Jórunn Viðar

Jórunn Viðar (f. 17. des. 1918). Í kaflanum um píanóleikara hér að fram hefur verið ritað um hana sem píanóleikara (sjá bls. 356). Þar var tekið fram, að hún hefði músík í æðum, enda er hún í föðurætt af Guðjohnsensættinni og móðir hennar og móðurbróðir (Jón Norðmann) bæði píanóleikarar. Í kaflanum hér að framan er minnst á píanótónleika hennar fram að 1950, en eftir að Sinfóníuhljómsveitin tók til starfa 1950, hefur hún nokkrum sinnum leikið píanókonserta með hljómsveitinni. Á Listamannaþinginu 1950 vakti Jórunn Viðar á sér athygli sem tónskáld fyrir músíkina við ballettinn „Eldinn“ eftir Sigríði Ármann, sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi. Félagið sýndi tveimur árum síðar ballettinn „Ólafur Liljurós“ eftir Jórunni Viðar, en dansana í ballettinum (kóreografi) sem er í einum þætti, hafði Sigríður Ármann samið, að undanteknum sólódansi, sem Guðný Pétursdóttir hafði samið. Leikfélagið sýndi ballettinn í samvinnu við Félag ísl. listdansara. Þótt þessi stutti ballett léti ekki mikið yfir sér, þá var hér um merkilega byrjun að ræða, því það er ljóst, að fornir dansar og þjóðkvæði geta orðið þessari listgrein auðug uppspretta.

Það var sagt um Jórunni Viðar sem píanóleikara hér að framan, að gáfa hennar væri ljóðræn. Það sama er að segja um hana sem tónskáld. Tónsmíðar hennar eru ljóðrænar og með þjóðlegu ívafi, eins og glöggt má kenna í vísnalögunum og tilbrigðunum fyrir celló og píanó.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is