Árni Beinteinn Gíslason

Einn af söngstjórum söngflokks skólapilta og stúdenta var Árni Beinteinn Gíslason (1869-1897). Hann var fæddur í Reykjavík, sonur Gísla Magnússonar, kennara við Latínuskólann, og Ingibjargar Schulesen, ekkju Sigfúsar Schulesen, sýslumanns í Þingeyjarsýslu. Árni Beinteinn varð stúdent 1886 með bezta vitnisburði, þá enn ekki orðinn 18 ára, og var það sjaldgæft í þá daga, að svo ungur stúdent útskrifaðist. Hann sigldi til Hafnar, las lögfræði við Háskólann, en lauk ekki prófi því að margt annað heillaði hugann, einkum tónlist. Hann andaðist þar 27 ára gamall.

Árni Beinteinn var stjórnandi söngflokks skólapilta og stúdenta 1884-86. Ólafur Davíðsson segir um hann: „Og er sönglist talin hafa þá verið í mestum blóma undir forustu hans. Átti hann mikinn þátt í því,að ýmsir skólapiltar, sem síðar hafa orðið gæðasöngmenn, lærðu að beita hljóðum sínum.“ Árni Thorsteinson, sem var skólabróðir hans, telur hann afbragðs söngstjóra og segir: „Var það löngu síðar mál margra, sem gott skynbragð báru á söng og smekkvísa söngstjórn, að aldrei síðar hefðu þeir heyrt betri kórsöng en undir hans stjórn, jafnvel ekki í Kaupmannahöfn, erþeir heyrðu þar sænska stúdenta syngja.“ Ennfremur segir Árni Thorsteinson; „Þessi sönghópur hafði þá á að skipa tveimur ágætum einsöngvurum. Voru það þeir Geir Sæmundsson, síðar vígslubiskup, og Björn Gunnlaugur Blöndal, sem ég hef áður minnst. Geir var framúrskarandi raddmaður, tenór. Var rödd hans svo fögur og hrífandi í þá daga, að áheyrendum flestum vöknaði um augu,er hann söng einsöng með kórnum, t.d. í lagi eftir Ole Bull, „Paa solen jeg ser“, „Du gamla, du fria“ ogfleiri lögum, sem sungin voru á samsöngvum félagsins, en þeir voru jafnan haldnir í skólahúsinu og bæjarbúum boðið til þeirra. Björn G. Blöndal var fyrirtaks bassbarytón, röddin sterk, karlmannleg og hljómmikil.“

Árni Beinteinn samdi um 20 sönglög. Afþeim hafa aðeins tvö verið prentuð; „Árræði, dirfskaog orka og kraftur“, sem íslenzkir stúdentar í Kaupmannahöfn sungu á fimmtíu ára afmæli endurreisnar Alþingis. Textinn er eftir Þorstein Gíslason. Lagið er prentað í Sunnanfara 1895. Hitt lagið er „Vindarnir þjóta með snarhvini snarpa“, prentað í Íslenzkt söngvasafni II, nr. 129, og í Söngvasafni L. B. K. 1954, 2, hefti, nr. 14, þar raddsett fyrir blandaðan kór, en lagið er upphaflega samið sem karlakórslag. Textinn er lauslega þýddur af Guðmundi Guðmundssyni.

Í eftirmælum eftir Árna Beintein Gíslason í Sunnanfara 1897 segir Ólafur Davíðsson, að það hafi verið ætlun Árna Beinteins „að semja íslenzka söngsögu og greiða úr því, hver af þessum lögum, sem nótusett eru í íslenzkum handritum, eru íslenzk“. Af þessu tilefni segir Bjarni Þorsteinsson í íslenzkum þjóðlögum, bls. 502: „Svo mikið er víst, að hann var mjög stutt kominn á veg í þessu mikla verki; hann hafði eftir eftirlátnum blöðum hans að dæma, er ég kynnti mér 1899, aðeins skrifað upp fáein lög úr tveimur handritum í Árnasafni. En þar er ég fullkomlega á sama máli og Ólafur Davíðsson, að vér höfum misst mikið, þar sem Árni Beinteinn var, bæði að því er snertir rannsókn íslenzkra þjóðlaga í handritum og ekki síður tilbúning nýrra laga (komposition), því í þeirri grein hafði hann hina beztu hæfilegleika.“

Bjarni Þorsteinsson tók stúdentspróf vorið 1883  með 1. einkunn og varð þriðji hæstur á prófinu. Í sagnfræði fékk hann ágætis einkunn og hefur sú fræðigrein orðið honum snemma hugleikin. Næstu árin var hann við skrifstofu- og kennslustörf í Reykjavík, en veturinn 1885-86 var hann heimiliskennari og sýsluskrifari hjá Lárusi Blöndal á Kornsá í Vatnsdal, þar sem hann kynntist konuefni sínu, Sigríði, dóttur sýslumannsins. Bjarni var latínumaður góður og var honum falin stundakennsla í því fagi í Latínuskólanum 1884-85 í fyrsta og öðrum bekk. Bjarni afréð svo að fara í Prestaskólannhaustið 1886 og lauk þaðan embættisprófi24. ágúst 1888. Um haustið vígðist hann til Hvanneyrarprestakalls í Siglufirði og þjónaði því kalli fram á sumar 1935, er hann fékk lausn frá embætti.

Meðan Bjarni var í Prestaskólanum, stjórnaði hann söngflokki skólapilta og stúdenta. Hann var því tvívegis söngstjóri kórsins og jafnframt sá síðasti, því eftir það varð aðskilnaður, þannig að skólapiltar höfðu sérstakan söngflokk fyrir sig.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is