Jónas Helgason dómkirkjuorganisti (1839 – 1903)

Dómkirkjuorganistarnir í Reykjavík hafa ávallt verið forystumenn í sönglífi bæjarins. Fyrsti dómkirkjuorganistinn, Pétur Guðjohnsen, var átrúnaðargoð ungra manna og slíkur áhrifamaður, að þeir gengu síðan fram í hans anda og krafti. Tveir þessara ungu manna eru bræðurnir Jónas og Helgi Helgasynir. Jónas tók við organistastöðunni við dómkirkjuna að Pétri látnum árið 1877 og gegndi starfinu til æviloka 1903, í samfleytt 26 ár. Hann hélt starfi Péturs áfram, að efla kirkjusönginn og þjóðlegt sönglíf í landinu. Og það var einmitt hann, sem stofnaði fyrsta karlakórinn hér á landi, söngfélagið Hörpu, árið 1862.

Jónas Helgason er fæddur í Reykjavík 28. febrúar 1839. Foreldrar hans eru Helgi trésmiður Jónsson, ættaður úr Þingeyjarsýslu og Guðrún Jónsdóttir ættuð úr Árnessýslu. Helgi, faðir Jónasar, var á sínum tíma aðaltrésmiðurinn í Reykjavík, en þá voru trésmiðir langflestir meðal iðnaðarmanna, enda skiljanlegt þegar á það er litið, að þá voru langflest hús, sem smíðuð voru í bænum, úr timbri. Helgi var um tíma bæjarfulltrúi í Reykjavík.

Er búið var að ferma Jónas, lærði hann járnsmíði hjá Teiti Finnbogasyni (d. 1883). Teitur byggði (1833) fyrsta húsið við Suðurgötu, sem síðan var kallað Teitshús og stóð langt fram á þessa öld. Þar bjó síðar Stefán Egilsson múrari, faðir Sigvalda Kaldalóns, sem ólst þar upp. Þegar frá leið hætti Teitur að smíða, en lagði helzt stund á dýralækningar. Meðan Jónas var við járnsmíðanámið vann hann á sumrin við heyskap í Skildinganesi, en þar hafði Teitur bú, og einnig reri hann á vetrarvertíð, eins og þá var siður, þess á milli vann Jónas að smíðum. Þannig vann Jónas sér inn fé, sem hann síðar lét ganga upp í kaup á smiðjunni. Eftir fjögurra ára nám var Jónas fullnuma og fékk þá sveinsbréf 1856. Hann gerðist þá sjálfstæður járnsmiður og keypti smiðju þá við Bankastræti, þar sem hann smíðaði jafnan síðan, svo lengi sem hann stundaði þessa iðn. Helgi Magnússon, járnsmiður og síðar kaupmaður, reisti síðar stórhýsi á lóðinni.

Jón Helgason biskup bregður upp mynd af járnsmiðnum í margnefndri bók sinni. Þar segir svo: „Ýmsum hinna elztu núlifandi Reykvíkinga mun Jónas enn í minni sem smiður, þar sem hann stóð í smiðjudyrunum til að kæla sig, kafrjóður í kinnum, berarmaður upp fyrir olnboga, með leðursvuntuna framan á sér og kallast á við þá, sem fram hjá fóru eða spurðist tíðinda úr bænum. Ekki fór neitt sérstakt orð af Jónasi sem járnsmiði og mun hann þó ekki í þeirri grein hafa staðið öðrum að baki, nema síður væri, en sennilega hefur alkunnur áhugi hans á sönglistinni og merkilegt starf hans í þágu hennar fremur orðið til þess að skyggja á iðnaðarmannsstarfið í vitund almennings.“

Síðan segir Jón biskup Helgason frá því, að eftir að „Jónasi smið“ hafði verið falið organleikastarfið, og söngkennsla í skólum upptók tíma hans, lagðist járnsmíðin á hilluna og leigði Jónas þá eða seldi gömlu smiðjuna. „Þó voru einstaka hestamenn hér í bænum, sem varla trúðu öðrum fyrir járningu hesta sinna, og því gat það komið fyrir, enda alllöngu eftir að sönglistin hafði tekið Jónas algerlega í þjónustu sína, að sjá mátti dómkirkjuorganistann snöggklæddan vera að járna góðhesta gamalla viðskiptavina, er ekki treystu öðrum til að vinna það verk jafn vel og honum.“

Jónas var söngmaður góður, rödd hans var hljómfögur og þýð og raddsviðið mikið. Hann var sannkallaður söngfugl og notaði hvert tækifæri, sem gafst, til að taka lagið. Í eftirmælum eftir hann í blaðinu „Ísafold“ segir svo: „Kom það iðulega fyrir á hinum fyrstu árum, er hann átti með sig sjálfur, að hann hljóp frá steðjanum til að syngja við greftranir og tók enga borgun fyrir. Hann hafði svo gaman af að syngja, að hann horfði ekki í að láta tefja sig frá verki, þótt ekkert væri í aðra hönd.“

Ennfremur segir svo í sömu blaðagrein: „Af þessari ást hans á söngnum leiddi eðlilega, að hann kynntist snemma þeim mönnum á hans reki, sem höfðu sönghæfileika og gaman að söng, og með þeim gekk hann í félagsskap 1862. Var það félag nokkru síðar nefnt Harpa og starfaði í full 30 ár, oftast af mesta kappi og jafnan með sóma. Var Jónas alla ævi kennari þess og stjórnandi.“ Á Hörpu verður nánar minnst hár á eftir.

Jónas lærði snemma að leika á fiðlu og síðar á harmonium. Harmonium var hljóðfærið, sem hann lék á við guðsþjónustur í dómkirkjunni, en fiðluna notaði hann við söngkennslu í skólum, einkum framan af.

Jónas fann hjá sér þörf að menntast betur í listinni og fór því til Kaupmannahafnar og dvaldi þar við tónlistarnám veturinn 1875-76. Landshöfðingjafrú Olufa Finsen hefur sjálfsagt greitt götu hans. Hún var náin vinur Gades fjölskyldunnar og á heimili Gades var Jónasi vel tekið. Gade og Jónas urðu góðir vinir og mátti oft sjá þá saman á götu borgarinnar, tónskáldið heimsfræga og járnsmiðinn frá Reykjavík.

Aðalumsjón með námi Jónasar höfðu hin frægu tónskáld Gade og Hartmann, sem fengu mætur á honum og hans brennandi áhuga. Þeir höfðu Jónas hjá sér á orgelloftinu við guðsþjónustur oft og endranær. Þeir útveguðu Jónasi kennara úr hópi færustu tónlistarmanna Dana, meðal Þeirra er J.Chr. Gebauer, prófessor og organisti við Heilagsandakirkju og tónfræðikennari við Tónlistarskólann, Viggo Sanne, organisti við Frúarkirkju og eftirmaður Bergreens sem söngmálastjóri skólanna. Allir kennarar Jónasar virtu hann mikils og sýnir það bezt traust þeirra á honum, að hann mun hafa átt kost á því að komast að fastri stöðu í Kaupmannahöfn nokkrum árum eftir að hann var kominn hingað heim aftur, en hann kaus heldur að verja kröftum sínum í þjónustu ættjarðarinnar.

Í bók um tónskáldið Gade er minnst á Jónas og sagt, að hann hafi samið „rigtig könne Melodier, som var meget yndede deroppe.“

Árið 1876 varð Jónas kennari í söng við barnaskólann og kvennaskólann í Reykjavík, og haustið eftir, 1877, er Pétur Guðjohnsen var fallinn frá, varð hann organisti við dómkirkjuna. Gegndi Jónas öllum þessum störfum til dauðadags með dæmafárri alúð og samvizkusemi. Sem dæmi þess, hve fast Jónas sótti söngkennslu, má geta þess, að hann kenndi um fjölda mörg ár söng í barnaskóla Seltirninga; „gekk hann þá fram að Mýrarhúsum tvisvar í viku allan veturinn, hvernig sem viðraði, meðan hann var með, nokkru móti fær um það, en reið fram eftir, eftir það; var það eigi lítið lagt á sig af jafn holdugum og þungum manni, sem hann var, og sízt fyrir gjaldinu að gangast“ (Ísafold, 12. sept. 1903).

Jónas var 23 ára gamall, þegar hann gerðist söngstjóri Hörpu. En fyrst eftir nám í Kaupmannahöfn snýr hann sér fyrir alvöru að tónlistinni og gerir hana að meginstarfi sínu eftir það. Hann er orðinn 37 ára, er hann verður söngkennari við áðurnefnda skóla, og ári síðar verður hann dómkirkjuorganisti. Hann á þá ólifað í 37 ár og á þeim tíma vinnur hann hið mikla verk, að leggja grundvöllinn að þeim söng, sem síðan varð uppistaðan í alþýðusöng þjóðarinnar fram á þennan dag. Þetta verk vann hann með sönglagaútgáfum og kennslustarfi sínu.

Jónas gaf út hvert sönglagasafnið á fætur öðru: Söngvar og kvæði I – VI hefti 1877-1888. Sálmalag með þremur röddum, I, og II, hefti, 1878-1880. Leiðarvísir um notkun á raddfærum mannsins 1883. Ennfremur Söngkennslubækur fyrir byrjendur I – X hefti, 1882-1901. Margar útgáfurnar af söngkennslubókunum hafa verið prentaðar oftar en einu sinni. Við sönglagaútgáfurnar var Jónas studdur af ráðum og dáðum skáldsins Steingríms Thorsteinsson. Verk þeirra samherjanna átti ekki svo lítinn þátt í að móta hugsanalíf æskunnar í landinu og skapa þá menningu, sem þjóðin bjó að lengi síðan.

Hvað kirkjusönginn snertir, þá gaf Jónas út fjórraddaða Kirkjusöngsbók 1885 og viðbætir við hana 1889. Ég ætla ekki að vera margorður um þetta mál, því að þyngra er á metunum það sem Sigfús Einarsson segir í formála að 2. útgáfu. Kirkjusöngsbókarinnar. Hann segir þar um Jónas: „Hann lagði grundvöllinn og vann mest og bezt í þarfir kirkjusöngsins hér á landi.“

Dómkirkjuorganistanum bar skylda til að kenna ókeypis organistaefnum, sem þess óskuðu, að leika á harmoníum, gegn 1000 kr. árslaunum úr ríkissjóði. Þegar Jónas féll frá höfðu allir organleikarar á landinu notið kennslu hans. Jónas studdi að því, að harmonium voru fengin í kirkjur víðsvegar um landið og sjálfur kenndi hann mörgum öðrum en organistaefnum að leika á það hljóðfæri. Þetta hljóðfæri varð brátt útbreitt um byggðir landsins og hentaði betur en píanó, sem voru miklu dýrari, og fáir kunnu að stilla þau, nema í stærri kaupstöðum.

Jónas sýndi alúð og samvizkusemi við kennsluna. Árni Thorsteinson var einn af lærisveinum hans í barnaskóla Reykjavíkur og lýsir hann Jónasi sem söngkennara þannig: „Ég minnist með þakklæti góðrar tilsagnar hans, sem gerði okkur börnunum söngkennslutímana að ánægiustundum. Jónas kunni að beita hvort heldur var gamni eða alvöru og kunni góð skil á hugsunarhætti og skapferli hinna ungu nemenda sinna. Lét hann margt skemmtilegt fjúka í tímunum, sem okkur var minnisstætt. Hann stjórnaði með alvöru og festu, bæði ungum og gömlum.“

Eins og við er að búast hefur margt verið með byrjendabrag á þessu fyrsta skeiði vakningar í sönglífi okkar. Þótt bæjarbúar hafi hlýtt á þá sönglist glaðir og ánægðir af því þeir þekktu ekkert betra, þá vil ég hér minna á það, að allt fram undir 1930 gátu ólærðir og lítt lærðir menn í listinni látið til sín heyra í söngsölum höfuðstaðarins við góðar viðtökur. En úr því lýkur tímabili viðvaningsbragarins og hafa síðan verið gerðar strangar kröfur, eins og í stórborgum erlendis. En hér verður að gera undantekningu með karlakórssönginn, sem varð snemma góður hjá okkur. Á yngri árum mínum heyrði ég gamla menn, sem höfðu gott vit á söng, fullyrða, að í kórum á öldinni sem leið hafi verið góðir söngmenn, bæði hvað snertir fegurð og fylling hljóðanna. Þetta kemur heim við það, sem Árni Thorsteinson segir í söngsögu sinni. Hann. telur upp söngmenn í kórum og má lesa milli línanna, að honum hefur fundist mikið til þeirra koma. Hann segir m. a.: „Allir þessir menn, sem hér hafa verið taldir, voru fyrirtaks raddmenn, t.d. Jón Guðmundsson frá Hól. Rödd hans er einhver mesta bassarödd, sem hér hefur þekkst. Söng hann oft í dómkirkjunni við messu uppi við orgelið, og titruðu bekkirnir undir fólkinu, Þegar hann fór að beita sér nokkuð – svo mikið var hljómmagnið.“ Jón frá Hól er bróðir Þórðar, sem er faðir hins kunna söngmanns Símonar Þórðarsonar, sem jafnan var kenndur við Hól. Símon hafði mikla rödd og svo víðfeðma, að hann gat jafnt sungið bassa sem tenór í kórum. Hann er faðir söngkonunnar Guðrúnar Símonar.

Eins og áður er sagt, er söngfélagið Harpa stofnað 1862 og starfaði um 30 ár undir stjórn Jónasar Helgasonar og lengi var þetta eini karlakórinn í bænum. Reykjavíkurblöðin á þessum tíma leggja engan dóm á sönginn, en telja stundum upp helztu lögin, sem sungin voru. En við höfum gagnmerka lýsingu útlendings á söng Hörpu á þjóðhátíðinni 1874 og er hún eftir hið nafnkunna skáld og rithöfund Bayard Taylor, sem stórblaðið New York Tribune sendi hingað til að skrifa fréttir af hátíðinni, eins og áður hefur verið getið um. („Íslandsbréf 1874“) . Hann lýsir hátíðarhöldunum á Öskjuhlíð og segir: „Loks þegar konungurinn var kominn alla leið gegnum raðir af faststarandi og feimnum áhorfendum, hófst söngurinn. Á Íslandi skeður ekkert án söngs, og hann er enn sem komið er sá þáttur hátíðarhaldanna, sem hefir vakið mesta hrifningu.“ Síðan lýsir rithöfundurinn ræðuhöldunum og segir: „og síðan tóku enn aðrir (þ.e. ræðumenn) við, en hinn afbragðsgóði reykvíski karlakór skemmti mönnum inni á milli ræðuhaldanna með þjóðlegum söngvum.“

Í kaflanum um þjóðhátíðina á Þingvöllum segir rithöfundurinn: „Úti fyrir dyrum tjaldbúðarinnar (þ.e. konungsins) beið söngkórinn, og veittist mönnum að heyra nýtt söngljóð, Minni konungs á Þingvelli, ort af Matthíasi Jochumssyni við svipmikið danskt þjóðlag (Kong Christian lægger ned sit Sværd). Kórinn söng það afburðavel og áheyrendur hlustuðu hljóðir og djúpt snortnir.“ Þess skal getið, að lagið við „Þingvallaminni konungs“ („Stíg heilum fæti á helgan völl“), sem sungið var, er eftir Bergreen.

Jónas samdi fáein sönglög og eru þessi þjóðkunn: „Þar fossinn í gljúfranna fellur þröng“, „Við hafið ég sat“, „Sólu særinn skýlir“, „Lýsti sól, stjörnustól“ og „Nú vakna ég alhress“. Lögin eru fleiri eftir hann, en þessi eru mest sungin. Framantalin lög eru öll samin við texta eftir Steingrím Thorsteinsson, nema eitt, „Lýsti sól“, en sá texti er eftir Matthías. Lögin eru ekki mörg, en þau hafa í sér þann lífskraft, sem hefur dugað -, því þjóðin syngur þessi lög enn í dag. Eitt þeirra að minnsta kosti, „Sólu særinn skýlir“ hefur verið tekið í norskar söngbækur.

Á þjóðhátíðinni 1874 sæmdi konungur Jónas heiðurspeningi úr gulli. Árið 1896 var hann sæmdur heiðursmerki dannebrogsmanna. Jónas Helgason dó úr hjartaslagi 2, september 1903, 64 ára að aldri.

Dómur samtíðarmanna hans um hann er á einn veg. Blaðið „Ísafold“ segir um hann látinn: „Jónas Helgason var tryggur maður og vinfastur, „þéttur á velli og þéttur í lund“, hann hélt sitt strik, hvað sem aðrir sögðu, enda hafði hann sjálfur rutt sér braut og náð sínu takmarki að útbreiða og efla söngþekkingu og sönglist á ættjörðu sinni.“ „Sunnanfari“ segir: „Margt hefur orðið til að tálma framkvæmdum hans og áformi, en hann hefurunnið frægan sigur á því öllu með kjarki og staðfestu“. „Fjallkonan“ segir: „Sönglistinni helgaði hann alla krafta sína; hann bæði vann mikið í hennar þarfir, enda kom hann miklu áleiðis“. Og „Þjóðólfur“ segir: „Og ekki er það ofsagt, að á síðari árum hefur enginn unnið meira að því að útbreiða sönglist og söngþekkingu en hann“.

Sönglög Jónasar eru lítil og lagleg, og satt er það, að afköstin voru ekki mikil í sönglagasmíði, en staðreynd er það, að nokkur laganna lifa og eru sungin í landinu enn í dag eftir næstu öld. Hér á við að minna á latneska talsháttinn: gualitas, sed non guantitas; það eru gæðin, en ekki magnið, sem skiptir máli. Ekki vitum við, hve mörg afsönglögum samtíðartónskálda okkar verða sungin af alþýðu manna eftir 100 ár, en þau lög, sem þá lifa, hafa sannað lífskraft sinn, því hér er þjóðin sjálf dómarinn.

Við, sem nú lifum, getum tekið undir það, sem sagt var um brautryðjandastarf Jónasar í minningargreinunum um hann látinn. Í okkar augum er hann brautryðjandinn, sem með sönglagaheftunum og lífsstarfi sínu lagði þann grundvöll, sem þjóðlegt sönglíf í landinu hefur lengi hvílt á og hvílir að miklu leyti enn.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is