þorkelsson segir í bók sinni Digtningen paa Island bls. 456, að lögin í kvæðabók síra Ólafs á Söndum sjeu samin af honum sjálfum, og er víst erfitt að rengja það með rökum. Þessi lög eru tekin upp í safn þetta. Þá er enginn efi á því, að síra Guðmundur Högnason í Vestmannaeyjum hefur verið vel að sjer í söng og mjög hneigður fyrir þá list; um það ber augljósan vott hið stóra og góða sálma- og sálmalagasafn hans skrifað 1742, Hymnodia sacra, sem hefur inni að halda yfir 100 andleg lög, og sem greinilega verður minnzt á síðar í safni þessu. Sagt er í Fræðimannatali Hallgríms Jónssonar, bls. 895, að síra Ólafur Brynjólfsson að Görðum á Akranesi (d. 1783) hafi ritað um íslenzka sönglist, en sú ritgjörð er að líkindum glötuð nú. (24) Formálinn fyrir kvæðabók Eggerts Ólafssonar virðist bera vott um það, að Eggert hafi verið gefinn fyrir söng og söngmaður.

(24) Ól. Dav.: Isl. skemmt. bls. 248. Sami: Vikivakar bls. 87.

Þá ætla jeg að taka hjer orðrjettan dálítinn kafla upp úr bók Ólafs Davíðssonar: ísl. skemmtanir, bls. 261 o. s. frv., þar sem hann minnist á nokkra söngmenn á þessu tímabili. Hann segir svo: „Á 17. öld er getið margra söngmanna. Gísli Guðbrandsson prestur að Hvammi í Dölum (d. 1620) var söngmaður mikill. Síra Oddur Oddsson (– sá sem áður er sagt, að hafi búið til lög við Davíðssálma –,) kunni sönglist manna bezt. Þorkell Ögmundarson var uppi í Axarfirði snemma á öldinni. Hann var söngmaður góður. Finnur Vilhjálmsson af Kalastaðaætt var uppi um miðja öldina. Hann var mikill söngmaður. Andrjes Bjarnason á Melgraseyri, bróðurson síra Jóns Magnússonar í Laufási, var mikill söngmaður. Síra Jósep Loptsson að Ólafsvöllum (d. 1683) var söngmaður mikill. Síra Stefán Ólafsson í Vallanesi (d. 1688) var fyrirtaks söngmaður og raddmaður mikill. Síra Pjetur Jónsson á Upsum við Eyjafjörð (d. 1708) var loksins söngmaður mikill“.

„Margir söngmenn eru líka uppi á 18. öldinni. Sigurður Björnsson lögmaður (d. 1723) var söngmaður góður. Bjarni Halldórsson skólameistari í Skálholti (1723-25) kunni söng með þeim beztu á sinni öld. Björn biskup Þorleifsson (d. 1710) var söngmaður góður. Jón biskup Árnason (d. 1743) var svo vel að sjer í söngkunnáttu, að enginn var honum fremri á hans dögum. Um miðja öldina var Kvæða-Stefán uppi; … það er sagt að hann kvæði og syngi viðbrigða-vel. Síra Halldór Hallsson á Breiðabólsstað í Vesturhópi (d. 1770) var raddmaður góður og kunni vel söng. Sama segir Espólín um síra Benedikt Pálsson, (seinast á Stað á Reykjanesi d. 1813). Vigfús sýslumaður á Hlíðarenda Thorarensen (d. 1819), [faðir Bjarna amtmanns]. var raddgóður til söngs, eptir því sem Espólín segir, og söngmaður góður“. Bróðir hans Friðrik prestur Thorarensen á Breiðabólsstað í Vesturhópi (d. 1817) „var líka annálaður söngmaður. Hann var frægur raddmaður og kunni manna bezt söng á íslandi. Þorkell stiptsprófastur Ólafsson var líka afbragðs söngmaður“ og er sagt að hann hafi verið „talinn mesti söngmaður sinnar tíðar í Hólastipti, máske og þó víðar væri leitað hjer um land, bæði að raust og kunnáttu. Síra Þorkell kenndi söng nafna sínum Þorkeli Jónssyni, sem eptir það var kallaður Kvæða-Keli“. Sá Þorkell Jónsson „hafði ágæt hljóð, svipuð nokkuð hljóðum síra Sigurðar Arnþórssonar“ prests að Mælifelli. Um síra Þorkel Ólafsson voru kveðnar þessar alkunnu vísur: „Þar söng hann út öll jól á ermabættum kjól“. Um síra Friðrik Thorarensen á Breiðabólsstað og söng hans í kirkju eitt sinn hafði Páll amtmaður Melsteð haft þau orð, að aldrei hafi hann á æfi sinni heyrt önnur eins manns hljóð; og svo hafi rödd hans verið sterk og tilþrifamikil, að Páll hafi fundið bekkinn titra undir sjer, þegar síra Friðrik fór sem dýpst niður eða í „undirbassann“. Í öðru sinni er þess getið, að í söngmanna-samkvæmi einu í Reykjavík hjá Geir biskup Vídalin, hafi síra Friðrik sungið svo, að tárin komu í augu sumra þeirra, er viðstaddir voru.

Ólafur stiptamtmaður Stefánsson og sonur hans Magnús konferenzráð Stephensen voru söngmenn miklir og kemst Magnús þannig að orði um það í æfisögu sinni: „Náttúran hafði þegar á ungdómsaldri lent honum (þ. e. Magnúsi sjálfum) góð og hvell sönghljóð, fullorðnum rómsterk og karlmannleg, enda æfði faðir hans þau stöðugt, – sjálfur liðugur og góður söng- og hljóðfæramaður …–, kenndi hann honum öll þau vönduðustu andleg og veraldleg lög, söng með honum tvísöng jafnaðarlega í rökkrum og optar, vandi hann við, frá hans 8. aldurs ári, að byrja öll lög, vers og sálma við húslestra, við hvað hann lagfastur varð; ljet hann, eins og þau börn sín öll, sem komust fram yfir æskuskeið, læra langspilsleik og söng opt undir með þeim“. (25) Þarna segir Magnús með berum orðum sjálfur, að hann hafi lært tvísöng í æsku sinni og jafnaðarlega sungið hann með föður sínum, og einnig lært að spila á langspil. Sæmundur prestur Hólm var söngmaður mikill, hinn mesti raddmaður og að því skapi liðugur; unni hann mjög tvísöng; brá hann þá jafnan hendi upp og niður, eptir því sem hann vildi að söngurinn gengi. Allir þeir, sem lærðu söng af Hólm, höfðu öðruvísi sönglag en aðrir menn, svo þekkja mátti þá frá hinum. Þetta stendur í þætti Sæmundar prests Hólms eptir Gísla Konráðsson. (26) Að lokum má nefna nöfn þessara söngmanna frá 17. og 18. öld, og eru þó margir ótaldir: Síra Einar Sigurðsson sálmaskáld í Eydölum var talinn afbragðs góður söngmaður (d. 1626); einnig Þorleifur próf. Skaptason í Múla (d. 1747); Bjarni Halldórsson á Þingeyrum sýslumaður í Húnaþingi (d. 1773); Sveinn Sölfason klausturhaldari á Munkaþverá (d. 1782); Jón Jakobsson sýslumaður i Vaðlaþingi (d. 1808).

(25) Tímarit Bmfj. IX. bls. 201.

Um aldamótin 1800 má segja að byrji nýtt tímabil í söngsögu vorri, að því leyti að þá, 1801, kom út í Leirárgörðum ný sálmabók, sem átti að koma í stað Grallarans og hinnar gömlu sálmabókar Guðbrands biskups og ryðja þeim í burtu, sem hún og gjörði með tímanum, þótt nýbreytni Magnúsar Stephensens væri í fyrstunni illa tekið í þessu, sem mörgu öðru frá hans hendi, sem til bóta mátti
horfa. Það var aðallega hann, sem stóð fyrir þessari miklu breytingu og sá um útgáfu bókarinnar, þótt Geir biskup Vídalín væri einnig skrifaður undir formálann; og það þykir óhætt mega fullyrða, að Magnús hafi einn skrifað bæði formálann og eptirmálann eða söngfræðina, sem er aptan við bókina. í formálanum kallar Magnús Grallarasönginn „207 ára gamlan, óumbættan vanasöng“. Alls eru í bókinni 100 lagboðar, og í formálanum telur hann þau „flest auðveld og falleg“. Helzt segir hann að þessi lög gætu talizt dálítið erfið eða vandasöm, en þau sjeu flest við mjög fáa sálma:

Af föðurs hjarta barn er borið;
Anda þinn, guð, mjer gef þú víst;    við 1 sálm.
– 1 –

(26) Ól. Dav. ísl. Skemmt. bls. 264.
55

Far, heimur, far sæll;
Hver sjer fast heldur;
Í Jesú nafni uppstá;
Kom hjer, mín sál, og kynntu þjer;
Margt er manna bölið;
Ó faðir himneski og eilífi guð;
Upp, upp statt í nafni Jesú;
Þann signaða dag;    við 1 sálmi.
– 1 –
– 2 sálma.
– 1 sálm.
– 1 –
– 3 sálma.
– 1 sálm.
– 1 –

Svo segir hann þar á eptir: „og mundi hið konunglega íslenzka landsuppfræðingarfjelag fúst á að láta sjer í lagi prenta nótur til þessara 10 eða jafnvel fleiri laga, ef svo margir þar um bæðu, að kostnaðurinn borgaðist“. í bókinni eru 3 lög nóteruð, ekki með grallaranótum, heldur sjást þar í fyrsta sinni hjer á landi prentaðar nótur eins og þær, er nú tíðkast. Af þessum lögum eru tvö hálf-ný, sem hann kallar; þau hafa verið kunn áður, en víðast hvar rangt sungin; það eru lögin: Jesú, þínar opnu undir og Hver veit, hve fjarri er æfi endi. Hið þriðja er alveg nýtt, eða ókunnugt hjer á landi, lagið: Sæti Jesú, sjá oss hjer. Svo segir Magnús í formálanum: „Annars er mikillega óskandi, að hver og einn, einkum prestarnir, ljetu sjer alvarlega umhugað vera, ásamt bók þessari að innleiða hver í sinni kirkju, og síðan viðhalda góðu söng-formi og -reglu, og kostgæfilega að nota sjer þá stuttu vegleiðslu þar til, sem aptan við bókina finnst, bæði viðvíkjandi þeim þrem nýju, nóteruðu sálmalögum, og yfir höfuð að segja reglu- legum sálmasöng“. – Aptan við bókina er: Einföld útskýring yfir þau þrjú nóteruðu sálmalög, sem finnast í bókinni, og um reglulegan sálmasöng“. Má telja víst að þessi grein sje eptir Magnús sjálfan; er það stutt ágrip af söngfræði og um ýmsar reglur fyrir söng, en greinin er ekki nema 9 bls. Er þetta hin fyrsta ritgjörð um söngfræði, sem komið hafði á prent á Íslandi frá því Grallari Þórðar biskups Þorlákssonar kom út 1691, og er Íslendingum hjer í fyrsta sinni bent á þau nótnamerki, sem nú tíðkast, svo og takt og fleira, sem lýtur að hinum nýja söng.

Þessi nýja bók, aldamótabókin svo kallaða, ruddi sjer smátt og smátt til rúms, en Grallarinn og hinar gömlu sálmabækur gengu smátt og smátt úr gildi. Þessi breyting varð misfljótt í hinum ýmsu hlutum landsins, og sumstaðar var Grallarinn notaður við söng, bæði í kirkjum og heimahúsum fram undir miðja 19. öld. Þannig stendur í lýsingu Kálfholtssóknar 1857: „Hjer er aldrei sungið annað en gamli Grallarinn í kirkjum, og heimahúsum á helgidögum.“ Dr. Jón Þorkelsson yngri segir (Sunnanfara II. 6), að í Skaptafellssýslu, þar sem hann ólst upp, hafi Grallarinn verið hafður til söngs í kirkjum og heimahúsum fram á hans daga. (þ. e. fram á milli 1860 og 1870), og segist hann opt hafa heyrt sungið á hann í æsku sinni hjá Ragnhildi dóttur Gísla klausturhaldara á Geirlandi á Síðu, og hjelt Ragnhildur þeim hætti þar til hún andaðist, 1866; var Jón þá 7 vetra. En hinn síðasti prestur á Íslandi, er haft hafi Grallarann við messugjörð, segir Jón að muni hafa verið síra Skúli Gíslason á Breiðabólstað (f 1888). Segja kunnugir menn, að jafnan hafi hann á Hvítasunnu látið syngja á Grallarann í Teigskirkju, meðan Páll í Árkvörn lifði, og söng Páll jafnan fyrir.

En þótt Grallarinn gengi hvað af hverju úr gildi eptir 1800, hjelzt þó Grallarasöngurinn eða gömlu lögin við óbreytt víðast hvar langt fram yfir miðja öldina; og töluvert var það misjafnt, hve snemma gömlu lögin fjellu úr gildi og hinn nýi, endurbætti kirkjusöngur kom í staðinn, – sumstaðar um og eptir 1860 eða jafnvel fyr, en sumstaðar ekki fyr en á hinum síðustu áratugum aldarinnar, og – þótt ótrúlegt sje – sumstaðar ekki fyr en nú á 20. öldinni! Það er ótrúlegt, en þó áreiðanlega satt, að gömlu lögin eru sungin enn í dag (1903) að minnsta kosti í einni kirkju á Íslandi; og þá má óhætt fullyrða, að í þeirri sveit, eða sókn sjeu gömlu lögin einnig sungin í heimahúsum, að minnsta kosti sumstaðar. Presturinn í Sauðlauksdal, síra Þorvaldur Jakobsson, skrifar mjer 3. apríl 1903 meðal annars: „Forsöngvarinn minn gamli í Breiðuvíkursókn – yzt á þessum kjálka – hefur alla sína forsöngvaratíð byrjað gömlu lögin, og syngur voðalega sterkt. En nú er hver síðastur að njóta þeirrar ununar! Því í sumar, er kemur, tekur loksins við nýr forsöngvari með nýju lögunum.“

Að því er sálmabækur vorar snertir, má geta þess, að þessi sálmabók Magnúsar Stephensens með Viðbæti 1819 og öðrum nýjum Viðbæti síðar var notuð þangað til 1871, að sálmabók þeirra Pjeturs biskups og Stefáns prests Thorarensens kom út (2. útg. 1875; 3. útg. 1884). Síðast kom út 1886 sálmabók sú, er vjer nú höfum, og var það sjö manna nefnd, sem safnaði til þeirrar bókar og gaf hana út.

En hvað við víkur kóralbókunum eða sálmalaga-bókunum, þá kom ekkert í staðinn þegar gamli Grallarinn var felldur úr gildi; og við það sat í nærfellt hálfa öld, að menn höfðu engin prentuð sálmalög að fara eptir, og var ekki að búast við því, að slíkt ástand hefði bætandi áhrif á kirkjusönginn, enda fór honum ekki fram; þvert á móti er óhætt að fullyrða, að á engri hálfri öld hefur honum hnignað jafnmikið.

Loksins 1855 kom út á Akureyri bók Ara Sæmundsens, og er hún með bókstafanótum en engum nótnastrengjum eða neinum venjulegum nótum; eru á henni 119 sálmalög, þar af rúm 100 við sálma úr sálmabókinni. Framan við bókina er all-geinilegur leiðarvísir til að læra að spila á langspil og til að læra sálmalögin eptir bókinni. Hefur sá leiðarvísir eflaust gjört mikið gagn meðan langspil voru nokkuð víða til, og eptir þessum leiðarvísi munu margir hafa lært lögin í hinni einrödduðu bók Guðjohnsens, er kom út skömmu síðar. Ari hefur nóterað mörg lögin upp eptir eyra sínu, eða eins og þau voru orðin þá í meðferð þjóðarinnar, sum þeirra eins og hann hafði lært þau munnlega og sum eins og honum þóttu þau fallegust, ef hann hafði heyrt þau sungin á ýmsan hátt; en mörg lögin hefur hann einnig nóterað eptir útlendum nótnabókum og Grallaranum. Verður nánar minnzt á þessa bók síðar í safni þessu.

Þá kemur sá maður til sögunnar, sem laugmestan þáttinn á í endurbót og viðreisn söngsins hjá oss, bæði kirkjusöngsins og hins verzlega söngs, því hann var um langan tíma bæði organisti við dómkirkjuna í Reykjavík og söngkennari kennari við lærða skólann. En það er Pjetur Guðjohnsen f. 1812 d. 1877.

Árið 1861 gaf Bókmenntafjelagið út einraddaða sálmasöngsbók, sem P. Guðjohnsen hafði safnað til og búið undir prentun. Eru í bókinni 110 sálmalög, einnig messulög eða þau lög, sem prestar tóna við guðsþjónustuna og svör safnaðanna. Byrjaði Guðjohnsen að safna til bókar þessarar um 1840. Til þess að kirkjusöngurinn geti átt fagra framtíð fyrir höndum telur hann í formála bókarinnar það tvennt bráðnauðsynlegt, að sönglist yrði kennd í skólunum, svo að lærisveinar yrðu færir um að stafa sig sjálfir fram úr einföldum sálmalögum, og einnig hitt, að sálmalögin kæmust í hendur almenningi í sínu upprunalega, einfalda og fagra formi, og með greinilegum nótnatáknunum. Hjálparmeðöl hans við undirbúning bókarinnar voru fyrst og fremst Grallarinn og báðar útgáfur Hólabókarinnar (1589 og 1619) og Höfuðgreinabókin; en svo bæði keypti hann mikið af útlendum kóralbókum, einkum dönskum og þýzkum, og fjekk þær að láni frá Kaupmannahöfn fyrir hjálp vinar síns, prófessors A. P. Berggreens. Þessi einraddaða bók gjörði sálmasöngnum stórmikið gagn, þótt hún mætti talsverðri mótspyrnu fyrst framan af. Kvartar Guðjohnsen yfir þessari mótspyrnu á einum stað í formálanum, er hann segir: „mjer hefur ekki allsjaldan verið brugðið um, að jeg væri að innleiða ný sálmalög og hafnaði hinum gömlu, einmitt meðan jeg hef verið að leitast við að ná aptur hinni upprunalegu fegurð og einfaldleik þeirra, og hefur hjegilja þessi ekki sjaldan fengið mjer örvæntingar um nokkurn árangur af vinnu minni.“ Kvartar hann og um hina örðugu kosti, sem íþróttin hafi orðið að sæta, jafnvel í sjálfum höfuðstað landsins. Á bók þessa og þau innlend lög, er hún hefur inni að halda, verður minnzt nákvæmar seinna.

Alla sína tíð sem organisti spilaði Guðjohnsen í dómkirkjunni eptir nótnabók, sem hann hafði sjálfur skrifað, og raddsetti hann þau lög sjálfur, er ekki fundust raddsett í útlendum nótnabókum.

Í formálanum framan við hina einrödduðu bók Guðjohnsens er dálítið ágrip af söngfræði og leiðarvísir til að syngja lög eptir nótum. En lengri og miklu nákvæmari söngfræði gaf hann út síðar, 1870, og er hún að mestu út lögð úr dönsku. Það er hin fyrsta söngfræði á íslenzku, sem veitir þekkingu á öllum undirstöðuatriðum söngfræðinnar eptir nýrri tízku, þótt stutt sje; og það var fyrst eptir að þessi söngfræði var komin út, að þekking alþýðu á þeirri vísindagrein fór að glæðast og aukast, og þar með löngun manna til þess að komast dálítið niður í rjettum söng. Guðjohnsen var söngkennari og organisti til dauðadags, 1877. Ári síðar gáfu synir hans út þríraddaða kóralbók, sem Guðjohnsen hafði að mestu búið undir prentun og ætlað að gefa út; en ekki náði sú bók mikilli hylli. Framan við þá bók er æfisaga hans.

Eptir dauða Guðjohnsens varð Jónas Helgason organisti við dómkirkjuna, en Steingrímur Johnsen söngkennari við lærða skólann og prestaskólann, og stóð svo um langan tíma. Hefur Jónas gefið út söngfræði með nýrra og betra sniði en Guðjohnsens var, og einnig allmörg hepti með sönglögum, mest útlendum lögum en með íslenskum textum. Hafa hepti þessi, sem eru með einni, tveimur, þremur og fjórum röddum, og bæði fyrir samkynja og ósamkynja raddir, stutt mikið að því að útbreiða söng og sönglega þekkingu meðal landsmanna, þótt ýmislegt megi að útgáfunum finna; slíkt er ávallt hægra að sjá eptir á. Einnig hefur það mjög mikið stutt að sönglegum framförum í landinu á tveim síðustu áratugum aldarinnar, að Jónas hefur kennt mörgum spila á Harmonium, og hefur alþingi veitt honum nokkurn styrk til þeirrar kennslu. Harmonia eru nú komin í mjög margar kirkjur landsins og kirkjusöngur víða í allgóðu lagi. Einnig eiga margir einstakir menn Harmonium, og eru þeir fjölda margir nú, sem dálítið kunna að leika á það hljóðfæri. Fortepíanó eru mörg í kaupstöðunum en fá til sveita, sem von er. Árið 1884 gaf Jónas Helgason út fjórraddaða kirkjusöngsbók, og er Sálmabókin nýja kom út, 1886, var gefinn út viðbætir við kirkjusöngsbókina, og inni halda þessar bækur til samans yfir 170 sálmalög, og mörg af þeim áður ókunn hjer á landi. Jónas dó 1903.

Steingrímur Johnsen var söngmaður góður og smekkmaður í söng og söngkennslu, og betri söngstjóri á samsöngum en vjer höfðum annars átt að venjast. Hafði hann einlægan vilja á að lærisveinar skólans lærðu sem mest af fögrum lögum og syngju þau rjett og vel. Steingrímur dó 1901.

Á Akureyri hefur haft á hendi söngkennslu og organistastörf Magnús Einarsson, og hefur hann kennt mörgum að leika á Harmonium; einnig hefur hann kennt söng við skólann á Möðruvöllum.

Á síðari helmingi 19. aldar mynduðust nokkur söngfjelög, hingað og þangað á landinu, einkum í kaupstöðunum (Reykjavík, Akureyri, Ísafirði), nokkrum verzlunarstöðum (Eyrarbakka og víðar) og á stöku stað til sveita (einkum í Þingeyjarsýslu). Eitt hið elzta söngfjelag á landinu var söngfjelagið Harpa, sem var stofnuð í Reykjavik 1862; að minnsta kosti hjelt fjelagið 25 ára afmæli sitt 14. des. 1887. Eptir það afmæli fara litlar eða engar sögur af fjelagi þessu, og mun það hafa lagzt í dá skömmu eptir það. Jónas Helgason var ávallt kennari fjelagsmanna. Þess er getið í Víkverja, að 20. janúar 1874 hafi fjelagsmenn, sem þá voru rúmir 20 að tölu, haldið samsöng fyrir Reykjavíkurbúa, og síðar sungu þeir opt opinberlega einkum eptir 1880. Það var þetta fjelag, sem mest og bezt söng á þjóðhátíðinni 1874, og var látið vel af söng þeirra þá. Fyrir daga Hörpu er getið um það í Þjóðólfi (4. árg), að skólapiltar hafi 2. apríl 1854 sungið opinberlega fyrir bæjarbúa í langa svefnloptinu skólanum undir forustu söngkennarans við skólann, Pjeturs Guðjohnsens, og þótti takast vel. Og hefur þetta að öllum líkindum verið hinn fyrsti samsöngur, sem haldinn hefur verið á Íslandi. Seinna meir, eptir 1880, höfðu skólapiltar opt. söngfjelag út af fyrir sig, og var söngstjórinn úr hóp piltanna sjálfra. Um nokkur undanfarin ár hefir karlmannasöngfjelag eitt á Akureyri að nafni Hekla, undir forustu Magnúsar Einarssonar, haldið nokkra opinbera samsöngva og þótt takast vel (27); þar er einnig annað söngfjelag. karla og kvenna.

Viðvíkjandi endurreisn söngsins hjá oss, eða hinum nýja söng yfir höfuð að tala, andlegum og verzlegum, og þeim framförum, sem öll söngleg þekking hefur tekið hjá oss síðan 1860, verður þetta að nægja, þótt mjög sje hjer fljótt yfir sögu farið. Er það ekki af því, að ekki mætti margt og mikið fleira skrifa um þetta mál, heldur miklu fremur af því, at þetta atriði kemur ekki beinlínis við aðalefni þessarar bókar, sem er hin íslenzku þjóðlög. Verður því hjer staðar að nema. En áður en jeg skil að fullu við þennan kafla, skal jeg nefna fáeina söngmenn á 19. öld, einkum á fyrri hlutanum og um miðbik hennar, og einkum þá, er hafa tíðkað hinn gamla söng, annaðhvort eingungu, eða samhliða hinum nýja.

Má þar fyrstan nefna Magnús konferenzráð Stephensen, sem áður hefur verið minnzt á, bæði sem söngmann og sem mjög framkvæmdarsaman mann að því er snertir allar sönglegar framfarir; heyrir hann eins mikið til 19. öld sem hinni 18., þar eð hann dó ekki fyr en 1833 (f. 1762). Þess má geta hjer, að þegar Magnús Stephensen kom frá útlöndum árið 1800, hafði hann með sjer hljóðfæri nokkurt, er hann sjálfur kallar Orgelverks-hljóðfæri, (28) (Harmonium?). Ljek hann á það sjálfur, því ekki kunnu það aðrir. Var það fyrst sett í Leirárkirkju i Borgarfirði og haft þar við messugjörð þangað til 1803. Þá fluttist Magnús að Innrahólmi og hafði hann hljóðfærið með sjer. Árið 1819 var hljóðfæri þetta flutt til Viðeyjar og haft þar við messugjörð þangað til Magnús dó. Jón Espólín segir að Magnús hafi kennt öðrum að spila á þetta hljóðfæri; en hljóðfærið var selt til útlanda aptur, skömmu eptir dauða Magnúsar. Árið 1840 kom fyrst hljóðfæri í dómkirkjuna í Reykjavik (29).

(27) Söngfjelag þetta ferðaðist til Noregs haustið 1905 og hjelt þar samsöngva í nokkrum bœjum og sungu eingöngu íslenzk lög og íslenzk kvœði; Þótti söngur þeirra fremur góður eptir öllum ástæðum. Söngmennirnir voru rúmir 20 og stýrði Magnús þeim.
(28) Eptirmœli 18. aldar, bls. 560.
(29) Ól. Dav., Ísl. skemmt. bls. 271-2.
62

Bjarni Thorarensen amtmaður var ágætur söngmaður; var hann sonur Vigfúsar Thorarensens, sýslumanns á Hlíðarenda, en bróðursonur hins annálaða söngmanns síra Friðriks á Breiðabólstað í Vesturhópi, og eru þeir báðir nefndir hjer að framan. Bjarni orkti á síðari árum sínum þessar alkunnu vísur:

Ungur þótti eg með söng
yndi vekja í sveina glaumi,

og var það sannmæli, því hann var gleðimaður hinn mesti í samkvæmum og fór mjög opt í tvísöng; eru mjög mörg af kvæðum hans orkt undir góðum tvísöngslögum og algengum á þeirri tíð. Síra Jón sonur hans hafði mikil og falleg hljóð og var tvísöngsmaður mikill fram til elli. Síra Einar Guðbrandsson á Hjaltabakka og á Auðkúlu var ágætur söngmaður og vel að sjer í söng að því skapi. Hinn orðlagði raddmaður, Ólafur, faðir Páls á Akri í Húnavatnssýslu var um tíma í sóknum síra Einars og bjó þá á Grund í Svínadal. Sagði síra Einar, að Ólafur væri beztur raddmaður. sem hann hefði heyrt, en ekki að sama skapi smekkmaður í söng. Ólafur var sjálfkjörinn forsöngvari; það var samkomulag þeirra, að Ólafur „fór upp“ i öllum sálmunum nema útgönguversinu; þá fór síra Einar sjálfur upp. Bendir þetta á það, sem reyndar var engum efa undirorpið, að tvísöngur var þá mjög víða brúkaður í kirkjum. Þeir synir Páls gamla amtmanns, Páll Melsteð sögukennari og Halldór Melsteð, síðast amtsskrifari, voru áður fyrri hinir beztu söngmenn, Páll söng bassa, en Halldór hafði haft ágætlega hrein og há tenór-hljóð. Páll Melsteð hefur sagt, að beztir söngmenn um og eptir hans daga í Bessastaðaskóla hafi verið þessir: síra Páll Magnússon Thorarensen, bróðursonur síra Friðriks á Breiðabólstað, sem getið hefur verið um; síra Jón Reykjalín prestur á Þönglabakka; síra Arngrímur Halldórsson prestur að Bægisá, síra Magnús Hákonarson og síra Jón Sveinsson prestur í Siglufirði, síðar á Mælifelli. „Hjá þeim var bæði fegurð og fylling hljóðanna framúrskarandi,“ segir Páll. Hann getur þess líka, að Torfi nokkur, sem bjó í Hvammi, skammt frá Vallanesi, hafi haft „óvenjulega mikil hljóð og heldur lagleg.“ Um flesta af þessum mönnum er getið í bók Ól. Dav. ísl. skemmt. bls. 264 og víðar.

Þá ætla jeg að taka hjer upp dálitla grein, er jeg fyrir skömmu hef fengið frá Finni Jónssyni á Kjörseyri í Hrútafirði, um söng á 19. öldinni i ýmsum sveitum. Hann segir svo: „Nokkru eptir aldamótin 1800 bjó á Hellum í Landsveit í Rangárvallasýslu bóndi sá, er Þórður hjet Stefánsson; var hann talinn fyrirtaks söngmaður; hafði hann sungið grallarasönginn eptir nótum og kunnað gammann upp á sínar tíu fingur; söng hann Credo á hátíðum. Var hann einn af þeim fáu, sem á þeim tíma söng eptir nótum Grallarans. Í Landsveit var fremur góður söngur fram eptir 19. öldinni; höfðu þar lengi verið góðir söngmenn, og heyrði jeg (C: F. J.) einkum tvo til nefnda, Jón bónda á Litla-Klofa og Jón Þorsteinsson bónda á Vindási; spilaði hann mjög vel á langspil og var forsöngvari í Stóruvallakirkju; þótti þar góður söngur í þá daga. Í Rangárvallasýslu höfðu verið ýmsir fleiri góðir söngmenn, þótt enginn kæmist til jafns við Skúla lækni Thorarensen, sem var jafnvel talinn beztur söngmaður á öllu Suðurlandi á sínum yngri árum. Hafði opt verið fjörugt þar um slóðir þegar fleiri söngmönnum sló saman, og einkum ef þeir voru í hópnum Eggert prestur Bjarnason á Stóruvöllum og Skúli Thorarensen. Eggert prestur var annálaður söngmaður og gleðimaður. Í Árnessýslu hef jeg heyrt nefnda ýmsa góða söngmenn, er þar voru á fyrri hluta aldarinnar og um miðja öldina. Sjerstaklega var tekið til Guðna prests Guðmundssonar á Ólafsvöllum og Þórðar prests Arnasonar í Klausturhólum. Þórður Guðmundsson sýslumaður Árnesinga var söngmaður mikill, sjerstaklega hafði hann djúpan og góðan bassaróm; hann var jafnvígur á gamla sönginn og hinn nýja. Er mjer það í barnsminni, hversu mjer þótti söngur hans skemmtilegur. Marga söngmenn heyrði jeg þar nefnda fleiri, svo sem Bjarna bónda í Núpstúni í Hrunamannahreppi og Eirík bónda Eiríksson á Reykjum á Skeiðum. Mun Eiríkur hafa verið einn hinn fyrsti alþýðumaður til sveita, sem söng nýju lögin. Um 1860 voru hin svo kölluðu nýju lög farin að breiðast út um Gullbringusýslu, t. d. í sóknum síra Stefáns Thorarensens, sem var góður söngmaður og vann að útbreiðslu söngsins. Á Útskálum í Garði var forsöngvari Pjetur bóndi Jónsson á Gufuskálum og söng hann flesta sálma með nýju lögunum; hafði hann, eins og reyndar margir fleiri á þeim tíma, langspil sjer til hjálpar og leiðarvísi Ara Sæmundsens, ásamt hinni einrödduðu bók P. Guðjohnsens frá 1861. Um þær mundir var forsöngvari í Kirkjuvogskirkju Ketill dbrm. Ketilsson í Kotvogi, og söng hann ýmist gömul eða nýlög; hafði hann aðdáanlega fagra og mikla rödd. Hafði Guðjohnsen mjög mikið álit á honum sem söngmanni, og sendi honum að gjöf nótnabók sína með árituðum vinmælum. Um 1864 þekktist mjög fátt af nýju lögunum almennt hjer í Hrútafirði. Samt var bóndi einn hjer í Bæjarhreppi svo vel að sjer í söng, að hann söng öll lögin í áður nefndri bók Guðjohnsens, og hjet hann Jónas Jónsson; hafði hann sjálfur kennt sjer söng og ýmsar aðrar íþróttir; hann hafði sjer til hjálpar langspil og leiðarvísi Ara. Hin nýju sálmalög breiddust út hjer um slóðir mest eptir það að Theódór Ólafsson, nú verzlunarstjóri á Borðeyri, fór að syngja þau og spila á Harmonium (rjett eptir 1870), fyrst í Melstaðarkirkju og svo í Staðar og Prestsbakkakirkjum. Mun hann vera sá fyrsti, sem spilaði í sveitakirkjum; byrjaði hann það tilsagnarlaust, og tókst vel. Melstaðarkirkja mun einnig vera hin fyrsta sveitakirkja, sem Harmonium var fengið í (1872). Hjer i Hrútafirði höfðu áður verið tveir afbragðs söngmenn, Gunnlaugur prestur Gunnlaugsson á Stað og Bjarni bóndi Friðriksson í Bæ, sonur síra Friðriks á Breiðabólstað, söngmannsins mikla, sem síra Þorkell stiptprófastur Ólafsson á Hólum, annar ágætis söngmaðurinn frá, hafði orkt við þessa alkunnu vísu einu sinni, er þeir hittust:

Þegar hittumst himnum á,
hvorugur verður móður;
syngja skulum saman þá,
síra Friðrik góður.

Sumarið 1866 var jeg við messu á Óspakseyri; byrjaði þá í kirkjunni maður nokkur, er Þorkell hjet, norðan frá Steingrímsfirði, og hafði hann geysimikil og skær hljóð. Var sagt, að Þorkell sá væri afkomandi síra Þorkels á Hólum og bæri hans nafn. Ætt síra Hjálmars Þorsteinssonar í Tröllatungu hefur verið kölluð söngætt, og söngur þess fólks Tröllatungu-söngur; þótti mörgum sá söngur ekki laus við viðhöfn. Tvísöngur hafði verið hjer algengur, jafnvel í kirkjum; eldi eptir af því nokkuð fram yfir miðja öldina. Þá var hjer Einar Gíslason, er siðar dvaldi lengi í Fornahvammi; hafði hann á yngri árum mikil og fögur hljóð og söng tvísöng ágætlega vel; var hann orðinn roskinn, þegar jeg heyrði til hans, og leyndi það sjer ekki, að rödd hans var bæði mikil og góð. Það hefur vafalaust verið sá Einar, er síra Jón Þorleifsson nefnir í pistli sínum og kallar Einar í Feykishólum, því Einar bjó í Feykishólum um það leyti, sem Jón Þorleifsson var lærisveinn hjá Búa prófasti Jónssyni á Prestsbakka. En lýsing hans á Einari er ekki allskostar rjett eða eðlileg, þar sem Einar hafði ágæt sönghljóð og var óreiðigjarn gleðimaður«. Hjer að auki minnist Finnur á það í brjefi til mín, að systir hans, Ragnhildur, ekkja Sigurðar Sverrisens sýslumanns, hafi verið töluverð söngkona og kunnað gömlu lögin ágætlega vel og rjett.

Í Vatnsdal í Húnavatnssýslu voru framúrskarandi söngmenn á fyrri hluta aldarinnar, og hafa reyndar verið lengi síðan. Þá voru þar mestir söngmenn þeir Björn Blöndal sýslumaður í Hvammi, faðir þeirra Blöndalsbræðra, Ólafur sá, sem áður er getið, faðir Páls á Akri; bjó hann þá á Gilsstöðum; og Sigurður á Eyjólfsstöðum, faðir Rannveigar þeirrar á Prestsbakka á Síðu, er síðar verður nefnd. Á Undirfelli voru prestarnir ágætir söngmenn, hvor eptir annan, þeir síra Þorlákur, faðir Böðvars og þeirra mörgu bræðra, og síra Sigfús; var hann af hinni nafnkunnu Reykjahlíðarætt, sem marga góða söngmenn hefur talið, t. d. síra Þorstein Pálsson á Hálsi, ágætan söngmann, föður Sigríðar, er var söngkona mikil, kona Skapta Jósepssonar. Þeir Blöndalsbræður, synir Björns sýslumanns í Hvammi, voru flestir góðir söngmenn, og sumir ágætir; beztir voru taldir þeir Lárus sýslumaður, síra Jón og Gunnlaugur sýslumaður, allir nú dánir; höfðu þeir bæði yndislega falleg hljóð, hrein og sterk, og ákaflega yfirgripsmikil; er Blöndalsættin talin mikil söngætt, og er það sannast að segja, að margir í þeirri ætt hafa haft, og hafa enn, fögur hljóð og mikil, bæði karlar og konur, og helzt er það í þeirri ætt, sem dálítið eldir eptir af tvísöngnum gamla; nefni jeg þar til helzt þá síra Björn Blöndal, son Lárusar sýslumanns og Björn lækni Blöndal, son Gunnlaugs sýslumanns. Þrjá góða tvísöngsmenn skal jeg enn þá nefna í Húnavatnssýslu, sem allir eru enn á lífi (1906), og allir hafa enn í dag hina mestu unun af því að syngja tvísöng og „fara upp“ í einu góðu, gömlu lagi; en það eru þeir Páll Ólafsson á Akri, sonur Ólafs þess á Gilsstöðum, sem opt hefur verið áður nefndur; er hann mjög tekinn að eldast; Jónas Guðmundsson, er lengi hefur búið á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal og er þar enn; og Böðvar Þorláksson frá Hofi í Vatnsdal, sonur síra Þorlláks á Undirfelli.

Frá 19. öld má enn fremur nefna þessa fyrirtaks söngmenn: Pjetur prófast Pjetursson í Stafholti (f 1837); Jón prest Bachmann til Hestþinga um 1830, svo og Geir son hans, síðar prest í Miklaholti; einnig síra Þorvald Jónsson að Holti undir Eyjafjöllum. Þá er nefndur Torfi stúdent Árnason á Mófellsstöðum í Skorradal sein mjög góður söngmaður; hann var útskrifaður 1797; þess er getið um hann, að við útför Stefáns amtmanns Stephensens á Hvítárvöllum 4. janúar 1821, — hann var jarðaður á Hvanneyri, — hafi Torfi stúdent Árnason verið „sóknarforsöngvari“, og hafi hann þá sungið með nýju lagi versið: „Þó feli mold vorn föður blíða“, og bendir þetta á, að þá hafi ný lög verið ákaflega sjaldgæf.

Síra Jón Thorarensen, sonur Bjarna amtmanns, var ágætur söngmaður eins og svo margir af þeirri ætt. Kemst Finnur á Kjörseyri þannig að orði í brjefi til mín, nýlega meðteknu: „Jeg hef heyrt fólk, sem heyrði, taka til þess, hve unaðslegt það hafi verið á hátíðum, þegar síra Jón Thorarensen í Saurbæjarþingum og Þórarinn bróðir hans hefðu sungið tvísöng í kirkjunni við messugjörð. Þar hef jeg síðast heyrt getið um tvísöng í kirkjum“.

Ágætur söngmaður í gamla stíl, sem enn hefur ekki verið nefndur, var skrifari einn hjá Stefáni amtmanni Thorarensen á Möðruvöllum, Benedikt Jónsson að nafni; hann var faðir síra Jakobs, er lengi var prestur í Glaumbæ. Var síra Jakob einnig mikill og góður söngmaður á sinni tíð; hafði hann einkum hreinan og ákaflega djúpan bassaróm; og það hef jeg eptir syni hans, Jóni forngripaverði Jakobssyni, að síra Jakob hafi áður fyrri, þegar hann var vel fyrir kallaður, komist niður á Contra-F; en sjálfur hef jeg heyrt það, að bæði Lárus Blöndal og Steingrímur Johnsen komust niður á Contra-As.

Tvær núlifandi konur þekki jeg, sem af feðrum sínum hafa erft ágæt hljóð, og um leið töluverða þekkingu á tvísöng og öðrum innlendum lögum, og eru það þær frú Anna Stephensen á Akureyri, dóttir Páls sögukennara Melsteð í Reykjavík, og kona mín, Sigríður, dóttir Lárusar Blöndal. Þá minnist jeg líka einnar konu, sem jeg í ungdæmi mínu opt og tíðum heyrði syngja mörg gömul lög, einkum i kirkju, Álptártungukirkju, og syngja þau mjög vel; en það var Sigríður á Grímsstöðum á Mýrum, dóttir síra Sveins Nielssonar prófasts.

Á ýmsa fleiri söngmenn og söngkonur í gamla stíl er minnzt hingað og þangað í safni þessu við hin einstöku lög, sem frá þeim eru komin í mínar hendur. En svo marga góða söngmenn höfum vjer átt, bæði fyr og síðar, að þótt nokkrir slíkir sjeu taldir, verður sú upptalning aldrei annað en hálfverk, og skal hjer því staðar numið.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is