Kórsöngur

Blandaðir kórar
Karlakórar starfa á þessu tímabili með sama krafti og áður og nýir koma fram. Þeir eiga miklum vinsældum að fagna og fá góða aðsókn. En blandaður kórsöngur verður, þegar líður á tímabilið, stöðugt veigameiri þáttur í sönglífinu, sérstaklega við flutning á stórverkum meistaranna, eins og óratóríum, passíónum og öðrum slíkum söngverkum, sem nú eru flutt í heild, en áður voru einungis sungin úr þeim einstök lög.

Lengi voru blandaðir kórar í Reykjavík ekki fastmótaður félagsskapur. Þeir voru myndaðir í hvert sinn, þegar á þeim þurfti að halda, stundum í tilefni af konungskomu, að ógleymdri Alþingishátíðinni 1930, en oftast í tilefni af kirkjutónleikum, sem dómorganistinn eða annar efndi til. Þessir blönduðu kórar báru ekkert nafn, fyrr en Sigfús Einarsson gefur þeim kór, sem hann hann hafði stýrt um skeið, nafnið „Heimir“. Kórinn söng í fyrsta sinn undir því nafni í Dómkirkjunni 4. des. 1936. Kórinn söng a capella, mest gömul kirkjulög eftir gamla meistara, Bach, Schütz, Palestrina og einnig eftir 19. aldar tónskáld, eins og Brahms. Kórinn söng ekki eftir það og lagðist niður.

Þegar líður á tímabilið eru hér starfandi nokkrir félagsbundnir blandaðir kórar: Tónlistarfélagskórinn, Söngfélagið Harpa, Samkór Reykjavíkur og Útvarpskórinn, auk Dómkórsins og annara kirkjukóra. Tónlistarfélagskórinn var fyrst nefndur Samkór Tónlistarfélagsins og hann var uppistaðan í þeim blandaða kór, sem söng í óratóríuverkum og öðrum stórum söngverkum, sem settu svo mjög svip á sönglífið í bænum á sínum tíma.

Hér á eftir verður talað um helztu tónleika með blönduðum kórsöng.

Dr. Páll Ísólfsson stjórnaði eftirtöldum verkum: „Sköpunin“ eftir Haydn (1940), „Reqiuem“ eftir Cherubini (1941) og Alþingishátíðarkantötunni 1930 eftir sjálfan hann, sem flutt var í Fríkirkjunni 12 okt. 1943 í tilefni af fimmtugsafmæli hans.

Dómkórinn söng undir hans stjórn í Dómkirkjunni 6. maí 1950 íslenzk lög eftir Hallgrím Helgason, Jón Leifs, Björgvin Guðmundsson, Árna Björnsson, Karl O. Runólfsson og Pál Ísólfsson.

Kórinn söng aftur á sama stað 6. júní 1950 sálmalög í vönduðum raddsetningum gamalla meistara. Þuríður Pálsdóttir, Kristinn Hallsson sungu einsöng og Páll lék orgelsóló. Lanzky Otto lék einleik á waldhorn.

Dr. Róbert Abraham Ottósson stjórnaði „Árstíðunum“ eftir Haydn í Gamla Bíó í marzmánuði 1943. Þetta voru reyndar ekki nema þættir úr óratóríunni en textinn var í íslenzkri þýðingu Jakobs Jóhanns Smára. Hljómsveit Reykjavíkur og Söngfélagið Harpa fluttu verkið, en einsöngvarar voru Guðrún Ágústsdóttir, Guðmundur Jónsson og Daníel Þorkelsson. Söngfélagið Harpa var um 30 manna flokkur.

Róbert Abraham Ottósson var söngstjóri Útvarpskórsins. Kórinn var á vegum Ríkisútvarpsins og ætlað það hlutverk að syngja í útvarpið og það gerði hann með prýði. Söngstjórinn sýndi íslenzkri tónlist þá ræktarsemi, að láta kórinn syngja lög eftir eldri og yngri íslenzk tónskáld, þar á meðal ný lög, sem aldrei höfðu heyrst áður. Útvarpskórinn söng í útvarpssalnum, en gerði þá undantekningu frá reglunni tvisvar, að syngja úti í bæ, og söng þá í Dómkirkjunni. Í fyrra sinnið var konsertinn 6. febr. 1949 og þá sungin lög eftir Sweelinck, Brahms, Missa brevis í B-dúr eftir Haydn og Kyrie úr Grallaranum, sem er einraddaður messusöngur. Í síðara skiptið söng kórinn þar 28. febr. 1950.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is