Söngkennarar S.Í.K.

Söngkennarar S.Í.K. Það má ekki skilja svo við kaflann um karlakórsöng, að ekki sé getið um söngkennara kóranna. Samband íslenzkra karlakóra réð Sigurð Birkis árið 1929 til að kenna karlakórsöngmönnunum og var hann í þjónustu karlakórasambandsins allt til þess tíma, að hann var skipaður söngmálastjóri þjóðkirkjunnar 1941. Sigurður ferðaðist um landið milli kóranna og var þetta mikið starf og þreytandi. Nemendum hans fannst mikið til um áhuga hans og elju við starfið og átti hann vináttu þeirra. Eftirsprnin eftir söngkennslu varð svo mikil næstu árin, að ekki varð hjá því komst að ráða söngkennara til aðstoðar og var þá Þórður Kristleifsson, söngkennari á Laugarvatni, ráðinn og fékk söngkennsla hans einnig einróma lof þeirra, sem reyndu.

Söngkennslan er einn merkasti þátturinn í því að bæta og fegra sönginn og algjört skilyrði þess, að kórsöngur geti orðið listrænn og með menningarbrag.

Sigurður Eyjólfsson Birkis er fæddur á Kvisthóli í Skagafirði 9. ágúst 1893. Foreldrar hans voru Eyjólfur Einarsson bóndi á Reykjum í Tungusveit, og kona hans Margrét Þórarinsdóttir.

Eins og kunnugt er, þá gengur sönggáfan í ættir. Sigurður Birkis hlaut sönggáfuna í arf frá foreldrunum og er hægt að rekja hana langt aftur í ættlegginn. Sjálfur hefur hann sagt þannig frá: „Ég er fæddur Skagfirðingur. Faðir minn, Eyjólfur Einarsson, var frábær söngmaður á sinni tíð og getur séra Bjarni Þorsteinsson prófessor hans í hinni miklu bók sinni „Íslenzk Þjóðlög“ sem ágætis söngmanns. Hann var ekki eldri en 16 ára, þegar hann var orðinn forsöngvari í Mælifellskirkju, og til marks um það, hve góður raddmaður hann hefur verið, er það, að séra Jón Magnússon, faðir Magnúsar Jónssonar prófessors, sagði að sér hefði þótt vænt um þegar Eyjólfur byrjaði lögin of hátt, því að þá varð hann að syngja þau einn, en hann hafði óvenjulega háan og mjúkan tenór. Hann gat sungið upp á e (fyrir ofan „háa-c“), og er það fádæma há tenórrödd“. Móðir Birkis hafði mjúka og fallega sópranrödd og eru sönghneigðir menn í þeirri ætt.

Sigurður Birkis stundaði nám í verzlunarskóla í Kaupmannahöfn 1918-19 og lauk prófi úr skólanum. Aldrei varð neitt úr því, að hann gerði verzlunarfræðina að hagnýtum lið í lífi sínu. Verzlun og viðskipti voru ekki að hans skapi, en sönglistin lét hann ekki í friði. Hann fór því í annað sinn til Kaupmannahafnar haustið 1920 og stundaði söngnám í konunglega tónlistarskólanum og lauk þaðan prófi 1923. Á þessum árum söng hann í hinum nafnkunna karlakór „Bel Canto“ og fór með kórnum í söngferðalag til Prag og fleiri borga og er söngferðin mikið rómuð. Birkis hefur skrifað um hana grein í söngmálablaðið „Heimir“ (eldri) 1925.

Árið 1926 stundaði hann framhaldsnám í söng í Ítalíu, settist árið eftir að í Reykjavík og stundaði söngkennslu sem aðalstarf. Hann söng þá opinberlega við og við og hélt nemendatónleika.

Sigurður Birkis var skipaður söngmálastjóri íslenzku þjóðkirkjunnar 1941, stofnaði marga kirkjukóra og vann þar mikið verk. Hann andaðist árið 1960.

Um Þórð Kristleifsson, sem ráðinn var Sigurði Birkis til aðstoðar, er talað áður (sjá bls. 207). Þar er þess getið, að hann hafi gefið út „Ljóð og lög“ í sjö heftum. Þessi hefti bættu úr brýnni þörf til að viðhalda þjóðlegu sönglífi, og eru í heftunum mörg íslenzk lög, bæði gömul og ný, þar á meðal lög, sem hvergi annarsstaðar hafa birzt. Þórður hefur þýtt marga söngtexta undir erlendum lögum. Árið 1956 birtizt „Vetrarferðin“ eftir Wilhelm Müller í þýðingu hans, en við þennan kvæðaflokk samdi Schubert lögin. Árið 1957 birtust „Íslenzkuð söngljóð“ eftir hann, en þetta eru þýðingar á söngtextum við lög eftir Schubert, Schumann og aðra meistara sönglagsins. Ljóðþýðingar Þórðar eru vandaðar og mjög vel gerðar.

Einar Sturluson söngvari hefur ennfremur kennt karlakórsmönnum söng á vegum S.I.K.  Um hann hefur verið talað áður.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is