Árni Thorsteinsson

Arni_Thorst-portretÁrni Thorsteinson er fæddur 15. okt. 1870 í Reykjavík, í landfógetahúsinu við Austurstræti, þar sem Hressingarskálinn er nú. Þar steig hann fyrstu sporin og þar ólst hann upp. Í Reykjavík ól hann aldur sinn, að undanteknum námsárunum í Kaupmannahöfn. Hann andaðist 16. okt. 1962 og var þá orðinn 92 ára gamall og einum degi betur.

Faðir hans var Árni Thorsteinson landfógeti, bróðir þjóðskáldsins Steingríms. Þeir voru synir Bjarna amtmanns og konferensráðs Þorsteinssonar á Arnarastapa og konu hans Þórunnar Hannesdóttur biskups Finnssonar í Skálholti. Bjarni amtmaður tók fyrstur upp ættarnafnið Thorsteinson. Hann var einn af aðalstofnendum Bókmenntafélagsin.s og talinn einhver vitrasti og lögfróðasti embættismaður landsins á sínum tíma. Tæp 30 síðustu æviárin var hann alblindur og bjó lengst af eftir það í húsi því við Austurvöll, sem Steingrímur sonur hans eignaðist eftir hann. Bjarni amtmaður átti það sameiginlegt sonarsyni sínum, tónskáldinu, að verða fjörgamall. Hann dó 95 ára að aldri árið 1876.

Kona Árna landfógeta var Sophia Kristiana Hannesdóttir kaupmanns Johnsen, en Hannes var sonur Steingríms Jónssonar biskups í Laugarnesi og konu hans Valgerðar Jónsdóttur sýslumanns á Móeiðarhvoli. Valgerður var ekkja eftir Hannes biskup Finnsson í Skálholti, er Steingrímur fékk hennar, og er móðir Þórunnar, ömmu tónskáldsins í föðurætt. Valgerður er því langamma tónskáldsins í báðar ættir.

Börn Árna landfógeta og Sophiu Kristjönu, konu hans, eru þessi: Hannes lögfræðingur og bankastjóri Íslandsbanka, Þórunn, gift Franz Siemsen sýslumanni í Hafnarfirði, Sigríður, fyrri kona Páls Einarssonar hæstaréttardómara og fyrsta borgarstjóra í Reykjavík, og Bjarni, sem var sjúklingur lengst af ævinnar.

Árni Thorsteinson tónskáld varð stúdent 1890, fór þá til Hafnar, varð cand, phil. árið eftir og las lögfræði í nokkur ár, en hætti námi, því sönglistin glapti hann. Kom heim til Reykjavíkur vorið 1896, en fór aftur til Hafnar í febrúar 1897 og lærði ljósmyndafræði. Stofnsetti síðan ljósmyndastofu í Reykjavík um haustið 1897 og rak hana í 21 ár, til 1918. Jafnhliða ljósmyndarastörfum hafði hann frá 1907 umsjón með brunatryggingum húsa í Reykjavík fyrir danskt vátryggingarfélag. Síðan gerðist hann bókhaldari hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands og gegndi því starfi um 10 ára skeið (1918-29). Árið 1930 gerðist hann starfsmaður Landsbankans, fyrst við eftirlit með seðlaprentun með Halldóri Jónassyni frá Eiðum, sem hafði umsjón með því verki, og frá 1940 í víxladeild bankans, þar til hann varð að fara frá fyrir aldurs sakir.

Meðan Árni var við ljósmyndaranámið í Kaupmannahöfn, lærði hann að syngja hjá Samson prófessor, gömlum óperusöngvara, og sótti það nám fast. Árni var síðan um tíma kunnur einsöngvari í Reykjavík.

Aldamótaárið 1900 gekk Árni að eiga Helgu Einarsdóttur dannebrogsmanns Guðmundssonar á Hraunum í Fljótum. Þau eignuðust fjögur börn, þrjár dætur, Soffíu, sem giftist enskum bankamanni, Jóhönnu, gjaldkera hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur, og Sigríði, ekkju Jóhanns Sæmundssonar prófessors í læknisfræði, og einn son, Árna lögfræðing, mesta efnismann, sem dó á bezta aldri. Árni missti konu sína 1958.

Listhneigðina sótti Árni í báðar ættir. Steingrímur skáld, föðurbróðir hans, hafði yndi af tónlist og hafði samvinnu við Jónas Helgason um lagaval og söngtexta í sönghefti hans. Móðurbróðir Árna var Steingrímur Johnsen söngkennari Latínuskólans. Það var einmitt Steingrímur Johnsen, sem opnaði eyru hans og vakti áhuga hans á söng og tónlist.

Í Latínuskólanum var Árni strax tekinn í söngfélag skólapilta og stúdenta. Hann lét ekki þetta nægja, heldur söng einnig í öðru söngfélagi. Árni söng ávallt fyrsta bassa – hafði þýða barytónrödd.

Á Hafnarárunum söng hann í danska stúdentakórnum og átti þaðan góðar endurminningar, sérstaklega í sambandi við Grieg, sem stjórnaði kórnum í tilefni af fimmtugsafmæli sínu, en þá söng kórinn hið kunna kórlag eftir hann: „Landkjenning“. Hreif norska tónskáldið hvern mann, bæði kór og hljómsveit, og varð þessi stund Árna síðan ógleymanleg. Þá átti hann einnig margar góðar endurminningar um Hartmann gamla, sem mjög hafði komið við sögu kórsins og var þar heiðursfélagi. Árni var einn af stofnendum „17. júní“ og söng í þeim kór. Þessi ágæti karlakór, sem Sigfús Einarsson stjórnaði, frumflutti nokkur karlakórlög eftir Árna, sem síðan urðu þjóðkunn. Árni æfði og stjórnaði um tíma söngflokki stúdenta og var á sínum yngri árum einn af helztu einsöngvurum bæjarins, eins og áður er sagt.

Árni var farinn að semja sönglög fyrir aldamótin. Lagið „Er sólin hnígur hægt í djúpan sæ“ (Hannes Hafstein) samdi hann fullur saknaðar við fráfall frænda síns, Steingríms Johnsen, sem lézt í ársbyrjun 1901. Lagið „Álfafell“ birtizt í „Hörpuhljómum“ 1905, og gat þá engum dulist, að komið var fram frumlegt tónskáld með þjóðinni, því þetta er eitt af snjöllustu karlakórslögum okkar. En á fremsta bekk í okkar fámenna tónskáldahóp fær Árni sæti, þegar „Tólf einsöngslög með píanóundirleik“ komu út árið 1907. Hann var þá orðinn 37 ára gamall. Þessi lög urðu nær öll þjóðkunn á skömmum tíma og hafa síðan verið mikið sungin í landinu. Lögin eru þessi: „Sólskinskúrir“ (Steingr. Thorst.), „Dalvísur“ (Jónas Hallgr.), „Vorgyðjan kemur“ (Guðm. Guðmundsson), „Örninn“ (Þorst. Gíslason), „Áfram“ (Hannes Hafstein), „Kirkjuhvoll“ (Guðm. Guðmundsson), „Rósin“ (Guðm. Guðmundsson), „Þess bera menn sár“ (Hannes Hafstein), „Nótt“ (Magnús Gíslason), „Fögur sem forðum“ (Guðm. Guðmundsson), „Nafnið“ (Stgr. Thorsteinsson) og „Meðalið“ (Hannes Hafstein).

„Þrjú lög úr Lénharði fógeta“ komu út 1913. Lögin voru samin eftir beiðni höfundar, Einars H. Kvaran, og Ragnars sonar hans, og sungin af Stefaníu Guðmundsdóttur í leikritinu, er það var frumsýnt í Iðnó og leikið allan veturinn. Lögin eru þessi: „Taflið“, „Landið mitt“ og „Dauðinn ríður um ruddan veg“, ljóðræn og falleg lög.

„Tíu sönglög fyrir karlakóra“ voru gefin út af Þorsteini Gíslasyni ritstjóra árið 1921. Kunnust eru: „Öll él birtir upp um síðir“ (Bjarni Jónsson frá Vogi), „Ljósið loftin fyllir“ (Þorst. Gíslason), „Sólu særinn skýlir“ (Steingr. Thorst.), „Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn“, sem er sérkennilegt lag og ljóðræn perla; textinn eftir Grím Thomsen, og „Rýkur mjöll yfir rennslétt svell“ (Guðm. Guðmundsson), sem áður hefur verið minnst á „Álfafell“).

Árið 1921 og 1922 komu út Einsöngslög með píanóundirleik I – IV, einnig útgefin af Þorsteini Gíslasyni ritstjóra. Í þessum heftum eru endurprentuð fjögur lög, sem eru í útgáfunni frá 1907. Meðal nýrra laga í þessum heftum eru „Söngur víkinganna“ (Gísli Brynjólfsson), „Ingjaldr í skinnfeldi“ ( úr Bárðarsögu Snæfellsáss), „Valagilsá“ (H. Hafstein), „Friður á jörðu“ (Guðm. Guðmundsson), „Kvöldriður á galdraöld“ (Grímur Thomsen), „Kvöldklukkan“ (Stgr. Thorst.) og „Fallin er frá fegursta rósin í dalnum“ (Guðm. Guðmundsson).

Í íslenzkum söngvasöfnum eru birt nokkur kunnustu sönglögin, sem eru í framangreindum útgáfum, og auk þess lögin „Er sólin hnígur“ og „Þar sem háir hólar“, sem bæði höfðu komið út sérprentuð. Ennfremur lagið „Landið vort fagra“, en textann hefur tónskáldið sjálft ort.

Meira en helmingur af sönglögum Árna eru enn óprentuð, þar á meðal lagið „Oft finnst oss vort land eins og helgrinda hjarn“ (Stgr.Thorst.) sem oft hefur heyrst sungið í útvarpið.

Árni er ljóðrænt söngvatónskáld og lögin eru stemningslög. Í mörgum er þungur alvörutónn, í öðrum hógvær gleði og í enn öðrum karlmannlegur þróttur. Hann samdi lögin í tómstundum, en kastaði þó ekki höndum að verkinu, heldur kynnti sér kvæðin vel og vandlega, því hann taldi mikilsvert, að lögin falli vel að texta. Og þegar vel tókst, gaf hann meira en skáldið og hóf ljóðið upp í hærra veldi.

Árni var algjörlega sjálfmenntaður sem tónskáld. Hann átti það sameiginlegt mörgum merkum tónskáldum að hafa aflað sér tónfræðimenntunar upp á eigin spýtur.

Árni var tónlistargagnrýnandi í mörg ár, síðast við Morgunblaðið. Er þetta vandasamt starf og vanþakklátt, og á þeim árum unnið endurgjaldlaust af áhuga fyrir tónlistinni. Hann ritaði af góðvild og skilningi, sagði kost og löst á því, sem um var dæmt, og gerði það eins og gentilmaður. Slíkt prúðmenni tamdi sér ekki þann götustrákstón, sem sumir halda að þurfi að vera í slíkum skrifum, svo bragð sé að.

Árni hafði vakandi auga á öllu því, sem ritað var um íslenzka tónlist, og þó einnig því, sem látið var ósagt um hana. Hann fann sárt til þess, að hún var hornreka hjá sagnfræðingum okkar, og að gengið var að heita má algjörlega fram hjá henni í sögu Reykjavíkur, sem gefin var út í tveimur bindum. Aftan við „Hörpu minninganna“, sem eru minningar hans færðar í letur af Ingólfi Kristjánssyni (Rvík. 1955), eru „Drög að söng- og tónlistarsögu Reykjavíkur“ eftir hann. Meginkjarninn er söngsaga okkar frá því að viðreisnin hefst í söng um miðja 19. öld með Pétri Guðjóhnsen og fram til ársins 1930. Það var mikil þörf á, að þessu tímabili yrði gerð skil af manni, sem gjörþekkti það. Árni Thorsteinson var einmitt rétti maðurinn, því hann hafði náin kynni af flestum þeim mönnum, sem þar koma við sögu, og eykur það gildi bókarinnar sem heimildar.

Árni Thorsteinson tónskáld var fríður sýnum, fyrirmannlegur og prúðmenni. Hann bar það með sér, að hann var af höfðingjum kominn og hlaut að verða eftir honum tekið, hvar sem hann fór. Hann var ljúfmenni, en fastur fyrir, ef á hann var leitað og ákveðinn í skoðunum. Hann var glaðlegur í viðræðum, hafði glöggt auga fyrir öllu skoplegu, en góðgjarn og veglyndur. Hann var undir niðri alvörumaður, eins og mörg sönglögin hans bera vott um.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is