Íslensk tónskáldakvöld

Ennfremur skal þess getið, að í Gamla Bíó 18. apríl 1940 var haldið tónsmíðakvöld Karls O. Runólfssonar. Sungin voru lög eftir tónskáldið. „Kátir félagar“ sungu undir stjórn hljómsveitarstjórans dr. Victors Urbancic. Frú Guðrún Ágústsdóttir og Sigurður Markan sungu einsöng. Sama ár var haldinn konsert í Gamla Bíó með íslenzkum verkum. Aðalviðburðurinn voru tvö ný hljómsveitarverk: „Íslenzk svíta“ eftir Árna Björnsson og svítan „Á krossgötum“ eftir Karl 0. Runólfsson. Hljómsveit Reykjavíkur lék undir stjórn dr. Victors Urbancic.

Hallgrímur Helgason hélt tónsmíðakvöld með eigin verkum í Gamla Bíó 18. janúar 1940. Emil Thoroddsen ritaði um tónleikana í Morgunblaðið og segir meðal annars:
Það leyndi sér ekki, að hér er á ferðinni maður, sem vinnur markvíst að tónlistinni og hefur auk þess talsvert meiri kunnáttu til að bera en títt er um íslenzk tónskáld yfirleitt. Hann er auðsjáanlega ekki hræddur við að færast mikið í fang, og setja sér fyrir erfið polyfónverkefni. Og það má segja, að hin stærri viðfangsefni hans séu að forminu mjög vel af hendi leyst.
Árni Thorsteinsson ritaði einnig um tónleikana og sagði, að „Íslenzkur dans“ hafi verið frumlegur og; með nýtízku sniði, en „Íslenzk svíta“ hafi verið perla tónleikanna.

Hallgrímur, sem var þá ungur maður, (fæddur 1914), lék á tónleikunum píanósónötu sína, sem áður er minnst á. Sónatan hefur síðan verið gefin út sem Opus 1. Er hún gott verk æskumanns.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is