Olufa Finsen (1835-1908)

Kantatan við útför Jóns Sigurðssonar forseta er hennar verk og Matthíasar; hún samdi músíkina, en Matthías sorgarljóðin. Sá söngur hreif svo áheyrendur, að lengi var í minnum haft. Hún stjórnaði sjálf söngnum, en beztu söngkraftar bæjarins sungu – tvöfaldur kvartett. Jónas Helgason stjórnaði sálmasöngnum í kirkjunni. Um þetta segir „Þjóðólfur“ 8, maí 1880: „Mun betri söngur en þennan dag heyrðist fágætur hér á landi.“

Sorgarkantatan eftir Olufu Finsen er fyrsta kantatan, sem er samin og sungin hér á landi. Því miður hefur hún ekki verið prentuð, en í Organtónum I er úr henni lagið: „Fjallkonan hefur upp harmalag.“

Ekki veit sá, er þetta ritar, hvort frú Olufa Finsen gerði mikið að því að semja tónsmíðar. Í ljóðabókinni „I Sorg og Glæde“ (Kbhvn. 1870) er lítið einsöngslag eftir hana, allsnoturt vöggulag með píanóundirleik. Höfundur ljóðanna nefnir sig „Benedicte“. Í bókinni er brúkaupskvæði til frú Olufu Finsen í tilefni af 11. brúðkaupsdeginum 25. sept. 1867. Mörg kvæðin eru ort á Íslandi. Frú Olufa var eiginkona Hilmars Finsens (1824-86), stiptamtmanns 1865-73 og síðan landshöfðingja 1873-83. Hann var af íslenzku bergi brotinn í föðurætt, sonur Jóns borgmeistara í Danmörku Hannessonar biskups Finnssonar. Hilmar var gáfumaður og lærður vel, eins og þeir ættmenn, og var hann talinn ágætur latínumaður, en íslenzku lærði hann þó aldrei að tala fyllilega lýtalaust, enda fæddur og uppalinn í Danmörku. Þegar Hilmar Finsen hvarf héðan af landi burt eftir 18 ár, til þess að gerast yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, var það orðin næstum einróma skoðun landsmanna, að „betri og réttsýnni yfirstjórnanda en Hilmar Finsen hefði þjóðin naumast nokkru sinni átt.“ (Jón biskup Helgason: „Þeir, sem settu svip á bæinn“). Hilmar Finsen varð nokkru síðar um hríð innanríkisráðherra í stjórn Estrups. Olufa Finsen var dóttir Bojesen yfirfátækrastjóra og jústitsráðs í Kaupmannahöfn. Hún var merkiskona, sem lét gott af sér leiða í okkar litla bæjarfélagi, meðal annars beitti hún sér fyrir stofnun sjúkrahúss og mest var það henni að þakka, að kvennaskóli var settur á stofn í Reykjavík og tók þar til starfa haustið 1874.

Jón biskup Helgason segir ennfremur í sömu bók: „Frú Finsen var einnig mjög söngvin kona og hafði mikil áhrifá vaknandi sönglíf í bænum, enda lék hún sjálf forkunnarvel á hljóðfæri (píanó) og samdi sjálf sönglög, (t.a.m. hina ágætu kantötu, sem hér heyrðist í fyrsta  skipti við útför Jóns Sigurðssonar, og vakti hvað ekki minnsta athygli fyrir einsöng Þeirra frú Ástu Hallgrímsson (kona Tómasar Hallgrímssonar læknis; hún var dóttir Thorgrímsen faktors á Eyrarbakka) og Steingríms Johnsen, en einsöngur við útför hafði þá aldrei fyrri heyrst hér á landi. Að Jónas tileinkar henni eitt af sönglagaheftum  sínum er vafalaust í þakkarskyni gert fyrir örvandi áhrif hennar á söngmenntaáhuga Jónasar, sem ekki allsstaðar átti þeim skilningi að mæta, er örvað gæti lofsverðan áhuga hans á sönglistinni.“

Meðal ágætra gesta, sem sóttu þjóðhátíðina 1874 var nafnkunnugt skáld og rithöfundur frá Bandaríkjunum, Bayard Taylor. Stórblaðið New York Tribune fékk hann til að skreppa til Íslands og senda þaðan fréttabréf frá þjóðhátíðinni. Hann ritaði síðan sérstaka bók um ferðalög sín um Egyptaland og Ísland og eru „íslandsbréf 1874“, seinni hluti bókarinnar. Tómas Guðmundsson hefur þýtt þau á íslenzku (Almenna bókafélagið, Rvík. 1963). Þar er eftirfarandi lýsing á því, er frú Olufa Finsen tekur á móti konungi Kristjáni IX: „Dyrnar á húsi landshöfðingjans opnuðust og landshöfðingjafrú Finsen kom út á tröppurnar, klædd óbrotnum svörtum silkikjól, án skrauts eða skartgripa. Hún gekk niður steinþrepin að fyrstu garðflötinni, gerði stundvíslega knébeyging fyrir konunginum og aðra, ekki jafndjúpa, fyrir prinsinum, og fylgdi þeim að dyrunum. Í frásögn virðist þetta ósköp einfalt mál, en ekki veit ég margar konur, sem mundu hafa rækt þetta hlutverk að jafnaðdáununverðum þokka, háttvísi og sjálfstillingu. Öll Reykjavík horfði á; einmitt í þessari andrá úthellti sólin geislaflóði sínu, rétt eins og hún vildi fyrir alla muni bregða ljóma yfir þetta litla atvik; og þar með var lokið fyrstu landgöngu dansks konungs á Íslandi.“

Antony Trollope (1815-1882 ), einhver vinsælasti rithöfundur Breta á síðari hluta 19. aldar, minnist á frú Olufu Finsen í bókinni „Íslandsferð Mastiffs“, sem Bjarni Guðmundsson hefur þýtt á íslenzku (Almenna bókafélagið, Rvík. 1960). „Mafastiff“ er nafn á skemmtiskipi, sem skozki útgerðarmaðurinn John Burns lávarður og gestir hans höfðu í Íslandsferðina; hann var forstjóri útgerðarfélags, sem faðir hans hafði stofnað og síðar varð frægt undir nafninu Cunard Company. Trollope var ráðinn í ferðina til að skrá ferðasöguna. John Burns hélt veizlu um borð í skipinu á Reykjavíkurhöfn og bauð þangað æðstu embættismönnum bæjarins. Trollope segir: „Mér var sú virðing sýnd, elztum farþega, að vera skipað til vinstri handar landshöfðingjafrúnni og þá Þóru (dóttur Péturs biskups) við hina hliðina. Varð það mér til hinnar mestu ánægju. Raunar var Þóra orðin slíkur aldavinur okkar – næstum ein af oss – Þegar hér var komið sögu, að hún skrafaði ýmsum öðrum til skemmtunar, en ég sneri mér einkum að landshöfðingjafrúnni: Hún talaði líka ensku og sagði mér margt um sína hagi og landshagi yfirleitt. Ég hef þekkt margar enskar hefðarkonur áratugum saman, en kynnst þeim miður en ég kynntist frú Olufu Finsen þetta kvöld. Hún var fríð kona, dökkhærð, alúðleg og broshýr með fremur stórt andlit, björt augu og svo skaphlý og skemmtileg, að ég mun lengi minnast hennar. Hún kunni frá mörgu að segja um börnin sín, drengina sem voru við nám í Danmörku, og hvað eina, gott og illt, um ástand á Íslandi. Þau hjónin höfðu flutzt til Íslands frá Danmörku, en hún kvaðst kunna vel við sig í Reykjavík.“ Það er nokkurs virði að eiga slíka lýsingu á landshöfðingjafrúnni, sem samdi sorgarkantötuna við útför hins mikla þjóðarleiðtoga.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is