„Gömlu lögin“

„Gömlu lögin“ eru íslenzk þjóðlög, sem ávallt verða talin með þeim beztu og sérkennilegustu, enda hafa þau dregið að sér huga fræðimanna og verða þeim rannsóknarefni enn um sinn. Gamla fólkinu þótti þessi sálmalög svo falleg, að það vildi ekki skipta á þeim og nýju lögunum, sem þá var farið að innleiða, enda hvíldi yfir þeim sá guðræknis- og helgiblær sem það fann ekki í hinum nýja söng eða í „nýju lögunum“, sem svo voru kölluð og prentuð eru í Kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar árið 1885 og enn eru sungin í kirkjum landsins. „Gömlu lögin“ voru sungin í Bessastaðaskóla, þar sem piltar lærðu þau hver af öðrum, hinir yngri af þeim eldri, og má með nokkrum rétti segja, að þau hafi dáið út með Bessastaðastúdentum, því þegar skólinn var kominn til Reykjavíkur, var strax farið að kenna hinn nýja söng eftir réttum nótum.

Í safni Bjarna Þorsteinssonar „Íslenzk Þjóðlög“ er þessi tegund þjóðlaga höfð í tveimur flokkum: fyrst eru gömul lög við sálma í sálmabókum okkar (bls. 680-723), og síðan gömul lög við Passíusálmana, (bls. 724-763), flest nóteruð af Bjarna Þorsteinssyni eins og Þorleifur eldri á Siglunesi söng þau fyrir hann. En hvað eru „gömul lög“?Flestir myndu svara, að það séu sömu lögin, sem fyrir um það bil hálfri fjórðu öld voru fengin í Grallarann og Hólabókina, að vísu meira eða minna breytt í munni fólksins á þeim langa tíma, sem liðinn er síðan. Hér á eftir verður stuttlega drepið á skoðanir þeirra manna, sem mest hafa kynnt sér þetta mál.

Áður hefur verið minnst á skoðun Péturs Guðjohnsens, sem taldi lögin rétt komin til okkar á nótunum, en hefðu síðan afbakast og misst allt hið eiginlega eðli sitt. Hann telur þetta eiga rót sína að rekja til söngkennslunnar í Skálholts- og Hólaskóla, sem fór að líkindum mest fram hljóðfærislaust og var svo ófullkomin, að vafasamt er, hvort lögin hafi nokkurn tíma verið rétt sungin.

Bjarni Þorsteinsson er sammála Pétri Guðjohnsen um orsök þess, að lögin fengu smám saman breytta mynd, en hann hefur allt aðra skoðun á gildi þeirra. Og þótt hann telji mörg þeirra, og ef til vill flest þeirra, upphaflega af útlendum uppruna, sem hann telur þó óvíst, þá sé breytingin orðin svo gagnger, að óhætt er nú að segja, að þau séu orðin íslenzk þjóðlög, Hann segir m. a, um þessi lög: „Mörg eða flest af þessum lögum eru þannig, að um  þau má óhætt að segja, að þau séu í húð og hár innlend þjóðlög, algjörlega þjóðarinnar verk, upprunnin og uppfóstruð hjá þjóðinni sjálfri um óralangan tíma og þau orðin það, sem þau eru, við það að hafa verið sungin þannig mjög lengi, og hafa alltaf gengið mann frá manni, kynslóð eftir kynslóð, nótnalaust, án þess að hafa nokkurn tíma verið nóteruð upp fyrr en nú. Eru þessi lög því að vissu leyti einna þjóðlegust allra þjóðlaganna.“

Sigtryggur Guðlaugsson, prófastur á Núpi í Dýrafirði, ritaði grein í tímaritið Tónlistin árið 1944, sem hann nefnir: „Hugleiðingar um forníslenzkan kirkjusöng“. Í þessari grein ræðir hann „gömlu lögin“ og bendir á, að samanburður sýni yfirleitt, að ættarmót er sumstaðar lítið og sumstaðar ekkert með þeim og grallaralögunum. Séra Sigtryggur var vel að sér í gömlum söng og hafði sjálfur rannsakað þetta mál. Hans skoðun er sú, að þessi lög hafi orðið til hjá þjóðinni sjálfri og megi kenna þar áhrifa af kaþólska kirkjusöngnum. Í kaþólskri tíð var langmest rækt lögð við messusönginn, og þótt sú söngþekking hafi aðallega verið hjá hinum lærðu þjónum kirkjunnar, hafði söfnuðurinn yndi af að hlusta á þennan söng og festi sér tónana í minni. En svo skall siðbótin yfir, flestum ógeðfelld vegna þeirrar aðferðar, sem höfð var við innleiðslu hennar. Söngurinn hætti, en þá hafa sennilega í kyrrþey verið endurrifjaðir hinir glaðlegu söngsveipir, sem héldu við minningunni um latínusönginn. Séra Sigtryggur hyggur, að hin nýju þýzku sálmalög, sem hingað komu á nótum með siðbótinni, hafi aldrei fest hér rætur. Grallaranóturnar voru flestum dauður bókstafur. Séra Sigtryggur heldur, að þjóðin hafi bezt vaknað til sálmasöngs, er sálmar Hallgríms Péturssonar komu til sögunnar. Hún kunni bezt við þá. En hinn gregorianski kaþólski söngur var runninn þjóðinni svo í merg og blóð, að sálmalögin urðu ósjálfrátt með einkennum hans. Þaðan eru hinir „gregoriönsku sveipir“, eins og hann kemst að orði, komnir í gömlu passíusálmalögin. Viðhöfnin eða skrautið í hinum gömlu passíusálmalögum á rót sína í latínusöngnum að skoðun hans. Þá þekkjum við skoðun Sigfúsar Einarssonar á sálmalögum, sem eru íslenzkar breytingar á útlendum lögum. Skoðun sína setur hann fram í grein í söngmálablaðinu Heimi árið 1938, sem hann nefnir: Weyse og sálmasöngsbók hans handa Íslendingum.

Þessi fyrsta fjórraddaða kóralbók okkar Íslendinga er venjulega nefnd Weyse-handritið, því hún var aldrei prentuð. Hún kom í dómkirkjuna í Reykjavík árið 1840, er Pétur Guðjohnsen tók þar við organistastöðunni. Frumritið er að líkindum glatað, en afrit með hendi Péturs er geymt í Landsbókasafninu. Í handritinu eru 60 sálmalög, sem Páll Melsteð og ef til vill Pétur Guðjohnsen, báðir stúdentar frá Bessastöðum, sungu fyrir prófessor Weyse, eins og áður hefur verið sagt frá. Sigfús Einarsson bendir á, að á þeim 20 árum, sem liðu frá því að handritið komst í hendur Péturs Guðjohnsens og þar til fyrsta sálmasöngsbók hans kom út, hafi hann verið vakinn og sofinn í að kynna sér erlendar sálmasöngsbækur og hafi því ekki hjá því farið, að hann hafi á þessum tíma orðið margs vísari um ýmis af sálmalögunum sem hann hafði heyrtog lært á Íslandi, og þá eðlilega litið þau nokkrum öðrum augum. Sigfús Einarsson getur ekki láð honum, þótt hann notaði handritið með allri varúð og birti síðar mörg af lögunum í öðru gervi en því, sem þau voru í handritinu og hafnaði sumum alveg. Síðan segir hann: „Ég get ekki litið öðru vísi á en sú gagnrýni hafi verið réttmæt og nauðsynleg. Annað mál er það, hvort ekki hefði mátt taka upp einhver þessara sálmalaga í tveim myndum, þ.e.a,s, frummyndinni og þeirri, sem lögin höfðu fengið á sig hér á landi. En slíkt gat þó aðeins komið til mála, ef hin íslenzka breyting á fornu, útlendu lagi hefði sjálfstætt og verulegt gildi. Að svo hafi verið í einstaka tilfellum, skal ég ekki fortak, en ég þykist mega fullyrða, að þau tilfelli hafi verið mjög fá.“

Ég hef undir höndum ljósritaða útgáfu af 26 passíusálmalögum, sem Þorleifur Erlendsson (f. 1876) frá Jarðlangsstöðum í Borgarhreppi hefur skrásett og nefnir „Gömlu lögin Passíusálmana“. Þorleifur var gáfaður maður, sem gjörþekkti hinn gamla söng. Hann lýsir skoðun sinni í formálsorðunum að útgáfunniog er hann sömu skoðunar um eðli og uppruna þessara sálmalaga og séra Sigtryggur á Núpi. Hann segir m.a.: „Gömlu lögin“ eru vissulega mjög gömul, eldri en Grallarinn mörg þeirra, enda virðast þau bera með sér svipmót katólska latínu söngsins (gregorianska söngsins) og af þeirri rót runnin.“

Þorleifur segir ennfremur: „Sálmasöngurinn gamli var sunginn með tónaröð kirkjutóntegunda, sem taldar eru 6. Það þótti spilla lögunum, þegar einstöku menn fóru að breyta þeim í dúr eða moll, eftir að nótnabækur Péturs Guðjónssonar komu út, t.d. breyta frygiskri tóntegund í E-moll eða lydiskri tóntegund í F-dúr. Flest gömlu sálmalögin (ekki öll) voru sungin seint (legato), það er bundið, ekki stakkato. Ekki má hrista þau í sundur hrottalega. Víða er samdráttur (synkope). Taktur er alltaf reglubundinn. Tónar lagsins voru háðir framburði hins talaða orðs, og voru langir eða stuttir eftir því, sem framburður textans gaf tilefni til, líkast því, er góður lesari les óbundið mál með tilfinningu – og setningaáherzlu. Fyrir því hef ég ekki sett taktstrik nema í fáum lögum.“ Þessi lýsing gæti alveg eins átt við latínusönginn í katólskri tíð. Hún sýnir, að seint á 19, öld voru „gömlu lögin“ sungin á sama hátt og klerkarnir höfðu sungið gregoriönsku messulögin í kaþólsku kirkjunni í fimm aldir hér á landi. Þótt siðbótin kæmi með nýjan söng – lútersku sálmalögin hélt almúginn fast við sinn gamla söng og söngstíl, sumsstaðar fram undir síðustu aldamót. Þorleifur Erlendsson segir ennfremur í formálanum: „Gamli söngurinn tók að leggjast niður í minni sóknarkirkju upp úr miðjum 9. tug 19. aldar, þegar „nýju lögin“ fara  að tíðkast, eins og áður er sagt, 1885 (þ.e. þegar orgel kom fyrst í Borgarkirkju og kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar var komin út). Ekki held ég, að gömlu söngmönnunum hafi þótt tilkomumikil lofgjörðin í húsi drottins með nýja söngnum og hafi hugsað eitthvað líkt og felst í þessum orðum: „Lýður Þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta hans er langt frá mér.“ Víst er það, að safnaðarsöngurinn varð fábreyttari í kirkjunni með tilkomu „nýju laganna“, og kirkjugestir tóku ekki eins mikinn þátt í safnaðarsöngnum og áður, þegar „gömlu lögin“ voru sungin með sínum helgihljóm.“

Þessi ummæli sýna, hve „gömlu lögin“ voru gamla fólkinu kær. En hvernig litu brautryðjendur hins nýs söngs, þeir Pétur Guðjohnsen og Jónas Helgason, á hinn gamla söng. Pétur segir í formálanum fyrir sálmasöngsbókinni 1861, að þessi gömlu lög séu komin rétt til okkar á nótunum, en hafi spillzt svo í meðförum þjóðarinnar vegna hljóðfæraskorts og vankunnáttu, að „þau væru búin að missa allt hið eiginlega eðli sitt í munni lýðsins, og sum orðin af þeim ófreskjum sem sérhver óspillt tilfinning flýr fyrir.“

Einar Jónsson, síðar prófastur, sem var lærisveinn Péturs Guðjohnsens, segir frá því í æviágripi um Pétur, sem prentað er framan við hina þrírödduðu sálmasöngsbók hans frá 1878, að Pétur hafi fengið mörg ónot og óþægindi hjá ýmsum mönnum bæði í orði og verki, því að hinn nýikirkjusöngvar og kennsla hans var illa séð af þeim, sem héldu fast við gamla sönginn. Hann segir þar m. a. um söngkennslu Péturs í skólanum: „Og að fáum árum liðnum hafði honum tekist að lagfæra hinar skemmdu tilfinningar lærisveina sinna, sem honum var jafnan svo annt um, og koma þeim til að sjá hið fagra í sönglistinni, en sem þeir áður annað hvort ekki þekktu eða þótti jafnvel ljótt“.

Það er eftirtektarvert, að Pétur Guðjohnsen talar um spilltar tilfinningar og lærisveinn hans, Einar Jónsson prófastur, um skemmdar tilfinningar. Að baki þessu orðalagi fólst grundvallar skoðun þeirra á eðli tónlistarinnar. Þá var litið svo á, að tóntegundirnar dúr og moll væru eðlilegar eða náttúrulegar tóntegundir, eins og það var kallað. Allar aðrar tóntegundir voru því ónáttúrlegar, þar á meðal kirkjutóntegundirnar gömlu, en tóneðli þeirra var einmitt í flestum hinum gömlu þjóðlögum okkar. Þetta tóneðlihélt gamla fólkið fast við og af því spratt mótspyrnan. Þetta var ríkjandi skoðun á þeim tíma og þess vegna raddsetti Weyse, og síðan nemandi hans Bergreen, undantekningarlaust gömul dönsk þjóðlög í dúr eða moll, þótt þau væru upphaflega samin í kirkjutóntegundunum gömlu. Þeir litu svo á, að í þjóðlögum ættu hinar náttúrulegu tóntegundir að ráða. Þessari skoðun var hrundið, þegar lengra leið á öldina, sérstaklega af hinum lærða söngfræðingi Thomas Laub í Danmörku, og þýzkumsöngfræðingum, en allt það mál er sérstakur kapítuli.

Jónas Helgason dómkirkjuorganisti starfaði í sama anda og Péturs Guðjohnsen og raddsetti þau fáu íslenzku þjóðlög, sem eru í söngheftum hans í dúr.

Það verður ekki sagt, að ríkt hafi gagnkvæmur skilningur hjá þeim, sem  héldu fast við hinn þjóðlega gamla söng og vakningamönnunum, sem voru að innleiða hinn nýja söng, sem allur var af útlendum toga spunninn. Það er sönnu næst, að hvorugur aðilinn hafi skilið annan og allt eðli málsins.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is