Inngangur: 2. gr.
Um söfnun þjóðlaga áður
Því næst skal jeg með nokkrum orðum minnast á, eptir því, sem mjer er kunnugt um, hvað áður hefur verið gjört til þess að safna íslenzkum þjóðlögum og varðveita þau frá gleymsku. Þekki jeg ekkert eldra í því efni en skjal Gísla Magnússonar sýslumanns á Hlíðarenda, er hann samdi 1647 á latínu og sendi til konungs; er síðar minnzt á þetta skjal í safni þessu og partur úr því prentaður bæði í Vikivakaritgjörð ÓI. Davíðssonar og í Sunnanfara 1893. Þar er að vísu ekki beinlínis minnzt á íslenzk þjóðlög eða varðveizlu þeirra, heldur á viðreisn og efling alls sönglífs i landinu og aukna sönglega þekkingu hjá alþýðu, og mundu þjóðlög vor eflaust hafa notið góðs af því, ef þessum uppástungum hins merkilega og mikla framfaramanns hefði orðið framgengt; því það, hve lítið er skrifað upp af lögum þeim, sem tíðkuðust í landinu á 17. og 18. öld, stafar eflaust af því, hve lítil hin sönglega þekking þá var farin að verða hjá alþýðu og í hve fárra höndum. Innan um allar aðrar framfarauppástungur sínar stingur Gísli sýslumaður upp á því, að söngfræðingur sje þá sendur til landsins næsta ár á hans kostnað, sem kenni list sína bæði æskulýðnum og fullorðnum mönnum. En fyrst um sinn, meðan verið sje að koma skólunum upp, er hann hefur stungið upp á að stofna, bæði á Þingvöllum og víðs vegar um landið, segir hann að söngfræðingur þessi geti hæglega verið hjá sjer á heimili sínu og haft þar kennslu á hendi, því þar sjeu margir unglingar.
Er hann merkilegur og eins dæmi sá framfarahugur, sem kemur fram hjá þessum manni, og það á þeim tíma; en litlu fjekk hann framgengt með skjali sínu, sem við var að búast; enginn var skólinn stofnaður, og enginn var söngfræðingurinn sendur upp til landsins, hvorki þá nje síðar.
Hin fyrstu íslenzku þjóðlög, sem menn vita til að prentuð sjeu, eru fimm lög i stóru riti frönsku, er þeir Laborde og Roussier gáfu út í París 1780 og heitir: Essay sur la Musique ancient et moderne. Hafði Johan Hartmann, afi J. P. E. Hartmanns prófessors, náð í þau i Kaupmannhöfn hjá Jóni Ólafssyni frá Grunnavik, eptir því sem hann söng þau. Eru lög þessi öll tekin upp í safn þetta. Því næst verður ekki vart við neina hreifingu í þessa átt um langan tíma. Hinn 5. apríl 1817 sendi stjórnarnefnd, er gekkst fyrir geymslu forngripa, í Kaupmannahöfn áskorun til Íslendinga um alls konar fornleifaskýrslur. (1) Þar er meðal annars minnzt á sögusagnir meðal almúgans, en þjóðlögunum er alveg gleymt. Landsmenn gáfu þessu einnig lítinn gaum.
Löngu seinna gekkst Bókmenntafjelagið fyrir hinum svo kölluðu Sóknalýsingum um allt land og sendi öllum prestum og próföstum 70 spurningar í því skyni, 30. apríl 1839, og er 57. spurningin um söng og hljóðfæri. Svörin í flestum lýsingunum upp á þessa spurningu eru ákaflega lítilfjörleg og ótrúlega lítið á þeim að græða. Víðast er það tekið fram, að fáir eða engir sóknarmenn kunni að syngja eptir nótum, en um þjóðlög er svo gott sem ekkert getið.
Enskur fræðimaður, prófessor George Stephens, sem 1845 var i Stokkhólmi, bar hinn 17. júlí það ár fram á fundi hins norræna fornfræðafjelags í Kaupmannahöfn tillögu um það, að rita ávarp til Íslendinga um söfnun og varðveizlu þjóðsagna og þjóðkvæða: Forslag til Islændernes uudgivne Folkesagns og Sanges Optegnelse og Bevaring; er áskorun þessi mjög merkileg (2), en ekki var þar sjerstaklega minnzt á lög.
(1) Lovsamling for Island VII, 659.
(2) Prentuð í Antikv. Tidsskr. 1645, 191-2.
Ári síðar, 28. apríl 1846, sendi fornfræðafjelagið boðsbrjef til Íslendinga um fornritaskýrslur og fornsögur; óskar fjélagið þar eptir skýrslum um margt og margbreytilegt efni, eins og lesa má í formála Guðbr. Vigfússonar fyrir þjóðsögusafni Jóns Árnasonar. Þar var Íslendingum i fyrsta sinni sýnt verulega fram á það, hvað þjóðtrú og þjóðsiðir eru, hvaða gildi það hefði, og hve dýrmætt og áríðandi það væri fyrir hverja þjóð sem er, að bjarga öllu slíku frá gleymsku og glötun, með því að safna því saman og skrifa það upp. Í boðsbrjefinu stendur meðal ótal margs annars: „Því næst gömul kvæði og ljóð, sem höfð eru til skemmtunar ungum og gömlum, en ekki eru prentuð, og ekki skrifuð upp svo menn viti; svo eru ýmsar rímur, fornkvæði, vikivakar, dansleikakvæði, söguljóð“ o. s. frv.; „ennfremur þulur og barnavísur“. Auk þess er óskað, að lög við vísur og kvæði „væru skrifuð upp með nótum, ef kostur er á“. Íslendingar gáfu þessu fremur lítinn gaum; sendu helzt ýmislegt viðvíkjandi fornfræði. Sumir hjeldu jafnvel, að það ætti að safna þessu til þess að flytja það út úr landinu og gera háð að því í öðrum löndum. Þó fór áhugi sumra smátt og smátt að vakna. En ekki mun eitt einasta lag hafa komið til fjelagsins, svo kunnugt sje.
Árið 1858 sendi Jón Árnason út um landið hugvekju til Íslendinga um alþýðlega fornfræði, sem lesa má i formálanum fyrir þjóðsagnasafni hans. Bað hann menn að senda sjer allt, er að þjóðsögum lyti, einnig gömul kvæði, gamlar rímur, söguljóð, fornkvæði, vikivaka og lýsingu þeirra, en hann gleymdi alveg að minnast á þjóðlögin, svo að enn þá urðu þau algjörlega út undan. Eptir þetta komu Þjóðsögurnar út í tveimur stórum bindum.
Í hinu yfirgripsmikla þjóðlagasafni A. P. Berggreens eru 9 lög frá Íslandi, og er merkilegt, að þau skuli ekki vera fleiri, úr því að hann mundi eptir að Ísland var til, og enn þá merkilegra, að ekki einu sinni eitt af þessum 9 lögum skuli vera tvísöngslag eða í lýdiskri tóntegund. Er nákvæmlega minnzt á þessi lög hjer i safninu, þar sem þau eru nóteruð eins og þau stands i safni Berggreens. Tveimur lögum, báðum við kvæðið um Friðrik Barbarossa, safnaði Konrad Maurer, er hann ferðaðist hjer um á árunum í þjóðsagnaleit, og gaf hann þau síðan út í þýzku tímariti. Þau eru einnig tekin hjer upp í safnið með athugasemdum.
Nemum svo staðar eptir miðja 19. öld og lítum til baka. Hvað hefur þá verið gefið út af íslenzkum þjóðlögum? Fimm lög i hinu franska riti 1780, níu lög hjá Berggreen og tvö hjá Konrad Maurer. Og þeir eru allir útlendingar, sem hafa safnað þessum örfáu lögum og gefið þau út. En hvað hafa Íslendingar sjálfir gert í þá átt:? Alls ekkert, svo jeg til viti. Meira að segja þeir, sem voru næstum óþreytandi í því, að safna þjóðsögum, þjóðkvæðum og ýmsum öðrum þjóðlegum fróðleik, og virtust hafa augun opin fyrir því, hvílíka þýðingu allt þess konar hafði, gengu alveg fram hjá þjóðlögunum, eins og þau væru ekki til eða með öllu þýðingarlaus.
Á síðustu áratugum 19. aldarinnar hafa komið út tvö rit, sem snerta íslenzk þjóðlög, og skal þeirra stuttlega getið hjer.
Ól. Davíðsson: Íslenzkar skemmtanir. Þar er meðal ótal margs annars getið um sönglist Íslendinga að fornu og nýju, kvæðaskap þeirra og hljóðfæraslátt; eru þar nóteruð 11 af hinum almennustu íslenzku þjóðlögum og 15 kvæðalög eða rímnalög. Bók þessi lýsir meiri lærdómi og þekkingu í öllum ö ð r u m greinum en einmitt í þessari grein, og er minnzt á bók þessa og lögin úr henni síðar í safni þessu. Hef jeg víða stuðzt við ritgjörðir Ólafs að því er snertir hina sögulegu hlið málsins.
Hitt ritið er eptir Raymond Pilét, frakkneskan söngfræðing, sem ferðaðist hjer ofurlítið um, haustið 1904, og dvaldi í Reykjavik eina tvo mánuði fram á veturinn. Kom hann við á Siglufirði á leið sinni kring um landið; með sama skipi var Björn Gunnl. Blöndal, þá læknir í Þistilfirði, og sungum við fáein lög í tvísöng fyrir Pilét; hafði hann ekki heyrt það fyrri, og getur hann þess, að sjer hafi þótt það harla einkennilegt, og ekki nærri því eins óáheyrilegt eins og hann haft ímyndað sjer. Pilét fór landveg af Sauðárkrók suður Arnarvatnsheiði og til Reykjavíkur. Þessi ritgjörð Piléts er 18 bls. og heitir : Rapport sur une mission en Islande par R. Pilét. Mélodies des chants populaires de l’Islande, og byrjar hún á bls. 243 i 7. bindi af stóru verki; sem heitir: Nouvelles archives des missiöns scientifiques 1897. Er þar skjótt frá að segja, að á þessari ritgjörð græddi jeg ekkert, og enginn, sem hana les, því hún er hin mesta lokleysa, sem hugsazt getur að því er íslenzk þjóðlög og íslenzkan söng snertir Lögin eru flest mjög vitlaust nóteruð, og sýndist þó lítill vandi að hafa þau lög rjett, sem tekin voru upp úr prentuðum bókum, svo sem Berggreens safni, bók Ólafs Davíðssonar og Stúdentabókinni, sem kom út meðan Pilét var í Reykjavik. Og textinn undir lögunum er víðast svo, að hann er engu tungumáli líkur; áherzlan og taktskiptingin í lögunum nær engri átt. Þess má að öðru leyti Beta, að Pilét var skemmtilegur maður og vel að sjer í söng, hefur hann samið lög og orkt kvæði, og á fortepianó spilaði hann mjög vel.
Söngbók stúdentafjelagsins þarf jeg ekki að minnast á í þessu sambandi, því flest þau innlend lög, sem í henni eru, hef jeg tekið úr þessu safni mínu og látið í þá bók, eins og formálinn ber með sjer. Fáein lög, sem þar eru talin íslenzk, hafa reynzt útlend við nákvæmari rannsókn.
Árið 1901 hitti jeg austur í Þingeyjarsýslu þýzkan mann, Max Rebel að nafni, sem ferðaðist hjer eitthvað um landið fótgangandi og þóttist ætla að safna íslenzkum þjóðlögum. Ekki var hann svo vel undir þessa rannsókn búinn, að hann þekkti eina einustu af þeim bókum, sem inni halda íslenzk þjóðlög prentuð, ekki Berggreens safn, ekki bók Ól. Davíðssonar, ekki Raymond Pilét, (sem einu gild), ekki Stúdentabókina, ekki Studier over islandsk Musik eptir Hammerich. Geri jeg ráð fyrir, að hann hafi engu öðru getað safnað en því, sem í þessum bókum stendur, og vísaði jeg honum á þær allar. Hann spilaði ágætlega á fortepiano, en virtist að öðru leyti hálfpartinn undarlegur.