Jón Halldórsson

Jón Halldórsson söngstjóri er fæddur 2. nóv. 1889 í Reykjavík, sonur Halldórs Jónssonar, bankagjaldkera, og konu hans Kristjönu, dóttur Péturs Guðjohnsen organista. Jón söngstjóri og Emil Thoroddsen tónskáld eru systrasynir. Í greininni um Emil Thoroddsen hér að framan er minnst á það, að niðjar Péturs Guðjohnsens sækja einnig músíkgáfuna í Knudsenættina, en Guðrún kona Péturs, var dóttir Lars Michaels Knudsen, kaupmanns í Reykjavík (sjá þar).

Jón Halldórsson var söngstjóri „Fóstbræðra“ frá upphafi og í samfleytt 34 ár. Hann hafði úthald og þann eiginleika, að geta haldið við áhuganum, svo kórinn lognaðist ekki útaf, en þennan eiginleika hafa ekki allir, þótt þeir annars séu búnir góðum söngstjórnarhæfileikum. Jón Halldórsson var vinur söngmanna sinna, undi sér vel í þeirra hóp og var vel virtur af þeim. Hann var og búinn þeim kostum, sem prýða góðan söngstjóra, meðfædda músíkgáfu, nákvæma hljóðfallskennd, öryggi og smekkvísi í efnismeðferð og vandvirknin lýsti sér í hverju lagi. Þau lög, sem voru sérstaklega eftir höfði hans og hjarta, sungust þannig, að á þeim var hvorki blettur né hrukka og var söngurinn meðgóðum listrænum tilþrifum.

Tónlistarstörfin vann hann í tómstundum, en borgarleg störf hans voru þessi: fyrsti bankaritari í Landsbankanum, síðan landsféhirðir (1917-32) og eftir það skrifstofustjóri Landsbankans, þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Karlakórinn „Fóstbræður“ söng í fyrsta sinn undir stjórn Jóns Þórarinssonar tónskálds í Gamla Bíó í desember 1950, en hann tók við söngstjórn af Jóni Halldórssyni, eins og áður er sagt.

Carl Billich píanóleikari hefur verið undirleikari kórsins frá 1947, en þar áður Gunnar Möller og Anna Pjéturss.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is