Lúterski kirkjusöngurinn

Við siðaskiptin varð ekki teljandi breyting á helgisiðum og kirkjusöng. Lúther dáði gregorianska sönginn og þótt hann þýddi litúrgíska texta á þýzka tungu, þá var hann sjálfur því mjög hlynntur, að guðsþjónustan færi fram á latínu. Hann  átti sjálfur þátt í að velja músíkina við evangelísku litúrgíuna og hafði sér til aðstoðar tvo tónlistarmenn, þá Conrad Rupff og Joh. Walther. Í „Formula missae“ (1523) hélt hann latínunni, en í „Deutsche Messe“ (1526) hafði hann aftur á móti ordinaríumþættina (nema Kyríuna) á þýzku; textarnir voru umsamdir. Í staðinn fyrir properíumþættina hafði Lúther sálma á móðurmálinu,  orti sjálfur marga, og hvatti aðra til að yrkja.

En samt var Lúther því hlynntur, að guðsþjónustan færi fram á latínu og lagði mikla áherzlu á góðan kirkjusöng. Hann vildi hafa skólaðan kirkjukór, sem væri þeim vanda vaxinn að geta sungið pólífónísk kirkjulög, eins og verið hafði í kaþólsku kirkjunni. Þess vegna vildi hann efla latínuskólana, sem lögðu til söngkrafta í kirkjukórana.

Söngkennari latínuskólans var kallaður kantór og stjórnaði hann söngnum í höfuðkirkjunni, en öðrum kennurum skólans var skylt að stjórna söngnum í öðrum kirkjum borgarinnar undir handleiðslu kantorsins. Lærisveinarnir fengu söngmenntun í skólanum og sungu þeir endurgjaldslaust í kirkjukórum. Þeim áskotnaðist þó skildingur, þegar þeir sungu í brúðkaupum, við jarðarfarir og önnur slík tækifæri. Enn fremur var það hefðbundinn siður, að þeir færu um göturnar og syngdu fyrir utan húsin; þá var vikið að þeim smágjöfum. Lúther hafði sjálfur á skólaárum sungið þannig með skólabræðrum sínum „panem propter deum.“

Eftir 1600 fer að losna um latnesku textana og latínusöngurinn hverfur að lokum úr lútersku kirkjunni, en var þó sumstaðar lengi viðhafður, einkum á stórhátíðum, í Þýzkalandi allt fram á 18. öld. Það má sjá af formálanum fyrir 6. útgáfu Grallarans (1691), að latínusöngur er þá mjög óvíða viðhafður hér á landi, nema í dómkirkjunum á Hólum og í Skálholti.

Eins og áður er sagt, orti Lúther upp úr latneskum textum litúrgíunnar sálma á þýzku. Ordinariumþættirnir urðu þá þannig: Hið þýzka Credo er sálmurinn „Vér trúum allir á einn guð“. Hið þýzka Sanctus er sálmurinn „Jes ja dem Propheten das geshae“.  Kyrian varð að sálminum „Heiður sé guði himnum á.“ Glorían að sálminum „Dýrð sé guði í upphæðum“, og Agnus de að sálminum „Ó, guðs lamb synda sýkna“.

Safnaðarsöngurinn útrýmdi latínusöngnum úr lútersku kirkjunni. Þótti ekki hafi verið til þess ætlast í fyrstu. Lúther vildi láta söfnuðinn taka þátt í guðsþjónustunni með sálmasöng á móðurmálinu. Þessi safnaðarsöngur var einraddaður, en studdur af kirkjukórnum. Nýir sálmar og ný sálmalög komu nú inn í kirkjusönginn. Þessi elztu sálmalög lútersku kirkjunnar eru venjulega nefnd „hinn lúterski kórall“ eða „hinn prótestantíski kórall“. Þá var fyrst farið að nota orðið „kórall“ um slík sálmalög til safnaðarsöngs.

Lútersku sálmalögin urðu fljótt vinsæl og voru þau sungin um allt landið; þau voru kennd í skólunum og unglingarnir lærðu þau snemma. Andstæðingar Lúthers sögðu, að með þeim hefði hann leitt fleiri sálir í glötun en með ræðum sínum og ritum.

Um það hafa verið skiptar skoðanir, hvort Lúther hafi samið lögin við sálmana, sem hann orti, og hvort hann yfir höfuð að tala hafi samið nokkurt lag sjálfur. Honum hafa verið eignuð yfir 30 sálmalög við texta eftir hann sjálfan, og var svo komið, að menn vildu ekki viðurkenna hann sem höfund nema að laginu: „Vor guð er borg á bjargi traust“. Í kóralbókum okkar stendur nafn hans við þetta lag, en það stendur ekki við lagið „Ofan af himnum boðskap ber“ og önnur sálmalög, sem eru eignuð honum í hinum eldri kóralbókum lútersku kirkjunnar. En á síðustu árum eru menn komnir á þá skoðun, að flest lögin, sem menn þekkja við sálma Lúthers, séu frumsamin lög eftir hann sjálfan, en hin umsamin af honum upp úr eldri lögum og megi eigna honum þessi lög í hinni breyttu mynd. Það voru rannsóknir Þýzka fræðimannsins H. J, Moser, sem hafa leitt þetta í ljós, smbr. rit hans „Die Melodien der Lutherslieder“ (Leipzig 1935).Nánar um þetta má lesa í Aschénhougs Musik Leksikon (Kmhfn, 1958), grein um Martin Lúther eftir Poul Hamburger.

Lúther var lærður í tónlist, en leit ekki á sig sem fagmann, hann var góður söngmaður (bassarödd), lék á lútu og kunni kontrapunkt. Mörg ummæli hans í ritum hans um tónlist bera vott um músíkalskan mann, sem hafði djúpan skilning á tónlist.

Lögin við elztu sálma lútersku kirkjunnar eru af tveimur rótum runnin. Önnur rótin er kórsöngur fornkirkjunnar, og er meginrótin, en hin rótin er þýzk þjóðlög frá 12. – 16, öld, Á fyrri hluta miðaldanna stóð hinn trúarlegi latneski skáldskapur í miklum blóma. Þessir miðaldasálmar voru nær undantekningarlaust lofgerðarsálmar. Ekki mátti nota þá við guðsþjónustur í kirkjum. Þar þótti ekki hlýða að nota annað en sálma úr heilagri ritningu. Þessir lofgerðarsálmar voru ætlaðir klerkum og klaustramönnum til söng við helgar tíðir, helgisöngur flutning helgra dóma til kirkju og við önnur slík tækifæri. Lúther tók marga þessa lofgerðarsálma (hymni) í kirkjusöng sinn, þ.á.m.: „Herr Gott, dich loben allen wir“, sem er þýzk þýðing á Ambrosíanska lofsöngnum „Te deum laudamus“ (Þig guð, vor drottinn, göfgum vér). Enn fremur tók hann lofsönginn: „Nun komm der Heiden Heilandt“ (Nú kom heiðinnar hjálparráð), sem er þýðing á kaþólska lofsöngnum „Veni redemptor gentium“ frá 4. öld. Margar sekvensur voru teknar í lúterska kirkjusönginn. Sekvens nefndist tónaflétta (melisma), sem „alleluia“-kafli messunnar endaði á. Það mátti hæglega skilja „sekvensíu“ frá laginu, og allan síðari hluta miðalda var ort við sekvensíur á latínu og komst þetta kringum árið 800 inn í, gregoríanska sönginn. Af sekvensíum skal nefna „Mitten wir im Leben sind“ (Mitt í lífi erum vér) , sem er þýzk þýðing á „Media vita in morte sumus“. Ennfremur: „Komm, heiliger Geist, Herre Gott“ (Kom helgur andi, kom með náð) – þýðing á „Veni, sancte spiritus.“

Frægar sekvensur eru „Dies irae, dies illa“ (Dagur reiði, dagur bræði) eftir franziskusmunkinn Tómas frá Celano (d. 1260) og „Stabat mater dolorosa“; textinn er venjulega eignaður Jacopono frá Todi (d. 1306) og liggur hann til grundvallar sálminum; „Kross á negldur meðal manna“.

Fræg tónskáld hafa samið tónlist við þessar sekvensíur. Palestrina, Mozart, Cherubini og Verdi hafa samið tónlist við „Dies irae“ og mörg tónskáld hafa notað gamla miðaldalagið við textann sem uppistöðu í tónsmíðum sínum fyrir hljóðfæri, eins og Paganini, Berlioz (Symphonie fantastique), Liszt, Tchaikowsky, Säent Säens ( Dans macabre). Á 14. öld varð „Dies irae“ sérstakur kafli í Requiem.

Frægar tónsmíðar við „Stabat mater“ eru eftir Josquin de Pres, Palestrina, Astorga, Pergolesi, Haydn, Rossini, Verdi o. fl.

Eins og áður er sagt er hin rótin þýzk þjóðlög, bæði andleg og verzleg, Messusöngurinn, „Kyrie eleison“ naut sérstaklega mikillar hylli hjá almenningi. Þetta ákall var sungið við helgigöngur, kirkjuhátíðir og í hernaði á undan orustum. Upp úr þessu ákalli er til orðinn heill flokkur andlegra ljóða, hinar svonefndu „leisur“ (nafnið myndað af „eleison“). Þessi ljóð mátti þó ekki syngja í kaþólskri kirkju, en Lúther aftur á móti tók margar „leisur“ upp í safnaðarsönginn; hann lagfærði textann eftir sinni kenningu, felldi niður áköll á Maríu og kaþólska dýrlinga . Frægar „leisur“ í lúterskum kirkjusöng eru hvítasunnuleisan: „Nun bitten wir den heil’gen Geist“ (Guð helgur andi heyr oss nú), páskaleisan: „Christ ist erstanden von der Marter allen“ (Kristur reis upp frá dauðum) og jólaleisan: „Gelobt sei der Herre Christ“ (Heiðra skulum vér herrann Krist). Latneski textinn: „In natali domini“ er umsaminn af Lúther.

Mörg lútersk sálmalög voru upphaflega sungin við veraldleg 1jóð. Oft voru bæði lögin og ljóðin tekin upp í kirkjusönginn, en þó þannig, að textanum var vikið við og gefið andlegt innihald, t, d. „Insbruck ich musz dich lassen“ varð að sálminum: „O, Welt ich musz dich lassen“. Í kóralbók okkar Íslendinga er þetta lag við sálminn: „Nú fjöll og byggðir blunda“. Eitthvert fegursta sálmalag lútersku kirkjunnar er „Sjá, morgunstjarnan blikar blíð“ og hefur það verið kallað „drottning sálmalaganna“. Sálmurinn er á frummálinu: „Wie schön leuctet der Morgenstern“ og er eftir prestinn Philipp Nicolai, sem birti sálminn með laginu 1599, en lagið er þýzkt þjóðlag og var það áður sungið við þjóðvísuna „Wie schön leuctet die Äugelein“, Ennfremur skal þess getið, að sálmalagið „Ó, höfuð dreyra drifið“ samdi Hans Leo Haszler ekki við sálminn, heldur við veraldlegan texta: „Mein Gemut ist verwirret“. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum, sem hér hafa verið nefnd.

Mörg þessi þjóðlög tóku furðu litlum breytingum, er þau voru gerð að sálmalögum, því þá var trúaröld, er þau urðu til. Það var eins og þeir, sem þá kunnu að syngja, gætu eigi sungið nema svo, að á því væri einhver helgiblær þrunginn af lífi og krafti trúarinnar. Þetta fann líka Lúther og samverkamenn hans, og því löguðu þeir einmitt þessi fjörugu og andríku þjóðlög til söngs við guðsþjónustu. (Bjarni Jónsson vígslubiskup: Heimir, Rvík, 1924).

Frá byrjun siðbótarinnar og þar til Lúther dó árið 1546 kom út fjöldi lúterskra söngbóka. Í fyrstu var Lúther sjálfur með í vali sálmalaganna og fékk til liðs við sig vin sinn, Jóhann Walther (1496-1570), söngstjóra kjörfurstans í Saxlandi. Fyrsta lúterska sálmasöngsbókin er kennd við Walther og kom út 1524. Þessar söngbækur innihéldu bæði gömul og ný sálmalög og telur Zahn, að ný frumsamin sálmalög hafi verið um 200 á tímabilinu 1525-1545.

Í kóralbók Johanns Walther eru sálmalögin með þremur til fimm röddum og sjálft lagið (cantus firmus) er lagt í tenorinn, eins og venja var á þeim tímum. Elztu lútersku sálmalögin eru raddsett pólífónískt stundum með allt að því átta röddum, líkt og mótettur og madrígalar. En sá ókostur var við þessa listrænu og flóknu raddsetningu, að söfnuðinum gekk illa að greina sjálft lagið, sem var ein milliröddin, og var því sá siður tekinn upp, að kór og söfnuður sungu versin á víxl sálminn á enda, kórinn margraddað, en söfnuðurinn einraddað. Það var ekki fyrr en Lucas Osiander gaf út kóralbók 1586, að stórt spor var stigið til að koma á þjóðlegum safnaðarsöng, því þar er laglínan í fyrsta sinn lögð í efstu röddina. Osiander segir um sálmalögin, „að þau séu raddsett með fjórum röddum þannig, að allur hinn kristni söfnuður geti sungið allt lagið með kórnum.“

Það hefur verið sagt að 16. öldin sé gullöld sálmasöngsins. Þessi gömlu gullaldar-sálmalög eru í kirkjutóntegunum, með breytilegu hljóðfalli (rythmiskur kórall) og lífleg. Þessi lög tóku allmiklum breytingum síðar og á síðari hluta 18.aldarinnar voru þau komin úr upprunalegum tóntegundum og raddsett í dúr og moll; einnig hafði hljóðfallinu verið breytt og allar nótur hafðar jafnlangar. Þessi sálmasöngur var stirður og þunglamalegur, en þannig eru sálmalögin í kirkjusöngsbókum síðan allt fram á þennan dag. Þó hefur nokkur breyting orðið á þessu, því snemma á 19. öldinni fóru að heyrast raddir í Þýzkalandi um það, að þörf væri á að færa þessi gömlu sálmalög í sinn upprunalegan búning, og þegar upp úr miðri öldinni voru nokkur þessara laga birt í þýzkum kóralbókum í sinni upprunalegu mynd. Í Danmörku hefur starf Thomasar Laub í þá átt, að hreinsa gömul sálmalög og þjóðlög, sem fengið höfðu á sig rómantískan blæ 19. aldarinnar, haft mikil og víðtæk áhrif.

Í kóralbók norsku kirkjunnar frá 1926 eru mörg hin gömlu sálmalög frá 16, öld birt í upprunalegri mynd, eða því sem næst, bæði hvað hljóðfall og tóntegund snertir. Í kóralbók íslenzku kirkjunnar frá 1936, sem nú er í gildi, eru nokkur af hinum gömlu sálmalögum í tveimur myndum, þeirri upprunalegu og þeirri, sem algeng er á síðari tímum. Það þótti ekki ráðlegt að gera snöggar og róttækar breytingar að svo stöddu.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is