Þriðju tónleikarnir

Síðar um veturinn, þ.e. í mars 1961, voru aftur haldnir tónleikar á vegum Musica Nova á Hótel Borg. Hinn mikli áhugi á starfi félagsins kom í ljós og opna varð inn í stóran veitingasal hótelsins svo allir tónleikagestir kæmust fyrir. Þá komu fram í fyrsta sinn opinberlega þrír ungir hljóðfæraleikarar, þeir Sigurður Örn Steingrímsson fiðluleikari sem að loknu námi í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Birni Ólafssyni hafði dvalist 6 ár við framhaldsnám í Vínarborg; Kristinn Gestsson píanóleikari sem eftir nám hjá Árna Kristjánssyni í Tónlistarskólanum hafði dvalist tvö ár í London við framhaldsnám, og Pétur Þorvaldsson sem eftir nám hjá H. Edelstein og Einari Vigfússyni í Tónlistarskólanum hafði numið í fjögur ár hjá Erling Blöndal Bengtsson við konunglega músíkkonservatoríið í Kaupmannahöfn.

Þessir ungu menn, ásamt Gísla Magnússyni píanóleika sem þá var orðinn kunnur á Íslandi, fluttu verk eftir Schönberg, Strawinsky og Shostakovitch. Tuttugustu aldar tónlistin var komin til að vera í íslensku tónlistarlífi.
Á árunum 1950-60 tóku ungir íslenskir hljóðfæraleikarar að streyma til landsins eftir framhaldsnám í erlendum tónlistarháskólum. Íslendingar voru smátt og smátt að eignast eigin tónlistarmenn sem síðar skyldu bera þungann af þróun tónlistarmála framtíðarinnar.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is