Helgi Pálsson 1899-1964

Annar Austfirðingur, sem kemur við tónlistarlíf Reykjavíkur, er Helgi Pálsson frá Norðfirði. Hann var, eins og collega hans þórarinn Jónsson frá Mjóafirði, maður hógvær sem aldrei stóð um gnýr, þótt hann væri virkur liðsmaður í baráttumálum listamanna. Báðir voru þeir með beztu tónskáldum þjóðarinnar, en hvor með sínum sérkennum.

Helgi Pálsson var fæddur 2. maí 1899 á Norðfirði. Foreldrar hans eru hjónin Páll Markússon, trésmiður, og Karítas Bjarnadóttir. Helgi útskrifaðist úr Samvinnuskólanum 1922 og nam þá spönsku í skólanum. Hann var síðan eitt ár á Spáni til að kynnast fiskverzlun. Hann var skrifstofustjóri Kaupfélagsins á Norðfirði 1924-33, en fluttist þá til Reykjavíkur með fjölskyldu sína og stundaði síðan skrifstofustörf, lengst af hjá Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna.

Tónlistaráhuginn kom snemma í ljós og dvaldi því Helgi í Reykjavík á árunum 1916-1917 við tónlistarnám hjá Sigfúsi Einarssyni og þórarni Guðmundssyni fiðluleikara. Löngu síðar er hann hann var kominn á fertugsaldur, lærði hann í Tónlistarskólanum í Reykjavík, fyrst kontrapunkt og tónsmíði hjá dr. Franz Mixa, og síðan hjá dr. Victor Urbancic, sem kenndi honum einnig að raddsetja fyrir hljómsveit. (Instrumentation). Námið stundaði hann við hliðina á skyldustarfinu, því hann átti ekki völ á öðru, en það var áhuginn sem knúði hann til að leggja svo hart að sér. Með frekara sjálfsnámi tókst honum að skapa sér vandaðan hljómfræðilegan kontrapunktískan stíl.

Helgi Pálsson er eitt sérkennilegasta tónskáld þjóðarinnar. Hann var fyrir löngu þjóðkunnur maður, þegar hann féll frá og sum verk hans höfðu verið flutt erlendis og hlotið þar góða dóma hinna vandlátustu gagnrýnenda. Hann lærði ungur að leika á fiðlu og samdi síðan einkum verk fyrir fiðlu og strengjahljóðfæri. Það var kammermúsíkin, sem hann lagði sérstaklega rækt við. Af veigameiri verkum þessarar tegundar skal nefna tvo strokkvartetta, svítur fyrir hljómsveit, „Sex íslenzk þjóðlög fyrir fiðlu og píanó, op. 6„ og „Stef með tilbrigðum fyrir fiðlu og píanó, op. 8„. Síðastnefndu tvö verkin hafa verið gefin út á kostnað Menningarsjóðs. Þá skal nefna „Vikivaka fyrir fiðlu og píanó„ og hljómsveitarverkið Canzone og vals.

Eins og áður er sagt lærði Helgi tónsmíði hjá dr. Franz Mixa, en hann hvatti einmitt nemendur sína að kynna sér íslenzk þjóðlög og semja tónverk í stíl þeirra. Eftir þessum orðum kennarans fór Helgi og byggði list sína að miklu leyti á íslenzkum þjóðlögum, sem hann útsetti oft og einatt fagurlega. Í handritum eru til slík lög eftir hann, þar á meðal Stef með tilbrigðum um íslenzkt þjóðlag (Haust) fyrir fiðlu og píanó. Þjóðlagaraddsetningar Helga eru textalausar, því að þetta eru fiðlulög. Ofangreint þjóðlag, Haust, er sungið við textann „Sumri hallar, hausta fer“.

Helgi samdi ennfremur einsöngslög og kórlög og skal þá sérstaklega nefna lagið „Íslandsminni“, sem samið fyrir blandaðan kór og einsöng með hljómsveitarundirleik. Einsöngslagið Vornótt (Við nemum ei staðar, en höldum ei hart), við texta eftir Einar H. Kvaran, hefur komið út sérprentað. Smálagið „Kom blíða tíð“ er birt í Nýju söngvasafni 1949. Mörg sönglög og önnur tónverk eru í handritum og bíða síns tíma.

Músíkgáfa var sterkasti þátturinn í lífi Helga Pálssonar. Hann var hugmyndaríkur og gáfa hans var ljóðræn. Hugur hana var mikið bundinn við tónlist og tónlistarmál. Hann var einn af áhugamestu stofnendum Tónskáldafélags Íslands 1945 og  Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar 1948. Í vinahóp var hann skemmtilegur og hnittinyrði hrutu af vörum hans, þegar svo bar undir, en ekki var broddur í orðunum, því hann var góðmenni og nærgætinn. Listamenn mátu hann mikils, enda ávallt reiðubúinn að styðja hvert það málefni, sem horfði listinni til heilla.

Helgi Pálsson kvæntist 25 ára gamall Sigríði Erlendsdóttur frá Sturlu-Reykjum, en missti hana er hún lézt eftir strangan sjúkdóm haustið 1950. Hún var listhneigð og listrænar hannyrðir hennar prýddu heimilið. Dóttir þeirra er Gerður myndhöggvari í París, sem gift er franska listmálaranum Jean Ludoa.

Helgi Pálsson andaðist eftir langvarandi veikindi 7. maí 1964 og var þá orðinn 65 ára gamall og fjórum dögum betur.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is