Sigursveinn Davíð Kristinsson

Sigursveinn Davíð Kristinsson er fæddur 24. apríl 1911 á Syðra Mói í Fljótum, Skagafirði. Hann lærði fyrst fiðluleik hjá Theodór Árnasyni 1936-37, stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1946-50, framhaldsnám í Kaupmannahöfn 1951 og síðar í Berlín 1956-57 (tónsmíði og kórstjórn).

Sigursveinn dvaldi á Ólafsfirði 1944-50 og á Siglufirði 1958-64 og fékkst við músíkkennslu og kórstjórn. Í Reykjavík dvaldi hann frá 1950-57, að undanteknum námstímanum í Kaupmannahöfn og Berlín. Hann stofnaði Söngfélag verkalýðsfélaganna Reykjavík í mars 1950 og stjórnaði því, þar til hann fluttist til Siglufjarðar 1957. Hann settist aftur að í Reykjavik 1964 og hefur búið þar síðan og rekið tónlistarskóla, sem við hann er kenndur, (Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar).

Sigursveinn beitti sér fyrir stofnun fyrstu félaga fatlaðra, Sjálfsbjörg 1958, og heftir starfað í þeim samtökum, en sjálfur hefur hann verið lamaður frá 1924.

Sigursveinn hefur samið sönglög fyrir einsöng og kór, einnig stærri verk fyrir orgel og hljómsveit, sem flutt hafa verið af Sinfóníuhljómasveit Íslands, eins og „Draumur vetrarrjúpunnar“, sem er sinfónískur þáttur um mynd Kjarvals, ennfremur svítu í rímnastíl nr. 1. Sigursveinn á nokkur frumsamin sönglög í „Íslandsljóðum“, sem er sönglagasafn útgefið af Alþýðusambandi Íslands 1940, en hann og Hallgrímur Jakobsson söfnuðu lögunum í útgáfuna.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is