Jón Leifs 1899-1968

Í viðtalsgrein við Jón Leifs sextugan í Morgunblaðinu segir hann: „Þegar ég var ungur, vildi ég verða dirigent og píanóisti eins og Liszt, já ég hafði stór plön og sat oft lengi og hugsaði um, hverning ég ætti að sigra heiminn. En að semja tónlist – nei, það var ekki þorandi. Það var of stórkostlegt. Það krafðist svo mikils heiðarleika. Það krafðist þess, að maður lifði upp reynslu mannkynsins á nýjan hátt. Það krafðist alls. Svo átti ég í sálarstríði mánuðum saman, áður en ég samdi mitt fyrsta tónverk. Gat ég bætt einhverju nýju við? Gat ég slegið nýjan tón? Þetta voru ögrandi spurningar, sem lögðust á mig eins og farg. Sá sem ekki gæti bætt einhverju nýju við hefði ekki leyfi til að fara inn á þá braut. Svo sagði ég við sjálfan mig, þegar ég átti í mesta sálarstríðinu, aðeins tvítugur að aldri: – Já, nú skaltu semja eitt verk. Það getur verið prófsteinn. Og þá fór ég að leita og reyna að svara þeirri áleitnu spurningu, hvort við Íslendingar ættum ekki eitthvert efni eins og aðrar þjóðir, sem  mætti endurnýja og vinna úr nýja tónlist, einhvern neista, sem gæti tendrað það stóra bál. Þá opnaðist fyrir mér heimur þjóðlaganna og ég þóttist kominn í tæri við lögmálin. Safn Bjarna Þorsteinssonar vísaði veginn.“

Jón Leifs ritaði grein í Skírni 1922 um íslenzkt tóneðli, og bendir þar ljóslega á höfuðeinkenni þjóðlaganna, á hvern hátt þau séu frábrugðin Evrópusöng síðustu alda, og hafi önnur einkenni, bæði hvað snertir tóntegundir, fallanda o, fl. Í þessari grein heldur Jón Leifs því fram, að það, sem er sérkennilegt í íslenzkum þjóðlögum, sé ímynd þjóðareðlisins, sem birtist þar í tónlist, þannig að hið sérkennilega sé ekki sprottið af því einu, að landsbúar fóru varhluta af erlendri tónlistarþróun, eins og almennt er talið, sérkennileikinn sé ekki leifar af frumstæðu stigi, sem erlendar menningarþjóðir séu fyrir löngu vaxnar frá, – heldur sé hann frumleg sköpun þjóðarinnar.

Þessi skoðun Jón Leifs er þó ekki að öllu leyti frumleg, því að prófessor Angul Hammerich, sem mest hefur rannsakað íslenzk þjóðlög, einkum þau, sem finnast í söfnum í Kaupmannahöfn, hafði áður sagt, að full ástæða væri til að breyta nafni á lydisku tóntegundinni, sem algengust er í íslenzkum þjóðlögum, og kalla hana hina íslenzku tóntegund. Að vísu sagði prófessorinn þetta bæði í gamni og alvöru, en í þessum orðum hans felst sá grunur, að þessi tóntegund sé skilgetið afkvæmi þjóðarinnar. (Sjá Bjarni Þorsteinsson: „Íslenzk Þjóðlög“, Kbhvn. 1906-1908, bls.8).

Jón Leifs segir ennfremur í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein: „Ég minntist á þjóðlögin áðan. Einar Benediktsson hafði mikla trú á þeim, ekki síður en ég. Við hittumst í Berlín veturinn 1924-25. Hann trúði mér fyrir því, að rímnakveðskapurinn og þjóðlögin yrðu undirstaða íslenzkrar tónlistar.“

Þessi skoðun þeirra Jóns Leifs og Einars Benediktssonar voru þó engin ný sannindi. Eftir að Grieg, Chopin og önnur þjóðleg tónskáld höfðu lifað og starfað, var það viðurkennt af öllum, að þjóðleg tónlist yrði ekki reist nema á þjóðlegum grundvelli, það er að segja, á þjóðlögum og anda þeirra. Hitt er annað mál, hvernig hvert tónskáld fer að því. Jón Leifs fór sína leið og skapaði sinn eigin stíl, sem er sérkennilegur fyrir hann.

Haustið 1925 kynnti Jón Leifs völdum hóp áheyrenda á heimili Einars Benediktssonar í Reykjavík fyrstu tónsmíðar sínar. Þar voru leikin 25 íslenzk þjóðlög – tvísöngs- og rímnalög – í sérkennilegum píanóbúningi, sniðnum við eðli þeirra. Flest eru lögin tekin úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar, en raddsetningin og stíllinn var eign Jóns. Þessi þjóðlög voru gefin út í Berlín 1928. Síðan voru þjóðlögin útsett fyrir hljómsveit og oft leikin í Ríkisútvarpið. Þau eru fyrir löngu orðin þjóðkunn að verðleikum.

Á þessum hljómleikum á heimili skáldsins voru ennfremur leikin fleiri lög eftir tónskáldið, þar á meðal forleikurinn „Minni Íslands“, sem er samin um nokkur íslenzk tvísöngs- og rímnastef. Þar á meðal lagið „Ísland farsælda Frón.“ Þau hjónin, Annie og Jón Leifs, léku þessi lög á hljómleikum í Nýja Bíó síðar um haustið, en þá lék frúin einnig erlend lög. Hún er ágætur píanóleikari.

Þessi lög, sem nú hafa verið talin, eiga vitanlega að miklu leyti gildi sitt að þakka þjóðlögunum, sem er uppistaðan í þeim, en engu að síður hefur Jón Leifs markað spor í íslenzka tónlist með frumlegri raddsetningu, sem er mjög í anda þjóðlaganna.

Jón Leifs er fæddur 1. maí 1899 að Sólheimum í Húnavatnssýslu. Foreldrar hans eru Þorleifur Jónsson, póstmeistari í Reykjavík, og kona hans Ragnheiður, dóttir Bjarna Þórðarsonar á Reykhólum. Jón lauk 4. bekkjarprófi í Menntaskólanum um vorið 1916 og sigldi um haustið til Þýzkalands til náms í Tónlistarskólanum í Leipzig. Kennarar hans voru Teichmüller, Scherchen, Graener, Szendrei o, fl. Hann var í skólanum í sex ár í (1916-1922). Áður en hann fór utan hafði hann lært að leika á píanó hjá Herdísi Matthíasdóttur. Hann var eftir það búsettur í Þýzkalandi meira og minna í nær 30 ár. Hann kom heim til Íslands um vorið 1945 með Esju, sem var fyrsta skipið, sem losnaði þaðan í lok heimsstyrjaldarinnar. Eftir það var Jón Leifs búsettur í Reykjavík til æviloka. Hann andaðist hér í Reykjavík 30. júlí 1968 eftir langa og þunga sjúkdómslegu.

Jón Leifs lagði fyrst mest kapp á píanónámið, en er frá leið , lagði hann meiri rækt við að læra hljómsveitarstjórn. Engar sögur fara af honum sem píanóleikara utan þess, að hann lék opinberlega í Bárunni í Reykjavík með Annie, konu sinni, píanókonserta eftir Bach og Mozart, í ágústmánuði árið 1921. Aftur kom hann fram með konu sinni á tónleikum í Nýja Bíó í október 1925. Þá voru leikin verk eftir Chopin, Paul Graener (kennara Jóns) og Jón Leifs. Á þessa tónleika hefur verið minnst hér að framan.

Hljómsveitum hefur Jón Leifs stjórnað hingað og þangað í Þýzkalandi og víðar á meginlandi Evrópu. Reykvíkingar fengu að kynnast honum sem hljómsveitarstjóra, þegar hann kom hingað með Hamborgar filharmonisku hljómsveitina í júnímánuði árið 1926. Þetta var ein hin frægasta hljómsveit í Evrópu. Hljómsveitin var skipuð um 40 manns, en fullskipuð er hún um 80 manns og þar yfir, þegar stór verk krefjast þess. Hljómsveitin lék átta sinnum í Iðnó og fimm sinnum í dómkirkjunni, allt klassískar tónsmíðar. Eftir Jón Leifs lék hljómsveitin Minodrama og sorgargöngulag úr „Galdra Lofti“ og forleikinn „Minni Íslands“. Jón stjórnaði hljómsveitinni á öllum tónleikunum. Þetta var stórmerkur viðburður í músíklífi Reykjavíkur og lengi í minnum hafður.

Jón Leifs var í eðli sínu fræðimaður, þótt hann sinnti því lítið, og ritfær í bezta lagi. Hann ritaði talsvert um tónlist í þýzk blöð og hér heima ritaði hann greinar í blöð og tímarit. Áður hefur verið minnst á grein hans í Skírni 1922 um íslenzkt tóneðli. Grein þessi kom einnig út sérprentuð. Þá kom út sama ár eftir hann bæklingurinn „Tónlistarhættir“, fyrra hefti, Leipzig 1922. (Síðara heftið kom aldrei út). Bæklingurinn er aðeins 28 bls. en efnið er mikið. Þetta kver var þarft og þakkarvert, því að um þessi fræði hafði lítið eða ekkert verið ritað á íslenzka tungu. Ennfremur hefur hann ritað „Islands künstlerische Anregung“, bók um 100 bls. (Rvík. 1951), rituð á þýska tungu og prentuð á kostnað Landsútgáfunnar. Tekið er fram á titilblaðinu, að bókin sé listræn trúarjátning höfundarins. Ísland er hugsjón hans og hann trúir á mátt norræns anda í þróun evrópiskrar menningar.

Næst er að ræða um tónskáldið og tónsmíðarnar. Í upphafi þessa máls er sagt frá því, að Jón Leifs hafi spurt sjálfan sig, áður en hann réð það við sig að gerast tónskáld: „Gat ég bætt einhverju nýju við? Gat ég slegið nýjan tón?“ Hann áræddi að reyna. Tónsmíðar hans eru tilraunir til að skapa íslenzkan tónlistarstíl, sem háður er sínum lögum og með sín sérkenni, og gegnsýrður er af anda þjóðlaganna. Honum hefur tekist Þetta. Stíll hans er sjálfstæður, persónulega mótaður og algerlega séreign hans.

Tónsmíðum Jóns Leifs má skipta í tvo flokka. Annarsvegar eru íslenzk þjóðlög raddsett og stílfærð af honum og hinsvegar frumsamdar tónsmíðar. Um íslenzku rímna og tvísöngslögin í raddsetningu hans hefur áður verið talað. Þetta eru vinsælustu lögin og hafa verið mikið sungin af karlakórum okkar.

Frumsamdar tónsmíðar hans eru sumar stórar í sniðum og tímafrekar í flutningi, ef fluttar eru í heild, eins og sögusinfónían. Inn í sumar fellir hann íslenzk þjóðlög. Hér á eftir eru talin upp helztu verkin „Þríþætt hljómkviða fyrir stóra hljómsveit“ Op.1, „Músík við „Galdra-Loft“ Jóhanns Sigurjónssonar, Op. 6“, „Hljómleikur fyrir organ og hljómsveit, Op.7“, „Tilbrigði um Beethovenstema fyrir hljómsveit, Op. 9“, „Minni Íslands“, hljómsveitarforleikur, Op.9“, „Íslandskantata “ („Þjóðhvöt“) við kvæði Davíðs Stefánssonar, fyrir blandaðan kór og hljómsveit, Op, 13“, „Edda-oratorium“ fyrir blandaðan kór og hljómsveit, Op,20“, „Sögusinfónían“, „strokkvartett op, 21 („Mors et vita“), „Landsýn, op. 41 (hljómsveitarverk), „Hinzta kveðja“ fyrir strokhljómsveit, „Kyrie, op. 5, fyrir blandaðan kór með organforleik“, „Requiem“ (kórverk) . Ennfremur áðurnefnd „25 íslenzk Þjóðlög“,„Rímnadanslög“ og ýms smærri verk, eins og píanólög og sönglög, þar á meðal sálmalög.

Nokkrar af hinum stóru tónsmíðum Jóns Leifs hafa verið flutt í kornsertsal og útvarpi hér í Reykjavík, þó ekki nema kaflar úr sumum, en aðrar aldrei. Meðan stór hluti af tónsmíðum hans er með öllu óþekktur þjóðinni, og önnur hafa ekki verið flutt nægilega oft til að menn fái af þeim náin kynni, er ekki unnt að leggja hlutlægt heildarmat á höfundinn sem tónskáld. Þeir sem ritað hafa um tónlist hans eru sammála um það, að stíll hans sé sjálfstæður og sérkennilegur. Einn segir, að hann sé „postuli hins þjóðlega í íslenzkri tónsköpun“. Annar segir, að tónsmíðar hans séu „djörf tilraun til nýsköpunar“. Tónlistargagnrýnendur hafa lokið lofi á tónlistina við „Galdra-Loft“, sérstaklega á sorgargöngulagið og raddsetninguna á „Allt eins og blómstrið eina“. Jafnframt hefur verið bent á, að músíkin sé algerlega háð textanum og raunar óhugsandi án hans. Um kantötuna „Þjóðhvöt“ segir einn gagnrýnandinn: „Þetta er allmikið tónverk, frumlegt að stefjagerð og hljóðfalli, mergjað á köflum, sterkt og bragðmikið.“ (Þjóðviljinn 5/5 1959) Um sama verk segir Páll Ísólfsson, að það sé „veigamikið á köflum.“(Morgunblaðið í maí 1959).

„Sögusínfónían“ er eitt mesta stórvirki, sem íslenzkt tónskáld hefur ráðist í. Hún heitir öðru nafni Sinfónía nr. 1 „Söguhetjur“. Auk venjulegra hljóðfæra notar höf. átta bronslúðra, sleggjur, blágrýti og fleiri furðuleg tæki, til að ná tilætluðum áhrifum. Þetta þótti nýstárleg músík í Helsinki, þegar sinfónían var frumflutt þar á norrænu tónlistarmóti. Einn tónlistargagnrýnandinn sagði, að þetta væri engu líkara en tónlist frá annari plánetu!

Jón Þórarinsson tónskáld ritaði grein í Morgunblaðið 11, marz 1962, sem hann nefnir: „Íslenzk tónlist á krossgötum.“ Hann ræðir þar meðal annars um „sögusinfóníuna“, sem hann segir að sé „program-músík“, enda hafði höfundurinn flutt ýtarlegar skýringar á sögulegu efni verksins í sambandi við flutning þess í Ríkisútvarpinu nokkru áður. Síðan skyggnist Jón Þórarinsson inn í verkstæði tónskáldsins og athugar vinnubrögðin. Hann segir: „Þær aðferðir og stílbrögð, sem beitt er í þessu verki, eru vel kunn úr öðrum verkum tónskáldsins. Sjaldnast verður vart verulegrar músíkalskrar spennu, hvorki í línum, hljómsetningu né hrynjandi. Hugmyndirnar eru fábreyttar og meðferð þeirra jafnan sviplík. Þau margvíslegu blæbrigði, sem stór hljómsveit ræður yfir, eru lítt notfærð, og meðferð hljómsveitarinnar er lengst af furðu einstrengisleg og þunglamaleg.  Langar tónaraðir, oft á mörkum tónsviðsins, mjakast fram í samgengu hljóðfalli, án þess þó að hreyfast í rauninni úr stað. Lífræn gagnröddun er jafn sjaldgæf og eftirminnileg stef. Helzta tilbreytingin eru „þverstæðir“ hljómar, sem stundum falla eins og axarhögg, en eru stundum teygðir, þar til þeir enda í einskonar sprengingu, sem helzt minnir á hnerra. Stefjaúrvinnla kemur varla fyrir. Formið sem vafalaust mótast af bókmenntalegu „efni“ verksins, verður óskiljanlegt sem tónlistarform.

Sum þau einkenni, sem hér hafa verið nefnd, hafa sett sérstæðan svip á ýms smærri verk tónskáldsins og þar ekki komið að sök. Nokkur þeirra eiga vafalaust eftir að verða langlíf í landinu. En í stóru verki eins og því, sem hér um ræðir, duga ekki svo frumstæðar aðferðir til að halda vakandi áhuga hlustandans. Og hverju orkar sú ræða, þótt vel sé meint, sem ekki er hlýtt á með athygli?“

Það er ekki nýtt, að frumleg tónskáld sæti gagnrýni fyrst í stað. Framangreind gagnrýni er athyglisverð, því að hún er fagleg lýsing á stílbrögðum tónskáldsins í stóru verki. Gagnrýnandinn telur þau til lýta, en tekur fram, að þótt þau hafi sett svip á smærri verk tónskáldsins, þá hafi þau ekki komið þar að sök.

Í grein eftir Björn Franzson, tónlistargagnrýnanda Þjóðviljans, um Jón Leifs sextugan, segir meðal annars svo:
Mun það sannast að segja, að þau íslensk tónskáld muni ekki ýkjamörg nú á lífi, er ekki hafi orðið fyrir einhvers konar áhrifum af þeirri stefnu, er hann tók að boða hér á landi fyrstur manna á þriðja tug þessarar aldar. Ekki svo að skilja, að önnur íslenzk tónskáld hafi ástundað að stæla Jón Leifs, enda væri það ekki æskilegt. Tónlistarstíll Jóns er hans séreign og hentar varla öðrum. Þessi tónlistarstíll endurspeglar hans persónulega skilning á íslenzku tónlistareðli. Sá skilningur kann að vera góður og gildur, það sem hann nær, en hann túlkar þó ekki alla þætti þessa tónlistareðlis. Önnur tónskáld geta lagt rækt við aðra þætti þess og verið eigi síður íslenzk. Hinn íslenzki tónn, sem svo mætti nefna, er nógu víðfeðmur til að veita þjóðlegri tónsköpun allt það svigrúm, er hún þarfnast. Þetta mun eiga eftir að sannast ennþá betur en þegar er orðið. Þó er svo komið, að andi þjóðlagsins er óneitanlega orðinn grundvallarstaðreynd í íslenzkri tónsköpun. Þetta er fagnaðarverður ávöxtur þróunar, sem engum einum manni er fremur að þakka en Jóni Leifs, síðan Bjarni Þorsteinsson vann sitt brautryðjandastarf.
Jón Leifa var brautryðjandi og baráttumaður í málefnum listamanna. Að Bandalagi íslenzkra listamanna átti hann upptökin og fylgdi þeirri hugsjón eftir með oddi og egg. Hann var aðalhvatamaður að stofnun STEFS, forstjóri þess frá upphafi og formaður lengst af. Félagið var stofnað í ársbyrjun 1948, en megintilgangur þess var að gæta hagsmuna tónskálda og annara eigenda flutningsréttar í hvívetna. „Baráttan fyrir viðurkenningu höfundarréttarins var í upphafi eindæma hörð og óvægin og var Jón Leifs þá jafnan í fararbroddi af hálfu tónskálda, bæði til sóknar og varnar. Hann var að eðlisfari sókndjarfur og vígreifur baráttumaður og undi sér vel í orrahríðinni, þótt oft væri hart að honum sótt“, segir Sigurður Reynir Pétursson, hæstaréttarlögmaður, í kveðjugrein frá Stefi við andlát Jóns Leifs. Árangurinn af starfi Stefs hefur orðið mikill og er viðhorf manna hér á landi til höfundaréttar og annara atvinnuréttinda listamanna allt annað en áður var, þegar höfundaréttur var hér lítt í heiðri hafður. Þannig að stappaði nálægt algeru réttleysi höfunda. Ennfremur segir Sigurður Reynir Pétursson í sömu grein, en hann var önnur hönd Jóns Leifs í baráttunni: „Oflof væri að segja að það sem áunnist hefur á þessum vettvangi sé allt verk Jóns Leifs. Hitt er sannmæli, að þar á hann stærri hlut að og hefur unnið meira og betur að framgangi mála en nokkur annars einstakur maður“.

Jóa Leifs var sérkennilegur maður, sem fór ekki troðnar slóðir. Hann var djarfur baráttumaður, óbilgjarn fyrir hönd hugsjóna sinna um leið og hann var veizluglaður og höfðingi heim að sækja. Hann átti aðdáendur, en einnig andstæðinga, sem ekki gátu fellt sig við list hans.

Jón Leifs var þríkvæntur. Fyrsta konan var Annie Riethof frá Tepliz í Bæheimi, dóttir auðugs verksmiðjueigenda. Jón kynntist henni í Leipzig, þegar þau voru bæði þar við nám í Tónlistarskólanum. Páll Ísólfsson minnist á hana í bókinni „Í dag skein sól“ og segir: „Hún var áreiðanlega einhver bezti nemandi Teichmüllers“. Þau slitu samvistum. Frú Annie Leifs hélt píanótónleika í Reykjavík á sínum yngri árum og var gerður góður rómur að. Hún hefur lengi búið í Reykjavík og kennt píanóleik. Miðkonan var sænsk, Thea Duzina að nafni. Þau slitu samvistum eftir stutta sambúð. Þriðja konan er Þorbjörg Möller, dóttir Jóhanns Möllers, sem lengi var kaupmaður á Sauðárkrók. Hún lifir mann sinn.

Að lokum skal þess getið, að Jón Leifs var tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins á árunum 1935-1937, en hvarf frá því starfi eftir árekstra við útvarpsstjóra og útvarpsráð.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is