Sigvaldi Kaldalóns 1881-1946

sigvaldi_kaldalonsÁ árunum 1916-18 sendi læknir í útkjálkahéraði frá sér fyrstu sönglögin sín og varð þjóðkunnur maður á svipstundu. Þjóðin tók lögunum fengins hendi og hefur sungið þau síðan. Höfundurinn, Sigvaldi Kaldalóns, þá læknir í Nauteyrarhéraði við Ísafjarðardjúp, var þá orðinn hálffertugur. Heima í héraðinu hafa menn sjálfsagt haldið áfram að kalla  hann „læknirinn“ eða „Sigvalda lækni“, en vitund þjóðarinnar var hann eftir þetta tónskáldið – Sigvaldi Kaldalóns tónskáld.

Sigvaldi Kaldalóns er fæddur frostaveturinn mikla 1881, þegar allt fraus, sem frosið gat og klaki fór ekki úr jörðu allt sumarið. Hann hefur sagt frá þessu þannig: „Eftir frásögn móður minnar er ég fæddur á kaldasta degi kaldasta ársins, sem komið hefur yfir Ísland í manna minnum. Það var 13. janúar 1881. Það er ekki að furða, þótt nafn mitt sé kaldranalegt.“

Sigvaldi er fæddur í Vaktarabænum í Grjótaþorpinu hér í Reykjavík. Hann er fæddur í suðurherberginu uppi á loftinu. Vaktarabærinn stendur enn og er nú talinn nr. 23  við Garðastræti. Faðir hans keypti hálfan bæinn og timburhús á lóðinni árið 1880, varð síðan einn eigandi eignarinnar, en seldi hana árið 1889 og fluttist þá í Teitshús víð Suðurgötu, en það hús er nú búið að rífa; það stóð þar sem nú er baklóð slökkvistöðvarinnar við Tjarnargötu og er nú bygging á þeim hluta lóðarinnar.

Foreldrar Sigvalda voru Stefán Egilsson múrari og kona hans Sesselja Sigvaldadóttir ljósmóðir. Stefán var ættaður sunnan af Nesjum, en Sesselja var borgfirzk. Faðir Sigvalda lagði margt á gjörva hönd, var sjómaður, formaður á sjó og síðar einn af aðalmúrurum bæjarins, þótt hann hefði ekkert lært í þeirri iðn af öðrum. Móðir Sigvalda tók sig til, eftir að hún var orðin fjögurra barna móðir, sigldi til Kaupmannahafnar og lærð i þar ljósmóðurfræði. Hún tók próf í þeim fræðum. Á þeim tíma þótti þetta mikill dugnaður af fullorðinni konu. Ljósmóðurstörf stundaði hún svo um margra ára skeið. Hún var skipuð ljósmóðir í Reykjavík 1887 og gegndi því starfi samfleytt í 16 ár, til ársins 1903, er hún sagði stöðunni lausri. Hún lézt í hárri elli. Hún var svipmikil kona, svo að eftir henni var tekið, hvar sem hún fór.

Ekkert skal hér sagt um það, í hvorn ættlegginn Sigvaldi sótti tónlistargáfuna, en víst er það, að listhneigð er í báðum ættum. Í móðurætt er Sigvaldi og séra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði þremenningar, en hvað föðurættina snertir, þá eru þeir Sigvaldi og Guðmundur skáld Kamban bræðrasynir.

Sigvaldi var settur til mennta, varð stúdent 1902 og lauk læknisprófi 1908. Hann hefur sjálfur sagt svo frá, að vel hefði lesturinn gengið, ef allar námsbækurnar hefðu verið skrifaðar með nótum.

Fyrstu sporin í tónlist lærði Sigvaldi hjá Jónasi Helgasyni dómkirkjuorganista, sem þá kenndi söng í barnaskólanum í Reykjavík. Jónas notaði fiðlu við kennsluna og kenndi börnunum að syngja eftir nótum. Síðan varð eftirmaður Jónasar í dómkirkjuorganistastöðunni, Brynjólfur Þorláksson, til að opna enn betur fyrir honum fegurðarheim tónlistarinnar. Sigvaldi kynntist Brynjólfi laust eftir aldamótin og lærði hjá honum að leika á harmonium og lék síðan listavel á þetta hljóðfæri. Þegar Sigfús Einarsson var kominn heim frá Höfn voru þeir Sigfús og Sigvaldi saman öllum stundum og Þótti Sigvalda mikið koma til raddsetningar Sigfúsar á íslenzkum þjóðlögum og einnig fannst honum frumsamdar tónsmíðar Sigfúsar þjóðlegar og til fyrirmyndar. Sigfús flutti með sár nýtt fjör og nýja strauma í hljómlistarlífið. Hann stofnaði söngkóra sem fluttu söngverk með undirleik hljóðfæra, og þá var stundum harmoníum eitt hljóðfærið og lék þá Sigvaldi á það. Hann hefur sagt svo frá, að þá hafi tónlistin gripið hann svo sterkum tökum, að munaði minnstu, að hann gæfi sig alveg henni á vald. Hann bætti svo við: „Ég tók mig samt á og slampaðist í gegnum læknaskólann.“

Í hrifningu þessara ára byrjaði hann að semja sönglög. Fyrsta lagið var við kvæði til Bjarna Jónssonar, síðar dómkirkjuprests og vígslubiskups, en þeir voru skólabræður og lásu lexíurnar saman. Lagið var samið í tilefni af því, að Bjarni var að sigla til Kaupmannahafnar, að afloknu stúdentsprófi, til náms við háskólann þar. Síðar orti Halla skáldkona undir þessu lagið kvæðið: „Æ, hvar er blómið blíða.“ Frá þessum árum eru nokkur sönglög, sem hann hélt til haga og síðar urðu kunn. Þar á meðal „Á sprengisandi“, „Ég lít í anda liðna tíð“ og „Draumur hjarðsveinsins.“

Eftir þetta lagði hann tónsmíðar á hilluna um stund og tekur ekki til við þær aftur fyrr en hann er kominn í það umhverfi, þar sem hann finnur samúð og fær hvatningu, en Sigvaldi var þannig gerður, að hvorttveggja var honum nauðsynlegt til að geta notið sín.

Að loknu embættisprófi í læknisfræði fór Sigvaldi til Kaupmannahafnar ti1 framhaldsnáms á sjúkrahúsum. Hann drakk þá í sig þá tónlist, sem hann komst yfir, en þá var fjörugt tónlistarlíf í Kaupmannahöfn. Þegar heim kom, varð hann héraðslæknir í Nauteyrarhéraði við Ísafjarðardjúp, árið 1910, eftir að hafa þjónað stuttan tíma annarsstaðar, og þar var hann í 11 ár, til ársins 1921, er hann sótti um lausn vegna vanheilsu. Hann settist þá að í Reykjavík, en eftir nokkur ár kenndi hann sig það heilsugóðan, að hann var skipaður héraðslæknir í Flateyjarhéraði. Árið 1929 var hann skipaður héraðslæknir í Grindavík. Heilsan var aldrei góð og fékk hann lausn frá embætti 1941 og bjó upp frá því í Reykjavík.

Svo hefur sonur hans sagt mér, að hvergi hafi Sigvaldi unað sér betur en við Kaldalón. Þar er fagurt skógarrjóður og þar undi tónskáldið öllum stundum, þegar sólin skein. Það er eftirtektarvert, að þarna við Djúpið vaknar fyrir alvöru hjá honum löngun til að semja tónsmíðar, og bar margt til, uppörfun fólksins og margvísleg áhrif af náttúrufegurð staðarins. Eggert bróðir hans fór til söngnáms um það bil og þá vaknaði hjá honum löngun til að semja sönglög fyrir hann til að syngja. Hann hefur samið mörg sönglögin með rödd bróður síns í huga, og síðar átti Eggert mestan þátt í að syngja þessi lög inn í þjóðina. Halla skáldkona á Laugabóli færði honum kvæðin og hann samdi svo lögin við þau. Sigurður Þórðarson, sonur hennar, bóndi á Laugabóli, hvatti hann mjög til að semja lög og varði sumarhýru sinni til að kosta fyrstu sönglagaútgáfuna, þótt hann væri þá félítill.

Þótt útkjálkastaður verði seint talinn heppilegt umhverfi fyrir tónskáld, þá varð samt Ármúli að mörgu leyti ákjósanlegur staður fyrir hina skapandi gáfu Sigvalda, því þar kenndi hann ríkrar samúðar fólksins, en það var honum nauðsynlegt til að hans viðkvæma listamannslund fengi notið sín. Sigvaldi var svo vinsæll og svo vel kunnu héraðsbúar að meta tónskáldið, að þeir færðu honum að gjöf vandaða slaghörpu, áður en hann fór úr héraðinu. Og það var einmitt meðan hann var læknir í Djúpi, að hann samdi mörg beztu sönglögin sín.

Sigvaldi Kaldalóns er söngvatónskáld í orðsins fyllstu merkingu. Allar hans tónsmíðar eru sönglög að örfáum undanteknum. Honum var sú gáfa gefin að geta samið lifandi laglínu. Hann var í eðli sínu cantabile-tónskáld, það er að segja, tónskáld, sem leggur alla áherzlu á sjálfa laglínuna – melódíuna, en fylgiraddirnar eru aðeins til uppfyllingar. Það kann að vera, að ónóg kunnátta hafi valdið hér nokkru um búninginn, og hefur hann sjálfur látið svo um mælt, að það hafi valdið sér mestum harmi, hve lítið hann lærði í tónfræði. Sennilegt er, að hér hafið það ráðið mestu, að gáfu hans var þannig varið, að honum lét bezt að tjá sig í laglínunni einni saman. Hann var subjektiv sem tónskáld, eins og það er kallað á útlenzku máli. Þessi cantabile-gleði tónskáldsins veldur því, að menn læra fljótt lögin og hafa gaman af að syngja þau.

Á efri árum komu þó nokkur sönglög frá honum, þar sem hann tjáir sig í nafni heildarinnar, þjóðarinnar – er objektiv – og skal þá sérstaklega bent á lagið „Ísland ögrum skorið“.

Árið 1916 kom út fyrsta sönglagaheftið, 7 sönglög. Í Því eru m.a. lögin: „Þú eina hjartans yndið mitt“, „Sofðu, sofðu góði“, „Á sprengisandi“ o. fl, kunn lög. Árið 1917 komu út 3 sönglög, eitt þeirra er „Alfaðir ræður“, og árið 1918 komu út 10 sönglög; eitt af þeim er „Heimir.“ Þessi þrjú sönglagahefti seldust upp á skömmum tíma og lögðu grundvöllinn að frægð hans sem tónskálds. Árið 1930 kom út söngvaheftið „Ljúflingar“, sem eru 12 einsöngslög. Árið 1939 kom út Safn af sönglögum fyrir blandaðar raddir; eitt af lögunum er „Ísland ögrum skorið“. Árið 1941 kom út hefti með 6 einsöngslögum, þar á meðal eru lögin „Huldur“ og „Hamraborgin“. Auk þess hafa komið út einstök lög sérprentuð, Söngvasafn Kaldalóns, í fimm bindum, er heildarútgáfa af sönglögum hans, sem sonur tónskáldsins, Snæbjörn Kaldalóns lyfjafræðingur átti frumkvæðið að. Heildarútgáfan er það síðasta, sem prentað er af lögum tónskáldsins.

Sigvaldi Kaldalóns er alþýðlegur í list sinni og hefur hún fundið hljómgrunn hjá fólkinu. Hann er undir greiniáhrifum rómantísku stefnunnar, eins og aðrir af þeirri kynslóð, og undan rótum þessarar stefnu eru komnar margar glitrandi söngperlur. Mörg eru sönglögin lipur og þýð, í öðrum er flug og lyfting, eins og „Ásareiðin“, í öðrum er dramatískur kraftur, eins op, „Heimir“ og „Alfaðir ræður“.

Sigvaldi vissi vel, að hann hafði sent frá sér mörg sönglögin í ófullkominni mynd, en hann vissi einnig, að hann hafði haft eitthvað á hjarta, sem hann hafði hlustað frá þjóðinni og náttúrunni, og einmitt þess vegna hafði þjóðin tekið við sönglögunum.

Sigvaldi var kvæntur danskri konu, Karen Matgrethe Mengel-Thomsen, skógarvarðardóttir frá Sjálandi, sem reyndist honum stoð og stytta í lífinu. Börn þeirra eru Snæbjörn lyfjafræðingur, Sigvaldi Þórður garðyrkjufræðingur, sem nú er látinn, og Selma María læknisfrú, gift Jóni Gunnlaugssyni lækni á Selfossi.

Sigvaldi Kaldalóns lézt í Reykjavík 28. júlí 1946, eftir langvarandi veikindi, 65 ára gamall.

Sigvaldi hefur eitt sinn sagt við blaðamann:
Lífið hefur oft verið mér erfitt. Veikindi hafa oft þreytt mig og mætt. Eitt vil ég taka fram, að eins og lífið hefur stundum verið mér erfitt og sársaukafullt, jafn glampandi fagurt og heillandi hefur það verið aðra stundina, þegar bjarta hlið þess hefur snúið að mér. Þá er það, sem lögin mín hafa orðið til, og þess vegna er Það, að ég hefi ávallt reynt að draga fram það fegursta og bezta, sem sál mín megnaði að túlka. Þau hafa verið túlkun á ást minni til lands og Þjóðar, til fjallanna og hafsins, þjóðernisins og móðurmálsins, til þjóðlífsins og alls þess, sem er íslenzkt, voldugt og fagurt.

Ég veit ekki, hvort mér hefur tekist að vekja þennan samhljóm í hjörtum þeirra, sem söngva mína hafa heyrt, – en sé svo, þá er ég ánægður og Þá hefur lífsstarf mitt ekki verið til einskis unnið.
Þetta eru orð tónskáldsins, játning þess, sem felur í sér, að það hefur fundið köllun sína og vitað, að það hafði ákveðnu hlutverki að gegna.

Sigvaldi Kaldalóns var ljúfmenni og drengur góður. Hann var vinsæll af öllum þeim, sem einhver kynni hafði af honum.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is