Markús Kristjánsson 1902-1931

Tónskáldið og píanóleikarinn Markús Kristjánsson dó tæplega þrítugur að aldri árið 1931. Meðan hann lifði vissu fáir, að hann var tónskáld. Sönglögin hans komu fyrst út eftir að hann var látinn. En píanóleikarinn Markús Kristjánsson var vel þekktur maður í tónlistarlífi Reykjavíkur. Hann hafði margoft aðstoðað söngvara með píanóundirleik, allt frá 1920, og ennfremur hafði hann sjálfur haldið opinberlega píanótónleika. Allir vissu, að hann hafði lært píanóleik erlendis og ætlaði að gera hann að ævistarfi. Hann leit sjálfur á þetta sem köllun sína.

Markús Kristjánsson er fæddur í Reykjavík 15. júlí 1902. Hann var af góðu bergi brotinn, sonur Kristjáns Bjarnasonar skipstjóra og konu hans Jóhönnu Gestsdóttur. Þeir Kristján og Markús Bjarnason, hinn þjóðkunni skólastjóri sjómannaskólans, voru bræður. Kristján, faðir Markúsar, var skipstjóri á kútter „Orient“, sem gerður var út frá Reykjavík. Skipið fórst með allri áhöfn árið 1903, þá var Markús ungbarn í vöggu. Móðir hans giftist síðar Pétri Mikael Sigurðssyni skipstjóra. Einnig missti hún þennan mann sinn í sjóinn. Hann var skipstjóri á kútter „Valtý“, sem fórst með allri áhöfn í febrúar 1920 fyrir sunnan land. Skipið var gert út frá Reykjavík, fyrst af Brydesverzlun og síðan af Duusverzlun. Pétur Mikael Sigurðsson var 44 ára gamall, þegar hann drukknaði, og hafði hann um mörg ár verið einn aflahæsti skipstjórinn í þilskipaflotanum við Faxaflóa.

Markús fór í Menntaskólann þegar hann hafði aldur til, en lærði jafnframt að leika á píanó hjá Reyni Gíslasyni, sem þá var einn helzti píanóleikarinn í bænum. Tónlistina tók Markús svo föstum tökum, að hann hætti skólanámi eftir þrjá vetur og lagði eingöngu stund á hana. Um tvítugt fór hann til Kaupmannahafnar og lærði þar píanóleik hjá Haraldi Sigurðssyni frá Kaldaðarnesi, en jafnframt las hann undir stúdentspróf, sem hann tók þar um vorið. Hann er því danskur stúdent. Þetta var vel gert eftir svo stuttan tíma, aðeins vetrardvöl í Kaupmannahöfn, en Markús var gáfaður og duglegur að hverju, sem hann gekk. Síðan kom hann hingað heim, lauk prófi í forspjallsvísindum og hugðist stunda læknisfræði en hafa tónlistina í hjáverkum. Það fór fyrir honum eins og mörgum öðrum, að tónlistin tók hann allan. Hann fór þá utan og lærði hjá Max Pauer í Leipzig, heimsfrægum píanóleikara, sem áleit Markús efnilegan og vildi ekkert endurgjald af honum taka. Kom Markús heim í sumarleyfi sínu og hélt hér píanótónleika, sem tókust vel. þetta var árið 1927. Síðan fór hann utan aftur og lærði hjá Breithaupt í Berlín, nafnkunnum kennara. Í Berlín tók hann þann sjúkdóm, sem leiddi hann til dauða þremur árum síðar. Hann kom heim um sumarið 1928 og efndi til píanótónleika um haustið, en varð að hætta við þá vegna sjúkdómsins. Markús var orðinn góður píanóleikari og lék hinar erfiðustu tónsmíðar með glæsibrag. Hann átti það sameiginlegt frænda sínum Rögnvaldi Sigurjónssyni, að hann hafði píanótæknina á valdi sínu.

Eins og áður er sagt taldi Markús það köllun sína að verða píanóleikari og sjálfur gerði hann sér bjartar vonir um framtíð sína á þessu sviði. En snemma hafði önnur rödd farið að bæra á sér í brjósti hans – hann fann hjá sér þörf að semja tónsmíðar. þessi rödd lét hann ekki í friði og hann lærði tónfræði.

Það er ekki mikið að vöxtum, sem liggur eftir Markús, nokkur píanólög og sönglög. Píanólögin eru óprentuð, en sönglögin voru gefin út árið 1943, löngu eftir andlát hans. Þau eru tíu að tölu og flest orðin kunn áður, því söngvarar okkar höfðu sungið þau mikið og sum inn á hljómplötur. Meðan Markús var enn á lífi bar það við, að lög eftir hann voru sungin opinberlega, og þau vöktu þá strax athygli.

Lögin eru samin fyrir einsöng með píanóundirleik, vönduð að búningi og með miklum menningarbrag. Þau eru ljóðræn og innileg, en traust og frumleg, enda engu minna sungin í dag, eftir 40 ár, en fyrst er þau komu fram. Sum eru samin á örlagastundum í lífi tónskáldsins, eins og í „Bikarinn“ við kvæði Jóhanns Sigurjónssonar. Lagið er samið í Berlín, eftir að syrti að og Markús hafði tekið sjúkdóminn. Á undan hendingunni: „Bak við mig bíður dauðinn“ heyrist örlagastefið nokkrum sinnum í píanóinu, tvær nótur stuttar og ein löng. Þær tákna, að þannig berji örlögin að dyrum. Í laginu er spenna og dramatískur kraftur og er það áhrifamikið, þegar það er vel sungið af góðum raddmanni.

Lagið „Gott er sjúkum að sofna“ (Davíð Stefánsson) er einnig samið, þegar tónskáldið háði baráttuna við sjúkdóminn og grunaði, hvert stefndi. Í því lagi eru þó engin örvænting, heldur angurvær söknuður og ljóðræn fegurð.

Alkunn eru sönglögin „Minning“ (Þú varst minn vetrareldur) við kvæði eftir Davíð Stefánsson, „Sólin er hnigin, hver söngfugl á grein“ (höf. ókunnur), „Er hnígur sólin hægt í djúpan sæ“ (Hannes Hafstein) og „Tunglið, tunglið taktur mig“, en í þessu lagi við hina alkunnu gæluvísu er flug, sem „ber mann upp til skýja“. Þessi lög, sem nú hafa verið talin, eru öll blæfögur stemmningslög. Lagið „Þú nafnkunna landið“ er þróttmikið, enda krefst textinn þess.

Í sönglagahefti Markúsar eru tvö lög við norskan texta eftir Björnstjene Björnson: „Ælsk din næste“ og „Den blonde pike“. Ennfremur er þar íslenzka þjóðlagið „Bí, bí og blaka“, en sá galli er á útgáfunni, að þess er ekki getið, að lagið er íslenzkt þjóðlag, en ekki frumsmíð Markúsar. Hinsvegar er raddsetningin auðvitað eign Markúsar.

Markús Kristjánsson var gáfaður maður og skarpgreindur. Hann átti skapfestu og atorku og var líklegur til afreka, ef honum hefði enst líf og heilsa. Hann ætlaði sér að verða mikill píanóleikari og var búinn að finna sjálfan sig sem tónskáld. Hann var rétt að byrja feril sinn sem tónskáld, þegar hann féll frá langt fyrir aldur fram, ekki orðinn þrítugur. Sönglögin eru að vísu ekki mörg, en þau eru prýði í íslenzkum tónbókmenntum og munu geyma nafn hans og minningu um ókomna tíma.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is