Orgelleikarar

Á þessu tímabili halda fjórir orgelleikarar sjálfstæða tónleika í Reykjavík. Þrír íslenzkir og einn þýzkur. Í Reykjavík eru tvö orgel, sem eru samboðin snillingum, annað er í Fríkirkjunni síðan 1926, en hitt í Dómkirkjunni síðan 1934. Þriðja orgelið kom í Landakotskirkjuna 1950 og er það gott hljóðfæri. Á það lék bandaríski orgelsnillingurinn E. Power Biggs 13. júní 1954, og eru þeir tónleikar mörgum minnisstæðir. Íslenzku orgelleikararnir þrír eru þeir dr. Páll Ísólfsson, Páll Kr. Pálsson og Ragnar Björnsson. Þýzki orgelleikarinn er presturinn Georg Kempf.

Dr. Páll Ísólfsson. Enginn orgelleikari hefur leikið eins oft opinberlega í Reykjavík og Páll Ísólfsson. Allt frá því hann var við nám í Leipzig, hélt hann orgeltónleika hér í sumarleyfum, fyrst á gamla orgelið í Dómkirkjunni, en eftir að nýtt orgel var komið í Fríkirkjuna, þá lék hann á það á konsertum, meðan hann var organisti kirkjunnar (1926-39). Árið 1939 varð hann dómorganisti og eftir það notaði hann orgel kirkjunnar til tónleikahalds.

Dr. Páll hélt lengi næstum árlega sjálfstæða orgeltónleika, stundum tvisvar á ári, en síðar urðu þeir strjálari. Auk þess aðstoðaði hann í kirkjunni oft söngvara, fiðluleikara og aðra listamenn, bæði íslenzka og erlenda, og lék þá venjulega orgelsóló á milli þátta.

Dr. Pall Ísólfsson hefur sem orgelleikari kunnáttu, á heimsmælikvarða, enda má segja, að orgelleikurinn sé hans eiginlega svið. List hans er stórbrotin. Hann er skapmikill og andríkur, og sem Bachspilari er hann í fremstu röð.

Páll Kr. Pálsson. Hann hélt orgeltónleika í Dómkirkjunni 10. desember 1948, eftir tveggja ára nám í orgelleik erlendis, lengst af í Edinborg, en einnig um nokkurra mánaða skeið í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Áður hafði hann lært hér heima hjá. dr. Páli Ísólfssyni, og er fyrsti nemandi hans, sem heldur hér sjálfstæða orgeltónleika. Áður en hann kom heim, hélt hann orgeltónleika í St. Gileskirkjunni í Edinborg.

Páll Kr. Pálsson er fæddur í Reykjavík 30. ágúst 1902, sonur Páls Árnasonar lögregluþjóns. Hann stundaði skrifstofustörf í Reykjavík fram yfir fertugt, en þá sneri hann sér allur að tónlistinni. Hann hefur lengi verið organisti þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði og er leiðandi maður í tónlistarlífi bæjarins. Páll er alvörugefinn og ágætur listamaður. List hans hefur orðið fyrir áhrifum af hinum enska orgelstíl. Hann hefur samið tónsmíðar.

Ragnar Björnsson. Hann hélt orgeltónleika í Dómkirkjunni 20. maí 1949 og voru það fyrstu orgeltónleikar hans. Hann er fæddur 27. marz 1926 og er Húnvetningur að ætt og uppruna. Hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk burtfararprófi um vorið 1948, í píanó- og orgelleik, með ágætis vitnisburði. Framhaldsnám stundaði hann við konunglega tónlistarskólann í Kaupmannahöfn. Hann hefur stundað nám í orgelleik hjá K. Richter og Fr. Högner í München og próf. Klotz í Köln. Einnig hefur hann stundað nám í hljómsveitarstjórn í Danmörku og Austurríki og víðar.

Ragnar Björnsson var skipaður dómorganisti í Reykjavík frá 1. janúar 1968, er dr. Páll Ísólfsson lét af störfum fyrir aldurssakir, en Ragnar hafði þá um mörg undanfarin ár verið aðstoðarorganisti Dómkirkjunnar. Ragnar hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands við ýms tækifæri og verið söngstjóri Karlkórsins „Fóstbræður“ síðan 1954. Loks skal þess getið, að hann hefur verið skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík frá stofnun skólans 1956.

Á þessari upptalningu er ljóst, að Ragnar á langan námsferil að baki sér, utanlands og innan. Hann er fjölhæfur listamaður, góður organleikari og snjall söngstjóri.

Georg Kempf . Hann hélt Bachtónleika í Dómkirkjunni 30. sept. 1934 og endurtók þá litlu síðar. Hann er afburðasnjall orgelleikari. Hann lék hér í Reykjavík um sumarið 1930. Þá var hann prestur í Wittenberg, en síðar varð hann forstjóri kirkjumúsíkdeildar háskólans í Erlangen í Þýzkalandi og gegndi því starfi í 25 ár (1933-58). Síðan varð hann organisti í Transvaal.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is