Tónskáld tímabilsins

Hér að framan hefur verið talað um þau tónskáld, sem komin eru fram fyrir 1934, flest stuttu áður (bls. 228-320). Jón Laxdal var þá dáinn, Árni Thorsteinsson þagnaður, Sigfús Einarsson og Sigvaldi Kaldalóns búnir að semja sönglögin, sem frægð þeirra hvílir á fyrst og fremst, eins Markús Kristjánsson, en hann andaðist 1931, ekki orðinn þrítugur. Hin tónskáldin leggja mest af mörkum eftir 1930 og eru það mest sönglög, þótt þau hafi einnig samið verk í öðrum greinum, eins og píanólög, fiðlulög og hljómsveitarverk. Er hér átt við tónskáldin Pál Ísólfsson, Sigurð Þórðarson, Þórarinn Guðmundsson, Emil Thoroddsen, Þórarinn Jónsson og Karl Runólfsson, en sá síðastnefndi lagði þó mikla rækt við hljóðfæralist og samdi hljómsveitarverk. En það er sönglagið, sem stóð hjarta þeirra næst og allir sömdu þeir sönglög, sem þjóðin fékk mætur á.

Hljóðfæralistin átti sterkari ítök í þeim Helga Pálssyni og Jóni Leifs. Helgi samdi aðallega kammermúsíkverk, en Jón hljómsveitarverk, sum stór í sniðum.

Áhuginn á íslenskum þjóðlögum var vaknaður eftir starf Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði og fór vaxandi er frá leið. Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson raddsettu íslensk þjóðlög fallega, hvor á sína vísu. Jón Leifs raddsetti íslensk þjóðlög frumlega og markar þar spor, andi þjóðlagsins er honum leiðarljós og hann gerist postuli þess. En því má ekki gleyma, að þótt þjóðlagaraddsetningar Jóns Leifs séu sérkennilegar og rammíslenzkar, þá hafa önnur tónskáld raddsett þjóðlögin eftir öðrum principum og gert það vel, – andinn hjá þeim er einnig íslenzkur. Í þessu sambandi vil ég nefna þjóðlagaraddsetningar Helga Pálssonar og Karls O. Runólfssonar, sem eru skemmtilegar og mjög athyglisverðar. Dr. Hallgrímur Helgason hefur sýnt íslenzkum þjóðlögum mikinn áhuga, safnað þeim og raddsett, rannsakað þau vísindalega og ritað um þau. Dr. Páll Ísólfsson og Þórarinn Jónsson hafa raddsett íslensk þjóðlög og gert úr þeim sjálfstæð listaverk. Dr. Victor Urbancic raddsetti íslenzk þjóðlög, en hjá þessum snillingi vantar hið íslenzka bragð, enda er hann ekki af íslenzku bergi brotinn.

Nú verður nánar rætt um tónskáld tímabilsins, en áður er búið að tala um tónskáldin Dr. Victor Urbancic, Pál Halldórsson, Pál Pampichler Pálsson og Pál Kr. Pálsson organista, svo og önnur tónskáld, sem nefnd eru í upphafi þessarar greinar. Um tónskáldin verður rætt hér á eftir í aldursröð.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is