Sönglíf i Reykjavík á fyrri hluta 19. aldar

Reykjavík var lítið verksmiðjuþorp, þegar hún fékk kaupstaðarréttindi 18. ágúst 1786 með vart fleiri en 200 íbúa. Aldarafmælisins var minnst með útisamkomu á Austurvelli og samsæti á Hótel Ísland. Þá voru íbúar í bænum um 2000. Björn Jónsson ritstjóri sagði þá: „Reykjavík hefur meir en tífaldast þessa einu öld, sem hún á nú að baki að sjá. Að afmælisóskin verði sú, að þessi önnur öld, sem nú fer í hönd, láti ekki standa upp á sig, þ.e. að Reykjavík verði orðin bær með 30-40 þúsund íbúa á næsta 100 ára afmæli sínu. Það kann að vaxa ýmsum í augum, og vitaskuld er, að hæpið er að ná þeim áfangastað með viðlíka ferðalagi og undanförnu. Til þess þarf önnur ráð og aðra siði en nú hafa tíðkast um hríð. Ráðið er að koma upp iðnaði og auka sjávarútveginn. Takist það, er von um, að sú von rætizt, að Reykjavík tífaldist aftur næstu hundrað árin“. (Knud Zimsen: „Úr borg í bæ“, Rvík. 1952, bls. 21-22).

Þessi ósk hins framsýna ritstjóra hefur rætzt og vel það. Í árslok 1967 var íbúatalan komin yfir 80 þúsund. Sennilegt er, að hún verði komin yfir 100 þúsund á tveggja alda afmæli borgarinnar 18. ágúst 1986.

Margt hefur verið ritað um Reykjavík, einkum af Jóni biskupi Helgasyni, Klemenz Jónssyni landritara og Árna Óla rithöfundi. En söngsagan varð útundan, þar til  Árni Thorsteinsson tónskáld ritaði „Drög að söng-og tónlistarsögu Reykjavíkur“, sem birt er aftan við ævisögu hans, „Hörpu  minninganna“. (Rvík, 1955).

Reykjavík var frá því hún fékk kaupstaðarréttindi og fram yfir miðja 19. öld aðallega danskur kaupstaður. Kaupmannastéttin var að vísu fámenn, en átti þó mest undir sér, og í augum alþýðunnar var hún „auðvaldið“ í bænum. Ríkustu kaupmennirnir voru af dönsku bergi brotnir. Þeir litu á sig sem heldri menn, í röð með embættismönnunum, og þeir litu með fyrirlitningu niður á tómthúsmennina, sem  var fjölmennasta stéttin í bænum. Almúginn leit upp til  þessara ríku kaupmanna og var auðsveipur, en honum var vorkunn, því hann átti svo margt undir náð kaupmannsins; vinnu, úttekt  og annað.  Á heimili þessara kaupmanna var eðlilega töluð  danska. Margir vildu semja sig að siðum þessara fyrirmanna og alíslenzkar fjölskyldur, sem vildu telja sig til heldra fólksins, tóku upp á Því að tala dönsku, og aðrir öpuðu eftir, svo að tæplega var íslenzkt orð talað óbjagað í Reykjavík í þá daga. Það þótti fremd í því að breyta  málrómnum, svo að kokhljóð heyrðist, og var það upphaf Reykjavíkur „R“-sins, sem varð frægt um allt land. Danskan ríkti í Reykjavík á þá daga. Verzlunarbækur hinna dönsku  kaupmanna voru færðar á dönsku og viðskiptavinunum sendir  reikningarnir á dönsku um hver áramót. Það eimdi eftir af þessu fram á þessa öld. Sá, sem þetta ritar, minnist þess, að þegar hann á fermingaraldri var sendisveinn hjá Brydesverzlun árið 1910, var þar allt bókhald á dönsku. Dönsku kaupmennirnir flestir sátu á vetrum úti í Kaupmannahöfn, en létu faktora sína stjórna verzluninni hér á meðan. Þeir  fyrirlitu íslenzkt mál og menningu og yfirleitt allt, sem  íslenzkt var. Þeir voru hér ekki til annars en að græða fé, og hurfu héðan jafnskjótt og þeir höfðu auðgast nægilega mikið, og héldu Þá til Danmerkur, þar var fyrirheitna landið og þangað stefndi hugurinn.

Á þessum tíma voru opinberar tilkynningar og bréf frá „hærri stöðum“ á dönsku. Bæjarstjórnarfundir fóru fram á dönsku og fundarbækur hennar voru ritaðar á dönsku. Jón  biskup Helgason lýsir þessu þannig: „Svo rammt kvað að þessari yfirdrottnun dönskunnar í hinum íslenzka höfuðstað, að Stefán Gunnlaugsson land- og bæjarfógeti þóttist 1848 knúinn til að hefjast handa gegn þessu fargani, lét festa upp og gera með trumbuslætti almenningi kunna svohljóðandi auglýsingu: „Íslenzka tunga á bezt við í íslenzkum kaupstað, hvað hver athugi!“ og heimtaði í nýrri reglugerð fyrir næturverði, að þeir hætti dönskunni á ferðum sínum um bæinn að næturlagi, en „hrópi á íslenzku við hvert hús.“ Þetta var vitanlega ekki vel upptekið. Sérstaklega litu kaupmenn bæjarins svo  á, að þetta tiltæki hins þjóðlynda land-og bæjarfógeta væri stílað gegn þeim, og kærðu fyrir hinum danska stiftamtmanni (Rosenörn). Að land- og bæjarfógeti misseri síðar sótti um lausn frá embætti, enn á bezta aldri, settumargir í samband við þetta tiltæki íslenzkunni í vil, þótt ekki væri látið svo heita sem afsögn hans stæði í sambandi við það.“ (Jón Helgason: „Þeir, sem settu svip á bæinn“ Rvík. 1941, bls. 70).

Eftir 1850 fer þetta mjög að breytast og er margt, sem því veldur. Latínuskólinn flyzt hingað frá Bessastöðum 1845, íslenzkum embættismönnum og menntamönnum fjölgar og sú þjóðlega vakning, sem fór um Norðurálfuna, náði hingað og vakti þjóðina. Fjölnismenn höfðu boðað afturhvarf að dáð og drengskap feðranna, íslenzk tunga og íslenzkt þjóðerni var þeim fyrir öllu. Jónas Hallgrímsson orkti um „ástkæra, ylhýra málið, og allri rödd fegra“. Skáldin orktu um ættjörðina, fegurð hennar og tign, og þjóðin lærði þessi kvæði. Frelsið og ættjörðin var leiðarljósið í stjórnmálabaráttunni út öldina. Allt þetta varð til þess að draga úr hinum dönsku áhrifum og þegar komið er fram undir 1870 er Reykjavík orðin íslenskur bær.

Við vitum lítið um sönglíf í Reykjavík á danska tímabilinu, þar til orgel kemur í dómkirkjuna 1840 og Pétur Guðjohnsen hefur viðreisnarstarf sitt. Þó vitum við, að á þessu tímabili fóru að myndast þjóðlög, ekki í hinni lydisku tóntegund, sem áður var uppáhaldstóntegundin, heldur í dúr, og þessi þjóðlög voru dálítið fjörugri en þau eldri, sem voru þunglamaleg og mörg í sálmalagastíl. Þessi nýju þjóðlög urðu til fyrir áhrif útlendra veraldlegra laga, sem um það leyti tóku að flytjast hingað með ýmsum menntamönnum, sem stunduðu nám erlendis. „Bára blá að bjargi stígur“ er sennilega eitt af þessum þjóðlögum frá 19. öld. Þeir Bjarni Þorsteinsson og Steingrímur Thorsteinsson deildu um Það á sínum tíma, hvort lagið væri íslenzkt eða ekki. Steingrímur hélt því fram í grein í Skírni 1906, að lagið væri útlenzkt, sennilega danskt að uppruna. Hann endar grein sína með þessum orðum: „Nú finnst hvorki lagið sé orðin  neins staðar prentað; en hvað sem því líður, íslenzkt er lagið ekki, það er áreiðanlegt.“ Eftir að, hafa rökstutt skoðun sína, lýkur Bjarni Þorsteinsson greinargerð sinni um lagið í þjóðlagasafni sínu með þessum orðum: „Með fullri virðingu fyrir Steingrími rektor og fróðleik hans set ég lagið hér meðal íslenzkra þjóðlaga og enda athugasemd mína með þessum orðum: „Hvað sem öðru líður, íslenzkt er lagið orðið, það er áreiðanlegt.“ Því hefur verið haldið fram, að „Bára blá“ sé eitt af þeim lögum, sem fluttust hingað með kennslubókum í gítarleik, en gítarinn var útbreitt hljóðfæri hér á landi um og eftir miðja 19. öld, einkum í bæjum og kauptúnum. Á þetta minnist Þorsteinn Konráðsson í grein um söngbókmenntir Íslendinga á 19. öld, sem birt er í Tónlistinni árið 1942. Hann segir m. a.: „Dæmi er til, að sum af þessum góðu, gömlu lögum er farið að prenta upp og kalla íslenzk þjóðlög, t.d. Bára blá, Unaðar kæti, Heim er ég kominn, Allt eins og blómstrið eina, að ógleymdu Stóð ég úti í tunglsljósi. Það lag lærði ég í æsku af lírukassa.“ „Bára blá“ er í öllum íslenzkum nótnabókum talið íslenzkt þjóðlag, enda er ekki sannað, að lagið sé til okkar komið í gítarbók eða nokkurri annarri útlendri nótnabók. Um lagið „Allt eins og blómstrið eina“ hefur áður verið rætt. Lagið „Stóð ég úti í tunglsljósi“ er hvergi talið íslenzkt lag í íslenzkum nótnabókum; í sumum er það talið þjóðlag, en ekki þess getið, hverrar þjóðar lagið er. Hinsvegar er lagið „Heim er ég kominn og halla undir flatt“ talið íslenzkt lag í Söngbók stúdentafélagsins frá 1894, en í þá bók er  lagið komið frá Bjarna Þorsteinssyni eins og mörg önnur lög í þeirri bók.

„Bára blá“ var ekki meðal þeirra íslenzkra þjóðlaga, sem Pétur Guðjohnsen sendi Bergreen í þjóðlagasafn hans á árunum 1846-47. Pétur virðist ekki hafa þekkt lagið, en hafi hann þekkt það, hefur hann ekki álitið það íslenzkt. Sennilega hefur lagið þá ekki verið komið inn í söng okkar. Í tilkomumiklu karlakórslagi eftir þýzka tónskáldið Ludwig Spohr (1784-1859), sem heitir „Kriegslied“ („Auf, und lasz die Fahnen fliegen“), gengur lagið „Bára blá“ (stefið) eins og rauður þráður gegnum þýzka lagið. Ekki er þó víst, að íslenzka lagið hafi orðið til fyrir áhrif frá þýzka laginu. Stefið lá þá í loftinu og má kenna það í mörgum sönglögum frá þeim tíma.

Fleiri lög í alþýðusöng okkar Íslendinga á 19,öld eru umdeild, hvort þau eru íslenzk eða ekki. Eitt þeirra er „Nú er vetur úr bæ“, sem Bjarni Þorsteinsson telur íslenzkt í Þjóðlagasafni sínu. (Bls. 635). Bergreen hefur Þetta lag í þjóðlagasafni sínu og telur það danskt. Ekki hefur hann fengið lagið hjá Íslendingum; hann telur heimildarmann sinn danska prestsekkju. I Danmarks Melodiebog, III. hefti, er lagið við textann „Til min elskede Mand“ og er þar talið þjóðlag.

Eins og áður er sagt var gítarinn útbreitt hljóðfæri hér á landi á 19. öldinni og urðu mörg gítarlögin vinsæl. Helga Gröndal, kona Sveinbjarnar Egilssonar rektors, lék á gítar. Hún giftist Sveinbirni 1822. Þessa vísu orkti Sveinbjörn fyrir hana undir gítarlagi:
Ég el í rænu rúmi
svo ramman harma spreng
og sit í svörtu húmi
við sætan hörpu streng,
Við Þetta styttist stundin
hjá stúlku jafnt sem dreng,
við þetta léttist lundin
ég leik á hörpu streng.
Og ennfremur þessa vísu:
Held ég sem helgan dóm
hörpunnar sætan óm,
þann til að heyra hljóm
hlypi ég suð’r í Róm.
Elzta lýsing, sem ég þekki, um söng í Reykjavík á 19. öld, er eftir Henry Holland í Dagbók í Íslandsferð 1810. Henry Holland var þá aðeins 22 ára, nýbakaður læknir, þegar hann ferðaðist hér um Suður- og Vesturland ásamt skozka vísindamanninum Sir George Mackenzie, sem áður hefur verið minnst á. Dr. Holland varð síðar einn af kunnustu læknum Englands og líflæknir Victoríu drottningar og Alberts prins.

Þeir ferðalangar efndu til dansleiks í Klúbbnum, en það hús stóð við enda Aðalstrætis, þar sem nú er herkastalinn. Á dansleiknum var heldra fólk bæjarins, stiftamtmaðurinn, Geir biskup Vídalín og frú, Frydenberg landfógeti og frú og fleira stórmenni. Dr. Holland getur þess, að ein af fegurstu stúlkum Reykjavíkur hafi verið þar, ungfrú Jónsen, sem var heitmey Jörgensens og hefði sjálfsagt gifst honum, ef hann hefði haldið völdum sem landstjóri á Íslandi. Hér er sennilega átt við Guðrúnu Einarsdóttur, sem kölluð var hundadagadrottning, og síðar náin vinkona Savignac, hins illa þokkaða enska kaupmanns, sem hér var á árunum 1809-1810. Dansinn hófst klukkan 9. Músíkinni lýsir dr. Holland þannig: „Hljóðfærin voru: fiðla, bumba lögreglunnar og tveir þríhyrningar (triangles ) – músíkin var ömurleg, bæði lögin og meðferð þeirra.“

Þeir ferðalangar voru viðstaddir hjónavígslu í dómkirkjunni um vorið 1810. Brúðguminn var sjómaður, klæddur í grófgerð föt með selskinnsskó, en brúðurin íslenzk stúlka klædd íslenzkum búningi. Dr. Holland segir: „Athöfnin hófst með almennum söng, sem ekki var beint með orfeisku sniði.“

Nokkru síðar eru þeir ferðalangar við guðsþjónustu í dómkirkjunni á annan í hvítasunnu 11. júní 1810. Þá var ferming og fjölmenni í kirkjunni. Presturinn var Brynjólfur Sívertsen, dómkirkjuprestur í Reykjavík 1797-1813, sem bjó í Stóra Seli. Hann var hinn mætasti maður, sá eini af kennurum  Hólavallaskóla, sem Árni stiftprófastur Helgason minnist hlýlega í bréfum sínum. Dr. Holland skildi vitanlega ekki stakt orð í ræðu prestsins, en um sönginn í kirkjunni segir hann: „Söngflokkurinn var um 10-12 menn, sem skipuðu sér umhverfis gráturnar; þeir mættu fremur hrósa sér af hávaða en samstilltum söngröddum.“

Svo mörg eru orð hins unga læknis um hljómlistina í helzta danssal bæjarins og sönginn í dómkirkjunni.

Sumarið 1845, þrjátíu og fimm árum síðar, dvaldi þýzk kona, frú Ida Pfeiffer, um tíma í Reykjavík á heimili Tönnes Bernhöfts bakarameistara (d. 1886). Ritaði hún bók um dvöl sína hér á landi og ferðalög um Noreg og Svíþjóð, en um þau lönd fór hún á heimleiðinni. Ber frásögn frúarinnar vott um allríka athyglisgáfu og er þar ýmsan fróðleik að finna um lifnaðarhætti og menningu þjóðar innar á þeim tíma. Hún segist engan mann hafa séð á Íslandi, sem ekki væri í góðum og hlýlegum sokkum og skóm, og mjög fáa tötralega eða illa til fara. Og síðan segir hún: „Fyrirfólkið – kaupmennirnir og embættismennirnir – er nú óðast að taka upp franzka tízku í klæðaburði. Silki og annar dýrindis vefnaður er alls ekki sjaldgæft. Er sumt flutt frá Englandi, en meiri hlutinn frá Danmörku. Á afmælisdegi konungsins eru á ári hverju viðhöfn mikil í húsi stiftamtmannsins, og fá þá frúrnar tækifæri til þess að sýna sig í silkiskrúði sínu, og ungu stúlkurnar í hvíta líninu. Stjórnarbyggingin er öll uppljómuð af kertaljósum á þessum hátíðisdegi.“

Hún lýsir skemmtun í klúbbnum. Þangað kemur fólk af öllum stigum og seldur er inngangur, og allt er þar með mjög frjálsmannlegu sniði. Skósmiðurinn býður stiftamtmannsfrúnni upp í dans og við konu eða dóttur skósmiðsins eða bakarans dansar sjálfur stiftamtmaðurinn. Danssalurinn er lýstur með tólgarkertum. 0g síðan segir frúin: „Það er hljóðfæraslátturinn, sem er lakastur í þessum samkvæmum. Notaðar eru sérkennilegar fiðlur með þremur strengjum og hljóðpípur.“

Ida Pfeiffer segir ennfremur: „Mér til undrunar komst ég að því, að í Reykjavík voru til sex píanó, og ég heyrði leikna valsa eftir uppáhaldstónskáld okkar og einnig ýmis tilbrigði eftir Herz, Liszt, Wilmers og Thalberg. En stórlega efa ég samt, að þessir heiðursmenn hafi kannast við tónsmíðar sínar.“ Það er að segja um þessa heiðursmenn, sem frúin nefnir svo, að þeir voru allir með dáðustu píanóleikurum á sínum tíma. Thalberg (1812-71) var skæðasti keppinautur Liszts um hyllina sem mesti píanóleikari álfunnar, Henry Herz (1803-88) og Rudolph Wilmers (1821-78) voru eins og hinir miklir píanóleikarar og tónskáld. Það má geta nærri, að píanótónsmíðar þessara virtúósa voru ekki ætlaðar viðvaningum. Frúin eða heimasætan, sem lék fyrir Idu Pfeiffer, hefur ekki varað sig á því, að hún þekkti góðan píanóleik í Þýskalandi.

Af frásögn Idu Pfeiffer vitum við, að árið 1845 er leikið á flautu og langspil fyrir dansi í Reykjavík. Ennfremur það, að þá er píanó orðið heimilishljóðfæri hjá efnafólki. Það er fleira en Parísartízkan í klæðaburði, sem var komin til höfuðstaðarins, auðvitað via Copenhagen, heldur var þá ný evrópsk píanótónlist í hávegum höfð á menningarheimilum bæjarins.

Úr því að minnst hefur verið á dansmúsík í Reykjavík skal Þess getið, að Klemenz Jónsson landritari getur þess í grein um bæjarbrag í Reykjavík kringum 1870 (Skírnir 1927), að þá hafi það verið gömlu dansarnir, polka, vals, mazurka og galoppaði, sem dansaðir voru eftir harmoniku, en um 1880 kom píanóspil. Harmonikan var handhægt hljóðfæri á seinni hluta aldarinnar og var hún að heita má til á öðrum hverjum bæ og það hljóðfærið, sem leikið var á á dansskemmtunum í sveitum og kauptúnum allt fram á þessa öld.

Við hverfum nú snöggvast aftur í tímann að aldamótunum 1800 og virðum fyrir okkur æðstu menntastofnun landsins, sem staðsett er á Hólavelli. Þetta er Hólavallaskóli eða Reykjavíkurskóli hinn eldri. Latínuskólinn hafði verið fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur 1786, og er Hólaskóli var lagður niður, voru skólarnir sameinaðir í einn skóla í Reykjavík 1801. Þótt skólunum í Skálholti og á Hólum væri ef til vill ábótavant í sumu, þá virðist þó hafa verið þar fjörugt menntalíf og margir kennarar hámenntaðir menn, sem höfðu holl áhrif á nemendur. Biskuparnir voru og hinir mestu menntamenn, margir hverjir, og einlægir ættjarðarvinir. Það fylgdi sá kostur því að hafa skólana í sveit, að þar hélzt hugsunarháttur íslenzkur. Það reyndist heldur ekki farsælt að flytja skólana í „eitraða verstöð danskra verzlunarokrara“, eins og Tómas Sæmundsson kallaði Reykjavík, enda varð saga latínuskólans á Hólavöllum stutt og er lítill ljómi yfir henni þau 18 ár, sem skólinn var þar.

Það var aðallega þrennt, sem olli þessari raunasögu skólans: lítið kennaraval og óhæfur rektor, sem var ofdrykkjumaður, svo að setja varð honum aðstoðarmann; lélegt skólahús, sem var svo úr sér gengið, að þar var vart líft fyrir kulda; bæjarlífið í Reykjavík, sem hafði allt annað en góð áhrif áskólasveina. Það var talin brýn þörf á bót á þessu ófremdarástandi, og varð það úr, að skólinn var fluttur að Bessastöðum og þar tók hann til starfa haustið 1805. Þessi flutningur átti þó að vera aðeins um stundarsakir, en þó stóð skólinn á Bessastöðum í 40 ár, og er saga skólans þar ólíkt glæsilegri en á Hólavöllum. En þrátt fyrir allt, kulda og lélegan aðbúnað, og lítinn lærdóm sumra kennaranna í Hólavallaskóla, fengu þá námssveinar þar það vegarnesti, sem reyndist þeim heilladrjúgt, en úr þessum skóla komu þjóðkunnir merkismenn eins og Steingrímur biskup Jónsson, Árni stiftprófastur Helgason og Bjarni amtmaður Thorsteinsson.

Engar sögur fara af söng í Hólavallaskóla, en telja má víst, að haldið hafi verið þeim gamla sið úr Skálholtsskóla, að tóna morgun- og kvöldbænir, svo sem gert var síðar í Bessastaðaskóla og í Latínuskólanum í Reykjavík allt fram yfir síðustu aldamót. Fyrst var víxltón og síðan bænin tónuð af einhverjum skólasveini. Morgunbænin byrjar þannig: „Almáttugur og eilífur guð! Refsa oss ekki eftir vorum syndum.“ Kvöldbænin byrjar þannig: „Ó, þú eilífi guð, Ísraels trúfasti verndari, hvern aldrei syfjar.“ (Yngra orðalag er „sem aldrei sefur“, smbr. Jón biskup Helgason; „Þeir sem settu svip á bæinn“; Þannig var orðalagið á hans skólaárum). Skólabænarlagið er prentað í Þjóðalgasafn Bjarna Þorsteinssonar, bls. 627-628. Lagið var komið til Bessastaða, þegar Páll Melsted kom í skóla 1828. Bjarni Þorsteinsson telur víst, að lagið hafi komið til Bessastaða frá skólunum í Skálholti og á Hólum, það sé arfur frá þessum skólum og algjörlega íslenzkt að uppruna.

Um Bessastaðaskóla segir Tómas Guðmundsson skáld í ritgerð sinni framan við Ljóðmæli Jónasar Hallgrímssonar (Rvík. 1956), en Jónas var þar námssveinn á árunum 1823-1829, og byrjar hann að lýsa því, er Jónas fer suður í skólann í fyrsta sinn: „En Jónas hefur að sjálfsögðu einnig séð glampann af ævintýrinu bak við fjöllin í suðri, hlakkað til að sjá furðuheima þekkingarinnar opnast og hugsað gott til samvistanna við unga og gáfaða námsbræður frá mörgum landshlutum. En þar við bættist, að mikið orð fór þá þegar af Bessastaðaskóla. Hann átti sér raunar aldrei langan aldur, en engu að síður stendur ljómi um nafn hans enn í dag, og orð var á því gert, að gamlir Bessastaðamenn minntust jafnan veru sinnar þar með stolti og söknuði. Hann var á sínum tíma höfuðvígi íslenzkrar tungu og þjóðlegrar hugsunar, og sennilega hefur aldrei nokkur skóli á Íslandi skilað af sér jafn glæsilegum hópi ungra afburðamanna á fáum árum“.

Síðan telur skáldið upp fjóra kennara, Jón Jónsson lektor, sem var ástsæll af nemendum, enda gæðamaður mikill og skyldurækinn, og síðan þá þrjá, sem einkum báru hátt hróður skólans, Hallgrím Scheving heiðursdoktor frá Kaupmannahafnarháskóla, hinn mesta lærdómsmann og sálfræðing, Sveinbjörn Egilsson, sem getið hefur sér mest frægðarorð allra íslenzkra skólamanna, einn hinn lærðasti Íslendingur á forn fræði, málsnillingur og skáld, þýðandi Odysseifskviðu og Ilionskviðu og höfundur hinnar frægu orðabókar yfir norræna skáldamálið: Lexicon poeticum. Fjórði kennarinn, Björn Gunnlaugsson, var afburðamaður í stærðfræði og stjörnuvísindum. Eftir hann, „spekinginn með barnshjartað“ er hinn djúpsæi heimspekilegi ljóðaflokkur, Njóla, sem á sínum tíma var lesinn með aðdáun af Þjóðinni.

Páll Melsteð sagnfræðingur er helzti heimildarmaður um söng í Bessastaðaskóla, en hann var í skólanum 1828-34. Hann getur þess, að beztu söngmenn um hans daga í skólanum voru þessir: séra Páll Magnús Thorarensen, bróðursonur séra Friðriks á Breiðabólstað, séra Jón Reykjalín, prestur á Þönglabakka, séra Arngrímur Halldórsson, prestur á Bægisá, séra Magnús Hákonarson og séra Jón Sveinsson prestur á Siglufirði, síðar á Mælifelli. „Hjá þeim var bæði fegurð og fylling hljóðanna framúrskarandi“ segir Páll.

Söngkennsla var engin í skólanum, en skólapiltar héldu sjálfir uppi söng og sönglífi. Þetta kemur fram í bréfi séra Arngríms Halldórssonar á Bægisá, dagsettu í Bessastaðaskóla 28. febr. 1835, til skólabróður hans í Kaupmannahöfn:

„Mjög er nú hljótt í söngvasæti etc. Það er nú aldrei, sem maður getur fengið að heyra sungið, nema tvisvar í vetur hefur Snorri (prestur Sæmundsson á Desjamýri, dáinn 1844) komið hér, en ekki er að spyrja að hljóðunum, en þó þótti mér þín hljóð sætari og mátulega sterk. Ég er orðinn eins og rifin rolla í barkanum, enda er ég aldrei hreinn nema helzt eftir grautinn. Að sönnu komu hér tveir Novi (nl. nýsveinar), Stephán Pálsson og hans bróðir Siggeir, í haust, sem hafa góð hljóð, en Stephán er corruptus (nl. hefur skemmt sig), því hann hefur svo mikið við, en Siggeir er óstjórnlegur enn þá og engin lögun komin á hljóðin í honum. Reykjalín (nl. séra Jón) er rétt góður, eins og þú manst til, en það er verra, að hann er svo veikur í lögum; til dæmis í vetur einu sinni villtist hann í bassanum í þessu lagi: Guð miskunni nú öllum oss etc., sem er hér þó algengt lag. Oft hefur Justisraaden (Þ.e. Bjarni Thorarensen) sungið hér í vetur, en Það er ekki orðið annað eftir af honum en undirbassinn. Svona fer öllu aftur hjá okkur að mér finnst, lagsmaður, í þessu efni, og þykir mér þó vont. Ég er að kúga þá til að syngja, en það dugir ekki. Ég vildi einasta, að þú værir kominn hingað í vor eftir að skóla verður sagt upp, til að raula með mér einstaka vers; ef svo fer sem stendur, að ég verði hér til lestanna; en hvað duga þessar óskir? Fata et ordo rerum (þ.e. örlögin og rás viðburðanna skammta ganginn).“ (Sunnanfari 1893)

Páll Melsteð samdi að beiðni nefndarinnar, sem gaf út Söngbók stúdentafélagsins 1894, lista yfir texta, sem sungnir voru á skólaárum hans á Bessastöðum 1828-34. Á listanum eru 57 textar, en lögin eru miklu færri, því sama lagið var sungið við fleiri en einn textann á listanum. Flest lögin voru sungin í tvísöng, en þá var enn blómaöld tvísöngsins hér á landi. Flest eru lögin íslenzk þjóðlög, þar á meðal nokkur, sem eru í alþýðusöng þjóðarinnar enn í dag. Mozart á þar eitt lag, „Goða Það líkast er“ (Menúett úr óperunni „Don Juan“) og Weber annað, „Tindafjöll skjálfa, en titrar jörð“, svo framarlega sem hér er átt við hið fræga lag hans „Lútzow’s wilde Jagd“, en það lag er samið 1814, en náði skjótt útbreiðslu.

Þá ber listinn það með sér, að skólasveinar á Bessastöðum hafa sungið gamankvæði undir sálmalögum, eins og til dæmis „Í Garðinum, í Garðinum er góðfiski“, sem sungið var undir sálmalaginu „Aví, aví mig auman mann“. Það var þjóðleg tízka að syngja dægurvísur undir sálmalögum út öldina og jafnvel lengur, en ekki var það gert af lítilsvirðingu á sálmalögunum, heldur vegna hylli þeirra og af því, að menn kunnu ekki önnur lög. Af mörgum dæmum, sem allir þekkja, skal hár nefna „Aldrei skal ég eiga flösku“, sem sungið er undir sálmalaginu „Jesú, þínar opnu undir“; „Séra Magnús settist upp á Skjóna“, sungið undir sálmalaginu „Herra, þér skal heiður og lotning greiða“ og „Ég hef svo margan morgun vaknað“, sem sungið er undir sálmalaginu „Hver veit, hve nærri er ævi endi?“. Útlendingum þótti þetta einkennilegur siður og segir Loðvík Kristján Muller: „Allur söngur að kalla má, lætur þeim (þ.e. Íslendingum) illa, og jafnvel unglingarnir bera varla við að syngja mestu gamanvísur nema undir líksöngslagi“. (Fjölnir, fyrsta ár, 1835). Weyse-handritið, hin fyrsta margraddaða kóralbók okkar Íslendinga, er og heimild um sálmasöng í Bessastaðaskóla, því að Páll Melsted söng sálmalögin fyrir Weyse, eins og hann hafði lært þau í föðurhúsum og á Bessastöðum, en um þetta hefur verið áður verið rætt.

Hér hefur verið rætt um sönginn í Bessastaðaskóla meðfram vegna þess, að hann gefur bendingu um söng þjóðarinnar yfirleitt á þessum tíma. Það er sennilegt, að á Bessastöðum hafi verið sungin þau lög, sem þá voru vinsæl með þjóðinni og almennt sungin í landinu, og þá vitanlega sungin á sama hátt og annarsstaðar, það er að segja í tvísöng.

Íslenzk tvísöngslög eru sérkennileg og merkileg þjóðlög. Eigum við Bjarna Þorsteinssyni það að þakka, að mörg hafa varð veizt, en þau eru nóteruð í þjóðlagasafn hans, bls. 775-802. Frægasta tvísöngslagið er „Ísland, farsælda frón“, en undir því lagi orkti Bessastaðamaðurinn Jónas Hallgrímsson sitt fræga kvæði. Lagið er ágætt sýnishorn af því, hve fögur, frumleg og svipmikil þessi lög eru og gjörólík þjóðlögum annarra þjóða.

Tvísöngur eða kvintsöngur lét illa í eyrum útlendinga og þeim fannst sá söngur herfilega ljótur, eins margoft kemur fram í ummælum þeirra, en Íslendingum var sá söngur yndi öldum saman, þegar sungið er eftir listarinnar reglum, en þessu hefur Bjarni Þorsteinsson lýst þannig: „Og var list góðu tvísöngsmannanna einkum í því fólgin, hve fljótir þeir voru og liðugir að stökkva úr hæðinni niður í djúpið og aftur upp við átti, og hve óskeikulir þeir voru að hitta hárrétt hin ótrúlegustu tónbil, hve þaulæfðir þeir voru að ákveða, nær þeir skyldu fara upp og nær þeir skyldu fara niður, og hvað þeir forðuðust það, að vera nokkurn tíma samferða þeim, sem lagið sungu, nema eina nótu eða tvær, um leið og þeir fóru ofan að niður, eða neðan að og upp.“ (Bjarni Þorsteinsson: Íslenzk þjóðlög, bls. 502).

Tvísöngur er nú ekki lengur sunginn í landinu. Hann varð að víkja fyrir hinum nýja söng, skandinavískum og þýzkum sönglögum, sem þeir Pétur Guðjohnsen og Jónas Helgason innleiddu og þjóðin tók við fegins hendi, því það var sú músík, sem þá lá í loftinu og átti við tímann. Á síðari hluta 19. aldar fækkaði tvísöngsmönnunum og um aldamótin síðustu (1900) voru þeir alveg þagnaðir. Á uppvaxtarárum Bjarna Þorsteinssonar voru flest lög í Mýrarsýslu sungin einrödduð, en fáir kunnu þar tvísöng og enginn vel. Mörg lögin heyrði Bjarni síðan sungin í tvísöng í Vatnsdalnum á árunum 1880-1890, sem þá var helzta tvísöngssveit landsins, en annarsstaðar var tvísöngur orðinn sjaldgæfur. Á skólaárum Bjarna Þorsteinssonar í Latínuskólanum 1877-1883 var hann og Björn Gunnlaugur Blöndal, síðar læknir, að heita má þeir einu af skólapiltum, sem kunnu tvísöng, og sungu þeir hann oft.

Tvísöngur setti svip á sönginn í Bessastaðaskóla og flest lögin voru íslenzk, mörg sérkennileg þjóðlög. Það var því þjóðlegt sönglíf í skólanum. En við annan tón kvað í Latínuskólanum í Reykjavík, eftir að hann var aftur fluttur þangað. Þá hurfu íslenzku lögin úr skólasöngnum, en sungin voru af samstilltum kór skandinavísk og þýzk lög, sem flest komust síðar inn í íslenzkan alþýðusöng. Mörg lögin náðu mikilli hylli og alltaf hefur skólapiltum þótt gaman að syngja Bellmanslög, enda eru þau mikið uppáhald í stúdentasöng um öll Norðurlönd.

Tvísöngurinn eða kvintsöngurinn var þagnaður, en tvísöngur í annarri merkingu orðsins var mikið sunginn af góðum raddmönnum í skóla, einkum eftir Crussel, en þó öllu meira Gluntarnir eftir Wennerberg, en af þeim hafa stúdentar ávallt fundið akademískt bragð.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is